Herdís Þuríður Sigurðardóttir fæddist á Húsavík 7. júlí 1976. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 18. september 2021.

Foreldrar Herdísar eru Anna María Karlsdóttir, f. 3. okt. 1954, og Sigurður Brynjúlfsson, f. 18. júlí 1954. Bræður Herdísar eru Brynjúlfur, f. 19. apríl 1978, og Karl Hannes, f. 12. sept. 1986.

Eiginmaður Herdísar er Óli Halldórsson, f. 10. maí 1975. Börn þeirra eru: 1) Halldór Tumi, f. 11. sept. 2001; 2) Elín Anna, f. 11. jan. 2003; 3) Sigurður Búi, f. 15. des. 2009, og 4) Brynjúlfur Nóri, f. 7. maí 2012.

Herdís ólst upp í Lundi í Öxarfirði fyrstu æskuárin en á Húsavík eftir það. Hún nam íslensku og málvísindi og lauk meistaraprófi í Háskóla Íslands. Einnig lauk hún námi til kennsluréttinda. Herdís starfaði lengst af við kennslu og stjórnunarstörf á grunn- og framhaldsskólastigi. Lengst starfaði Herdís við Framhaldsskólann á Húsavík, m.a. sem skólameistari, og Borgarhólsskóla á Húsavík við íslenskukennslu.

Herdís háði hetjulega baráttu við krabbamein um nokkurt skeið fyrir andlátið.

Útför Herdísar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 29. september 2021, klukkan 14.

Dísa mágkona okkar hefur kvatt okkur í hinsta sinn og það er þyngra en tárum taki. Við minnumst hennar fyrir áralangan vinskap og einstaka góðmennsku.

Hún er ógleymanleg öllum sem henni kynntust fyrir góðvild, jákvætt hugarfar, skarpa hugsun og fallega fjölskyldu hennar og Óla. Dísu var alla tíð umhugað um fjölskylduna og heimilið og var einstaklega traust og stuðningsrík við sína fjölskyldu og vini í því sem hver og einn tók sér fyrir hendur.

Dísa var mikil áhugamanneskja um íslenskt mál og málfræði og lauk námi í Háskóla Íslands á því sviði með glæsibrag. Hún var farsæl og samviskusöm í öllum sínum störfum.

Hugur okkar er hjá Óla bróður og börnunum – Halldóri Tuma, Elínu Önnu, Sigurði Búa og Brynjólfi Nóra – og hjá foreldrum Dísu, bræðrum og nánustu fjölskyldu.

Það hefur verið mikil samheldni í stórfjölskyldum Dísu og Óla að takast á við þau verkefni sem fylgja því að ganga í gegnum erfið veikindi hennar. Á þessari samheldni verður byggt inn í framtíðina og verður jákvætt hugarfar og æðruleysi Dísu okkur leiðarljós.

Við bræður munum líkt og aðrir sem standa fjölskyldunni næst veita Óla, börnum og fjölskyldu sterkan stuðning til að takast á við breyttan veruleika. Hann mun birtast með fjölbreytilegum hætti – í stóru sem smáu.

Magnús Halldórsson og

Valdimar Halldórsson.

Það er erfitt að ná utan um það að hún Dísa okkar sé farin frá okkur, fallega og góða Dísa, fjögurra barna móðir, elskuð eiginkona, dóttir og systir.

Við vorum frænkur, jafnöldrur og bestu vinkonur og höfðum fylgst að allt okkar líf. Við fæddumst með mánaðar millibili og vorum skírðar saman í stofunni hjá móðurforeldrum hennar á Húsavík. Við bjuggum hvor í sínum landshlutanum og hittumst því ekki eins oft og við hefðum viljað en skrifuðumst á alla okkar barnæsku og unglingsár. Nú eru bréfin frá Dísu mér dýrmætur minningasjóður. Ég les í gegnum þau, svo vandlega skrifuð og skreytt, og minnist hnyttnu og skemmtilegu Dísu frænku með spékoppana, sem bjó í Lundi í Öxarfirði og var alltaf höfðinu hærri en ég. Á þeim tíma tilheyrðum við ásamt bræðrum okkar, Billa og Heidda, leynilegum félagsskap sem gekk undir nafninu „Leynihópurinn fjögur saman“ og sótti innblástur í Ævintýra- og Fimmbækur Enid Blyton. Við brölluðum margt saman þegar við hittumst og héldum leynifundi í bækistöðvum okkar. Sameiginleg tjaldferðalög fjölskyldunnar voru okkur tilhlökkunarefni á hverju ári og frá þeim áttum við góðar minningar um samveru og leik. Eftir að Dísa flutti til Húsavíkur með fjölskyldu sinni hélt hún áfram að senda mér fréttir af öllu því helsta, skólagöngu og prófum, bandbrjáluðu vetrarveðri, Sonna litla bróður, sem var alltaf að segja „gæsilett!“, gjafmildi Örnu frænku sem gaf henni svo fín föt („er hún ekki góð?“), prjónakennslu mömmu og huggunarorðum pabba þegar naggrísinn Rósa kvaddi. Öll bera bréfin vitni um þá frásagnargáfu, glettni og gæsku sem alltaf einkenndi Dísu. Í síðustu bréfunum var svo kominn til sögunnar ungur maður, hann Óli, sem varð hennar trausti og góði félagi í verkefnum lífsins, einstakur gæðamaður.

