Sigríður Hanna Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 11. mars 1940. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 16. september 2021. Foreldrar Sigríðar voru Gunnar Jóhannsson, f. 17.8. 1913, d. 1.4. 2006, og Lára Áslaug Theodórsdóttir, f. 14.2. 1918, d. 24.6. 2003. Systkini hennar eru: Málfríður Dóra, f. 25.3. 1944, gift Ólafi Ragnari Eggertssyni, f. 1.10. 1945, d. 18.1. 2002, og Guðmundur Helgi, f. 22.9. 1947, kvæntur Hrund Hjaltadóttur, f. 27.9. 1949. Auk þess átti Sigríður samfeðra hálfbróður, Hauk Kjartan, f. 11.1. 1937, d. 2.7. 2017, kvæntan Grétu Óskarsdóttur, f. 19.11. 1936, d. 24.5. 2019.

Sigríður Hanna giftist Sverri Gunnarssyni húsasmíðameistara, f. í Reykjavík 2.3. 1941, hinn 15.12. 1962. Foreldrar hans voru Gunnar Björn Halldórsson, f. 9.9. 1900, d. 13.10. 1978, og Aðalheiður Jóhannsdóttir, f. 6.9. 1904, d. 26.7. 1989.

Sigríður Hanna og Sverrir eiga tvö börn. 1) Lára Áslaug lögfræðingur, f. 1.7. 1964, í sambúð með Jóni Höskuldssyni landsréttardómara, f. 3.10. 1956. Sonur Láru er Davíð Björn Pálsson, f. 10.7. 2001. 2) Gunnar Halldór viðskiptafræðingur, f. 4.10. 1965. Hann var kvæntur Sigríði Hrólfsdóttur rekstrarhagfræðingi, f. 16.1. 1967, d. 6.1. 2018. Gunnar og Sigríður eiga þrjú börn, tvíburana Halldór Árna og Sverri Geir, f. 22.4. 1997, og Þórunni Hönnu, f. 24.9. 2004. Sambýliskona Gunnars er Þórey Ólafsdóttir viðskiptafræðingur, f. 11.11. 1971.

Sigríður Hanna gekk í Laugarnesskóla og síðar Iðnskólann í Reykjavík, þar sem hún lærði hárgreiðslu og lauk meistaraprófi í þeirri iðn. Rak hún um skeið hárgreiðslustofu í Reykjavík en þegar fjölskyldan stækkaði lét hún af því starfi og varð heimavinnandi. Árið 1977 tók hún stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og í framhaldinu lá leiðin í Kennaraháskólann þaðan sem hún útskrifaðist sem kennari og síðar sem sérkennari. Starfaði hún við kennslu, lengst af í Fossvogsskóla, þar til hún lét af störfum árið 2005.

Sigríður Hanna og Sverrir byggðu sér hús í Hjallalandi í Fossvogi og bjuggu þar 23 ár, en fluttu í Garðabæ árið 1992 og hafa búið þar síðan.

Sigríður Hanna var félagslynd, jákvæð og hafði mikla ánægju af samskiptum við annað fólk. Þau Sverrir voru sérstaklega samrýnd og samhent. Áhugi á tónlist var þeim sameiginlegur og þá ferðuðust þau mjög mikið bæði innan lands og utan. Sigríður Hanna gekk í Oddfellow-regluna árið 1997 var allt til loka virk í starfi reglunnar.

Jarðarför Sigríðar Hönnu fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ 29. september 2021 kl. 13.

Amma Sigga var klárlega ein besta manneskja sem ég hef hitt. Ef að það var eitthvað sem vantaði, þá var alltaf hægt að leita til ömmu og afa og þau voru alltaf tilbúin að hjálpa með hvað sem er. Svo var alltaf gaman að kíkja í heimsókn til þeirra og bara tala við þau klukkutímunum saman og þar var líka alltaf tekið svo vel á móti okkur barnabörnunum með allskonar kræsingum sem þau buðu upp á.

