Húsnæði hefur hækkað ört í verði.
Húsnæði hefur hækkað ört í verði. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Það er ekki laust við að það fari um mann verðbólguhrollur þegar skoðuð er hækkun húsnæðisverðs á landinu undanfarna tólf mánuði, sem er 14,7%. Eins og fram kemur í pistli á vef Íslandsbanka hefur hækkunartakturinn ekki verið hraðari frá árslokum 2017.

Það er ekki laust við að það fari um mann verðbólguhrollur þegar skoðuð er hækkun húsnæðisverðs á landinu undanfarna tólf mánuði, sem er 14,7%. Eins og fram kemur í pistli á vef Íslandsbanka hefur hækkunartakturinn ekki verið hraðari frá árslokum 2017. Einnig kemur þar fram að hröðust sé hækkunin á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu (18,2%) en hækkun íbúða í fjölbýli nemur 14,5% og húsnæði á landsbyggðinni hefur hækkað um 12,2% á sama tímabili.

Hækkun íbúðaverðs skýrir drjúgan hluta hækkunar neysluverðs í september, líkt og undanfarna mánuði, og mælist verðbólga nú 4,4%.

Það vekur manni ekki bjartsýni í þessum efnum að lesa um íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins sem fjallað er um í blaðinu í dag. Hún ber vott um skort sem aftur geti birst í áframhaldandi aukinni verðbólgu og verðhækkunum, eins og framkvæmdastjóri samtakanna bendir á.

Þótt hlutur verðtryggðra íbúðalána heimilanna hafi minnkað og hlutur óverðtryggða lána aukist síðustu misseri, eru mörg heimili með verðtryggð lán og minningin um það sem gerðist eftir hrun, þegar verðtryggðar skuldir tóku kipp, vekur enn ónotakennd í huga fólks.

Greiningaraðilar og Seðlabankinn telja að verðbólgumarkmiði megi ná á næsta ári. Til þess að það geti gerst þurfa sem flestir að leggjast á árarnar svo verðbólgan fari á þann stað sem við viljum hafa hana.