Vinátta okkar Dísu þróaðist með árunum og dýpkaði, ekki síst eftir að ég varð móðir eins og hún og fann að ég gat alltaf leitað til hennar um ráð og skilning. Því þannig var Dísa, umhyggjusöm, hlý og ræktarsöm við sitt fólk. Hún sinnti afa okkar og ömmu af stakri alúð þeirra síðustu daga og fyrir það verðum við henni alltaf þakklát. Hún var gestrisin og smekkvís og hafði hæfileika til að gera allt hlýlegt og fallegt í kringum sig, eins og heimili hennar og öll hennar nærvera bar vott um. Svo var hún afburðaskemmtileg, glettin og orðheppin og þar áttu þau hjónin vel saman og vandfundinn skemmtilegri félagsskapur en þau tvö.

Börnin þeirra fjögur, Halldór Tumi, Elín Anna, Búi og Nóri, munu alltaf búa að því sem mamma þeirra kenndi þeim og gaf með kærleika sínum og góðu fordæmi, en betri og mannvænlegri börn er vart hægt að hugsa sér. Hún var fyrirmynd mín í svo mörgu, hún Dísa, mín hjartfólgna vinkona og frænka, og ég mun sakna hennar sárt, en alltaf geyma hana í hjarta mínu.

Missir Óla og barnanna, foreldra hennar, bræðra, Dísu eldri og fjölskyldunnar allrar er meiri en hægt er að koma orðum að og ég votta þeim mína dýpstu samúð.

Drífa Kristín Þrastardóttir

Dísa hefur í okkar fjölskyldu verið nefnd í sömu andrá og Óli í nær þrjátíu ár. Alltaf Óli og Dísa. Hún kom inn í fjölskylduna á sinn hátt. Ekki með látum, en við vissum öll að hún var komin til að vera. Það er því afar þungbært að kveðja hana í dag.

Dísa er í huga okkar hin trausta, hægláta, en ákveðna, kona sem vandar sig við hvert verkefni. Þegar ég bauð Dísu og Óla að líta eftir Halldóri Tuma, sem var þá rúmlega eins árs, fékk ég nokkrar þéttskrifaðar blaðsíður af leiðbeiningum um það sem hann vildi borða og gera. Okkur Halldóri Tuma kom enda ágætlega saman þennan dag sem Elín Anna systir hans fæddist. Það munaði um undirbúning Dísu.

Það munar um Dísu sem vandaði til hverra verka, hvort sem það sneri að því að miðla af þekkingu sinni eða reynslu og gera fallegt í kringum sig. Það munar um Dísu að hlusta þolinmóð á okkur frændsystkini Óla brjóta eitthvað óvart og röfla um lífsins gagn og nauðsynjar. Alltaf vorum við velkomin í heimsókn til Óla og Dísu og alltaf var þar líf og fjör. Þeir yngri bræður, Búi og Nóri, annaðhvort ofan á foreldrum sínum eða í fangi þeirra. Eldri systkini þeirra að passa upp á þá, eins og þau hafa alla tíð gert svo fallega. Búi mögulega að ræða um fugla og veiðiskap við tvíburafrændsystkini sín og Nóri að spila tónlist fyrir okkur öll. Þarna var jafnvægið og hlýjan sem Dísa og Óli sköpuðu saman fyrir okkur öll hin.

Það munar um Dísu sem með sínu rólega og fallega fasi gerði besta kaffi á Húsavík og með því var alltaf borið fram gefandi samtal um málefni líðandi stundar, auðvitað í fallegri skál. Það munar um Dísu með glettni í auga og spékoppa að hlæja bæði af uppátækjum krakkanna sinna og af Óla þegar hann braut eitthvað óvart. Það munar um Dísu sem með mildi sinni hjálpaði þeim öllum þegar á þurfti að halda.