Amma var yndisleg kona sem var góð við alla og passaði alltaf vel upp á mig, bræður mína og frænda. Það er ekkert sem að amma gerði ekki fyrir okkur og ég er svo óendanlega þakklát fyrir hana og afa og allt sem að þau hafa gefið okkur.

Þórunn Hannna.

Orð munu seint gera fyllilega grein fyrir ömmu Siggu og hvernig mér fannst hún vera. Hún var ávallt blíð og góð við mig og aðra, studdi mig í því sem ég tók mér fyrir hendur og var ávallt hjálpfús.

Amma Sigga gerði mjög mikið fyrir mig. Hún hjálpaði mér með heimanám þegar ég átti erfitt, hún hjálpaði mér þegar ég skipti um grunnskóla. Hún skutlaði mér margoft þegar mamma gat það ekki. Hún gerði margoft rækjusalatið sitt, sem mér þykir svo gott, fyrir mig og dekraði við mig þegar ég gisti. Hún og afi fóru oft í ferðalög og buðu mér og mömmu stundum með.

Ég get seint þakkað henni fyrir allt sem amma Sigga gerði fyrir mig, líklega þakkaði ég henni ekki nóg.

Ég á enga eina uppáhaldsminningu um ömmu Siggu en minningarnar um ferðalögin sem hún fór með mér, mömmu og afa í, tugi skipta sem ég gisti hjá þeim og þegar ég borðaði kvöldmat með henni og afa mun ég geyma alla mína ævi.

Síðustu orðin sem ég sagði við ömmu Siggu finnst mér lýsa betur hvað mér fannst um hana en nokkuð sem ég get skrifað í minningargrein. Ég sagði: „Amma, þú ert best.“ Og við þessu brosti hún blíða brosinu sínu.

Amma Sigga var besta amma sem ég hefði geta beðið um og ég er stoltur að hafa átt svona góða, duglega og vandaða ömmu.

Davíð.

Frá því að við vorum litlir hafa heimsóknir til ömmu Siggu og afa Sverris verið reglulegar. Við bræðurnir gistum oft hjá þeim í Skógarhæðinni þegar við vorum litlir, þaðan eigum við svo margar góðar minningar.

Amma Sigga var alltaf jákvæð og uppbyggjandi. Hana skipti miklu máli hvernig okkur barnabörnunum gengi í skólanum og sýndi öllu því sem við unnum að mikinn áhuga. Þegar við bræðurnir vorum ungir og órólegir var mamma alveg að gefast upp á því að kenna okkur stærðfræðina. Þá var gott að geta hringt í ömmu en hún hjálpaði okkur með grunninn í lærdómnum sem við byggjum enn ofan á í háskóla í dag.

Amma Sigga varð himinlifandi þegar fyrsta langömmubarnið fæddist í nóvember í fyrra, nafna hennar Sigríður Thea. Henni þótti svo vænt um litla skottið sitt og gladdist í hvert skipti sem Sigga litla kom í heimsókn.

Þótt sársauki sorgarinnar hafi látið finna fyrir sér á síðustu dögum er það þó aðallega þakklæti fyrir frábæra ömmu sem kemur upp í hugann þegar hugsað er til ömmu Siggu.

Halldór Árni og Sverrir Geir.

Nú kveð ég hana elsku móðursystur mína, Sigríði Hönnu Gunnarsdóttur, Siggu frænku. Þó Sigga frænka hafi verið hluti af æsku minni frá upphafi er það þó ekki almennilega fyrr en foreldrar mínir og ég búum í Noregi og ég er um átta ára gamall, þegar Sigga, Sverrir, Lára og Gunni koma í heimsókn til okkar, að minningin fer að skýrast. Þetta sumar var ferðalag aldarinnar í huga ungs drengs, öll Skandinavía skoðuð, Tívolí í Kaupmannahöfn og Finnland svo eitthvað sé nefnt.

