Kópavogur Íbúum hefur fjölgað mjög í þeim sveitarfélögum sem teljast til Suðvesturkjördæmis. Því fær kjördæmið eitt þingæsti til viðbótar næst.
Kópavogur Íbúum hefur fjölgað mjög í þeim sveitarfélögum sem teljast til Suðvesturkjördæmis. Því fær kjördæmið eitt þingæsti til viðbótar næst. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Stefnt er að því að landskjörstjórn komi saman í næstu viku og úthluti þingsætum í samræmi við úrslit alþingiskosninganna á laugardaginn.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Stefnt er að því að landskjörstjórn komi saman í næstu viku og úthluti þingsætum í samræmi við úrslit alþingiskosninganna á laugardaginn. Landskjörstjórn ákvað á fundi sínum í gær að fundurinn verði haldinn næstkomandi þriðjudag, 5. október.

Á þessum úthlutunarfundi mun liggja formlega fyrir að við næstu alþingiskosningar muni eitt þingsæti færast frá Norðvesturkjördæmi yfir í Suðvesturkjördæmi, í samræmi við íbúaþróun. Þingsætin verða sjö í norðvestri og fjórtán í suðvestri.

Í 9. grein kosningalaganna er svo fyrir um mælt að eftir hverjar alþingiskosningar skuli landskjörstjórn reikna út hvort kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum skv. 2. mgr. 8. gr., séu helmingi færri í einu kjördæmi en kjósendur að baki hverju þingsæti í einhverju öðru kjördæmi, miðað við kjörskrá í nýafstöðnum kosningum, sbr. 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Ef svo er skal landskjörstjórn breyta fjölda kjördæmissæta í kjördæmum þannig að dregið verði úr þessum mun. Sú breyting má þó aldrei verða meiri en þörf krefur hverju sinni til þess að fullnægja fyrirmælum þessa stjórnarskrárákvæðis.

Þessi tilfærsla hefur legið í loftinu frá síðustu kosningum 2017, en litlu munaði að breyting yrði eftir þær kosningar. Þá reiknaðist misvægið 1,99, eða rétt undir tveimur, og því varð engin breyting.

En nú hefur orðið slík fjölgun íbúa í Suðvesturkjördæmi að misvægi er orðið yfir leyfilegum mörkum og breytingin gengur því í gegn.

Landskjörstjórn auglýsir breytinguna í Stjórnartíðindum jafnskjótt og hún hefur verið gerð og tekur hún gildi við næstu alþingiskosningar héðan í frá.

Rifja má upp að eftir kosningarnar 25. apríl 2009 kom í ljós að misvægi atkvæða milli þessara sömu kjördæma hafði aukist svo að nauðsynlegt reyndist að flytja tvö þingsæti milli þeirra og kom breytingin til framkvæmda við kosningarnar 2013.