Það munar um Dísu þeg ar við minnumst brúðkaupsdags þeirra Óla, þar sem gólfið í húsinu á Halldórsstöðum gekk til þegar gestir stigu dans. Það munar líka um Dísu á Halldórsstöðum að hella upp á kaffi, taka á móti tónleikagestum og að svæfa börn í suðurherberginu. Það munar um Dísu að steikja tónleikakleinur í kleinupottinum hennar Dísu ömmu sinnar. Það munar um Dísu sem kennara og skólameistara sem hlífði sér ekki við að takast á við flókin og krefjandi verkefni og hvað það fórst henni vel úr hendi. Það munar um Dísu sem var réttlát, vönduð og skemmtileg.

Það munar vitanlega fyrst og fremst um Dísu sem eiginkonu, móður, dóttur, systur og barnabarn. Það munar líka um Dísu fyrir okkur öll hin sem vorum svo lánsöm að fá að kynnast henni. Tilvera okkar er fátækari við fráfall hennar en minningarnar gera okkur ríkari. Ástvinum Dísu vottum við innilega samúð okkar.

Fyrir hönd Árholtsfjölskyldunnar allrar,

Þóra Hallgrímsdóttir.

Elsku Dísa.

Takk fyrir allt síðustu tæpu þrjátíu árin, takk fyrir vináttuna, samveruna, te- og kaffibollana þar sem lausn lífsgátunnar var oftar en ekki til umræðu, takk fyrir börnin fjögur, takk fyrir traustið sem þú og þið Óli hafið sýnt mér og mínu fólki gegnum tíðina í svo mörgum málum. Takk fyrir fegurðina, ákveðnina og heiðarleikann sem þú hafðir fram að færa í lífi þínu. Takk fyrir að hafa verið fyrirmynd fyrir okkur öll á svo margan hátt.

Kæru vinir, Óli, Tumi, Auja, Elín Anna, Búi og Nóri. Siggi, Anna, amma Dísa, Sonni, Billi og fjölskylda. Halldór, Onna, Valdi, Maggi og fjölskylda, samúðarkveðjur ykkur öllum til handa.

Takk fyrir okkur, elsku Dísa.

„Einhvers staðar einhvern tímann aftur...“ ( ME).

Þínir vinir,

Stefán Þór , Margrét Hólm og Jón Hallmar.

Fundum okkar Dísu bar saman þegar við byrjuðum í íslensku í HÍ á sama tíma í lok síðustu aldar. Við vorum fljótar að átta okkur á sameiginlegum norðlenskum uppruna og áttum eftir að fylgjast að í náminu í nokkur ár. Vorum málfræðimegin en í íslenskuskor voru, og eru enn, ákaflega færir málfræðikennarar sem áttu gott með að hrífa nemendur með sér. Bókmenntirnar áttu þó eftir að ná sínum sessi þegar Dísa fór að kenna.

Dísa var afburðagóður námsmaður og sinnti sínu af samviskusemi og miklum metnaði. Henni fylgdu hvorki hávaði né læti, nærveran svo notaleg að prófdómari í munnlegu prófi hjá henni sofnaði – ekki í einu prófi heldur tveimur! Hún var hógvær og hlý, brosmild og kankvís, en grandvör og lét ekki út úr sér styggðaryrði um nokkurn mann, nema í mesta lagi ef viðkomandi hafði unnið rækilega til þess og þá með töluvert fágaðri orðaforða en flestir aðrir hefðu valið.

Við Dísa hittumst of sjaldan síðustu ár en heyrðumst alltaf við og við. Eitt slíkt tilefni var fyrir nokkrum árum þegar hún vann að mínu frumkvæði orðskýringar fyrir nýja útgáfu af Sölku Völku fyrir Forlagið. Það gerði hún af stakri vandvirkni eins og við var að búast og lagði þar með sitt af mörkum til að efla skilning nýrrar kynslóðar á höfundarverki Nóbelsskáldsins.

Ég minnist með einlægu þakklæti margra góðra stunda yfir skólabókum og kaffibollum, vináttu og ræktarsemi. Ég votta Óla, börnum þeirra og aðstandendum öllum mína innilegustu samúð.

Laufey Leifsdóttir.