Við frændsystkinin tengdumst órjúfanlegum böndum frá upphafi sem styrktust frekar þegar við fjölskyldan fluttum aftur heim til Íslands. Þá voru ferðir í Hjallalandið hluti af hversdagslífinu og þar var mér tekið sem einum af fjölskyldumeðlimunum og sambandið við Siggu frænku varð sterkara. Sigga og Sverrir höfðu tekið upp fjölskyldusport, skíðaiðkun, og var mér iðulega boðið með í Skálafellið og við krakkarnir, Gunnar og Lára urðum frá þeim tíma, og fram eftir aldri traustir skíðafélagar. Þessi æskuár eru full af góðum minningum og þeim góða anda sem ríkti í kringum frænku mína.

Þegar upp er staðið þá gaf Sigga frænka mér annað heimili og er ég ríkari fyrir vikið og ævarandi þakklátur henni, Sverri, Gunnari og Láru. Vinskapur þeirra við mig og mína hefur verið einstakur og gefandi í gegnum árin og hef ég ævinlega búið að því.

Síðar þegar ég var kominn með mína eigin fjölskyldu og við að mestu leyti búsett erlendis hittum við Siggu ekki eins oft og áður. Þó voru sterku fjölskylduböndin enn til staðar og maður fann alltaf til væntumþykju hennar til mín og minna, og það var alltaf jafn gott að hitta hana frænku mína á ferðalögum okkar til Íslands. Hún og Sverrir nutu þess mikið að ferðast og sögðu okkur oft skemmtilegar sögur frá upplifunum sínum á framandi slóðum. Það er mér minnisstætt að hún og Sverrir heimsóttu okkur þar sem við bjuggum erlendis og við gátum deilt með þeim hvernig lífi okkar í útlöndum var háttað. Einhvern veginn fannst mér það mikilvægt að Sigga frænka myndi sjá að við hefðum það gott þar sem við höfðum valið okkur að búa.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð hana frænku mína. Að sama skapi er ég þakklátur fyrir þann stuðning sem hún gaf mér í lífinu, hún var mér einstaklega góð fyrirmynd, með sterkan karakter og bar með sér góðan anda. Við fjölskyldan vottum Sverri, Láru, Gunnari og þeirra fjölskyldum okkar dýpstu samúð.

Eggert Ólafsson.

Fram undan eru páskar og við búin að fá lána íbúð á Akureyri. Eftirvæntingin er mikil. Hópurinn hefur varla áður stigið á skíði. Við keyrðum norður í ágætisveðri. Við vorum með Siggu okkar. Sigga Hanna og Sverrir með Láru og Gunnar. Útbúnaðurinn var gamall, lúinn og aðallega fenginn að láni. Það voru engir skíðagallar, bara venjuleg hlý föt og okkur gat aðeins dreymt um „moonboots“. Sigga Hanna og Sverrir voru á gönguskíðum þessa fyrstu ferð af mörgum, sem allar voru ánægjulegar. Við fórum snemma í fjallið alla daga og seint niður. Ásetningurinn var að vera fyrsti bíll í fjallið og síðasti niður. Oft tókst það. Verkaskiptingin var skýr. Mömmurnar elduðu kvöldmatinn og pabbarnir vöskuðu upp. Ekki man ég hvað börnin gerðu á meðan. Svona var upphafið að áralöngum vinskap og fjölda ferðalaga innan lands og utan. Traustari og betri vini er varla hægt að eiga.

Í 40 ár höfum við komið saman á fyrsta vetrardag í veislumat, oft með leynigestum. Þegar veturnir voru undirlagðir af skíðaferðum sögðum við oft „vonum að það vori bæði seint og illa“. Það er nú langt síðan sú setning hefur verið sögð. Ótal leikhúsferðir, óperusýningar, tónleikar og skemmtilegar uppákomur hafa sett svip sitt á lífið. Mikið verður lífið fábreyttara hjá okkur þegar Siggu Hönnu nýtur ekki lengur við. Við yljum okkur við minningar af góðum árum saman.

Gréta og Brynjólfur.