Á sviðinu Sigurður Laufdal undirbjó sig í tvö ár fyrir lokakeppni Bocuse d'Or og stóð sig á endanum frábærlega.
Á sviðinu Sigurður Laufdal undirbjó sig í tvö ár fyrir lokakeppni Bocuse d'Or og stóð sig á endanum frábærlega. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum mjög kátir, það var geggjað að ná þessum árangri.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum mjög kátir, það var geggjað að ná þessum árangri. Við vorum alveg skelfilega nálægt því að komast á pall sem var markmiðið en engu að síður var allt í kringum þetta mjög gaman,“ segir Sigurður Laufdal sem var fulltrúi Íslands í Bocuse d'Or, virtustu matreiðslukeppni heims, sem haldin var í Lyon í byrjun vikunnar.

Sigurður hafnaði í fjórða sæti í keppninni og er það þriðji besti árangur Íslands frá upphafi. Ísland tók í fyrsta sinn þátt í Bocuse d'Or árið 1999 og hefur alltaf hafnað í einu af níu efstu sætum keppninnar. Hákon Már Örvarsson hafnaði í þriðja sæti árið 2001 og Viktor Örn Andrésson endurtók þann leik árið 2017.

Frakkar báru sigur úr býtum að þessu sinni en Danir enduðu í öðru sæti. Norðmenn stálu svo þriðja sætinu af Sigurði og félögum með litlum mun. Íslenska liðið var hins vegar verðlaunað fyrir besta kjötréttinn.

Sigurður hefur varið síðustu tveimur árum í undirbúning fyrir keppnina. Hann hafnaði í fjórða sæti í Evrópukeppninni á síðasta ári sem tryggði sæti í lokakeppninni. „Ef þú ætlar að eiga möguleika þarftu að helga þig þessu alveg. Þetta er auðvitað algert rugl en maður þarf að gera þetta af ástríðu og taka þessu alvarlega,“ segir Sigurður. Hann segir að 24 dómarar fylgist með hverju skrefi, fylgja þurfi miklum reglum og vinna undir ströngum tímareglum. „Þú mátt til dæmis ekki skila sekúndu of seint, þá er möguleikinn á að komast á verðlaunapall farinn.“

Tveggja vikna frí fram undan

Sigurður segir aðspurður að nú taki við tveggja vikna hvíld og svo fari hann að kanna hvað framtíðin ber í skauti sér. Hann hefur áður starfað á Michelin-staðnum Olo í Finnlandi, þriggja stjörnu staðnum Geranium í Danmörku og verið yfirkokkur á Grillinu á Hótel Sögu svo fátt eitt sé nefnt. Það má því búast við að spennandi verkefni bjóðist eftir Bocuse d'Or-ævintýrið. „Nú slakar maður á og svo sjáum við hvað gerist,“ segir Sigurður.