Mig langar í örfáum orðum að minnast Herdísar Þ. Sigurðardóttur sem nú hefur fengið hvíldina eftir erfiða baráttu við krabbamein. Með sorg í hjarta kveð ég Dísu en líka með miklu þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa kynnst henni í leik og starfi.

Ég kynntist henni fyrst þegar hún var nemandi minn við Framhaldsskólann á Húsavík. Hún var afburðagóður og samviskusamur nemandi sem ég fékk svo að kynnast enn betur þegar hún leysti mig af í kennslunni í Framhaldsskólanum þegar ég fór í námsorlof 2006-2008, þvílíkt lán var það fyrir mig og skólann. Við kenndum saman við FSH og síðar var ég svo heppin að hafa hana með mér við stjórnun skólans þegar ég tók við skólameistarastöðu. Betri áfangastjóra og aðstoðarskólameistara hefði ég ekki getað hugsað mér. Hún var svo dugleg og ósérhlífin, klár og skemmtileg – það var gaman í vinnunni hjá okkur þó oft væru verkefnin flókin og stressandi, þá var gott að hafa Dísu, yfirvegaða og rólega sér við hlið. Hún var mikill fagurkeri og allt sem hún tók sér fyrir hendur gerði hún vel.

Síðustu ár vorum við saman í Agora, alþjóðlegum kvennaklúbbi, og hennar verður sárt saknað þar.

Ef ég mætti bara nota eitt orð til að lýsa Dísu minni væri það orðið einstök. Teri Fernandez sagði fyrir margt löngu: „Einstakur er orð sem notað er þegar lýsa á því sem er engu öðru líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. Einstakur lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. Einstakur á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. Einstakur er orð sem best lýsir þér.“

Að senda samúðarkveðju og óskir um styrk virðist svo léttvægt á þessari stundu, en allur hugur minn fylgir þessum orðum og ég vona heitt og innilega að elsku Óli, krakkarnir allir, foreldrar, amma, bræður, tengdaforeldrar og fjölskyldan öll megi finna styrk til að fást við það sem lífið hefur nú lagt fyrir þau. Minningin um Dísu lifir um ókomna tíð – hún var einstök.

Dóra Ármannsdóttir.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf sem gleymast eigi,

og gæfa var það öllum, sem fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sig.)

Dísu er ég þakklát fyrir að hafa kynnst. Hún hafði meiri áhrif á mig en mig grunar að hún hafi gert sér grein fyrir. Ég leit alltaf upp til hennar. Hún var ekki bara forkunnarfögur heldur einnig gáfuð, klár, dugleg og full af auðmýkt og alúð gagnvart hverjum og hverju sem er. Hún hafði einstakt yfirbragð, augu sem dáleiddu og bros sem bræddi. Dísa var fyrsta mágkona mín og kom alltaf svo vel fram við mig. Hún fór yfir ritgerðir fyrir mig enda snillingur í íslensku. Það er að mörgu leyti henni að þakka að ég hef í gegnum tíðina alltaf viljað bæði tala og skrifa rétt og því er ég örlítið stressuð að hér komi fram stafsetningarvillur.

Dísa hafði ótrúlega næmt auga fyrir smáatriðum og því voru jólapakkarnir t.a.m. fagurlega innpakkaðir. Gjafir frá henni virtust alltaf valdar eins og hún læsi hug manns. Dísa klæddist alltaf svo smart fötum og heimili hennar bar þess merki að þar væri hver staður og hlutir valdir saman af kostgæfni.

Á sorgarstundu sem þessari reikar hugurinn aftur, og þó að yfir 20 ár séu liðin frá því að ég og Billi bróðir hennar héldum hvort í sína áttina, lét Dísa mig vita um hver jól að ég væri enn hluti af hennar vegferð með því að senda mér jólakort. Það klikkaði aldrei hjá henni og þótti mér hvað vænst um kortin frá henni. Emelíana, dóttir okkar Billa, var Dísu svo mjög kær og verð ég henni ævinlega þakklát fyrir kærleikann sem hún veitti henni. Útsaumaða fæðingarmyndin sem Dísa gerði og gaf Emelíönu þegar hún fæddist hangir uppi á vegg og hefur alltaf gert. Hún er algjört listaverk þar sem augljóst er að vandað hefur verið til verka og myndin innrömmuð hjá alvöru innrammara. Svona var Dísa í mínum huga.

Síðastliðið vor lágu leiðir okkar Dísu saman á ný. Ég hefði kosið aðrar aðstæður en við eyddum saman tæplega mánuði á Kristnesi í endurhæfingu. Það veitti mér ró að hafa Dísu þarna, rólega yfirbragðið hennar hafði góð áhrif á mig. Ég hafði mikla von í brjósti fyrir hana og var svo glöð þegar ég kom inn í herbergi til hennar einn daginn og hún bað mig um að reima fyrir sig skóna. Ég var glöð að geta aðstoðað hana á þann hátt, ekki bara af því að hún var að hjálpa mér sjálf óafvitandi heldur vegna þess að mér þykir vænt um hana.

Þó að sorgin sé djúp má í henni finna gleði. Allan þann kærleik sem stafaði frá Dísu, sjá fyrir sér bros hennar og heyra hláturinn. Gleðjast yfir lífi hennar sem sjá má áfram í börnunum hennar, æskuástinni og lífsförunaut Óla, sjá augu hennar fyrir sér í mánaskininu og finna hlýjuna sem frá henni stafaði í geislum sólarinnar.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera þér samferða um stund, elsku Dísa, og hlakka til að hitta þig á öðrum stað í öðrum tíma.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til stórfjölskyldunnar.

Hilda.

Elsku hjartans Dísa, Dísa hans Óla, eins og hún var iðulega nefnd í minni fjölskyldu, hefur kvatt þetta líf. Þvílík sorg, þvílíkur harmur. Óli og Árni „litli“ bróðir minn fæddust með þriggja daga millibili, eru æskuvinir – bestu vinir – og Óli því heimagangur á Baughólnum og minn vinur einnig. Dísa var fallega, brosmilda, feimna stúlkan í næsta húsi við okkur á Baughólnum – þannig man ég hana fyrst eftir að hún flutti til Húsavíkur. Í minningunni var hún orðin kærasta Óla skömmu síðar. En þann 2. september 2000 voru þau Óli og Dísa svo orðin hjón, þvílíkur hamingjudagur. Þremur vikum áður var Óli veislustjóri í mínu brúðkaupi og Dísa honum þar við hlið. Á þessum tíma urðu kynni okkar Dísu nánari og hlýr vinskapur myndaðist næstu árin, við eignuðumst frumburði okkar í Reykjavík, þá Aron og Halldór Tuma, með rúmlega viku millibili í september 2001. Samveran jókst, ungbarnasundið, göngutúrarnir, kaffisoparnir og svo margt fleira - ómetanlegur tími þar sem við deildum öllu því sem viðkom drengjunum okkar ungu og lífinu almennt. Elín Anna þeirra Óla og Dísu kom í heiminn einu og hálfi ári síðar og fjölskyldan ákvað svo að flytja úr Kópavoginum aftur heim til Húsavíkur. Ég saknaði þeirra mikið en vinskapurinn hélt þó samverustundum fækkaði. Á Húsavík bættust tveir prinsar við þeirra fjölskyldu, þeir Sigurður Búi og Brynjúlfur Nóri. Þvílík gæfa að eignast fjögur dásamleg börn. Elsku Dísa var mikil fjölskyldumanneskja og fallegt að fylgjast með hvernig hún umvafði allt og alla með hlýju og væntumþykju. Dísa og Óli voru dásamleg saman, samstaðan, vináttan, virðingin, húmorinn og ástin leyndu sér ekki. Það var óskaplega gott að koma til þeirra, hvort sem var á Uppsalaveginn eða í Formannshúsið fallega, notalegheitin framar öllu og allt svo „Dísulegt“, einstaklega fagurt.

Í mínum huga hefur Dísa alltaf verið einstök manneskja – með þeim betri sem ég hef kynnst í lífinu, svo hrein, svo sönn. Einstaklega hlý, umhyggjusöm, hógvær, hláturmild og mikill húmoristi. Þakklæti er mér efst í huga fyrir okkar kynni og fyrir að hafa fengið að njóta samveru hennar síðastliðin ár.

Harmurinn er mikill, sorgin sár – elsku hjartans Dísa skilur eftir sig elsku Óla sinn, börnin yndislegu, Tuma, Elínu Önnu, Búa og Nóra, elskulega foreldra, bræður, yndislegu ömmu Dísu og tengdaforeldra – auk annarra. Ég bið góðan Guð að styrkja ástvini í þessari miklu sorg. Ég geri hennar orð, sem hún sendi mér fyrir nokkru, að mínum í lokin:

Elsku Dísa mín, „..hlýjan stafar frá þér eins og hún hefur alltaf gert – bið að heilsa í bæinn þin n að sinni.“

Þín

Sædís.