Kristján Sveinsson skipstjóri var fæddur 11. desember 1933 í Reykjavík. Hann lést 15. september 2021 á Hrafnistu í Reykjavík.

Foreldrar hans voru Þorbjörg Samúelsdóttir, f. 8. október 1905, d. 7. júní 1978 og Sveinn Kristjánsson, f. 2. september 1906, d. 6. maí 1939. Sammæðra var Gísli Sigurjón Borgfjörð Jónsson, f. 20. október 1928, d. 11. október 1996. Alsystkini voru Benedikt Helgi Sveinsson, f. 26. maí 1931, d. 8. febrúar 1959. Karítas Þórunn Sveinsdóttir, f. 11. desember 1933, d. í apríl 1934. Sonja Sveinsdóttir, f. 9. júlí 1938, d. 26. maí 2018.

Kristján kvæntist Valgerði Hjartardóttur, eftirlifandi eiginkonu sinni, 16. febrúar 1957. Valgerður er fædd 17. apríl 1936. Foreldrar hennar voru Hjörtur Kristjánsson, f. 1. júní 1905, d. 4. mars 1979 og Sigríður G. Hjartardóttir, f. 7. ágúst 1908, d. 3. júlí 1980.

Kristján og Valgerður eiga fjórar dætur: 1) Sigríður, f. 22. ágúst 1957. Hennar maður er Friðrik Björgvinsson, f. 25. desember 1957. Þau eiga þrjú börn og sex barnabörn. 2) Þorbjörg Ísafold Kristjánsdóttir, f. 4. desember 1958. Fyrri maður hennar er Kristján Þverdal Kristjánsson, f. 29. desember 1957, þau skildu. Seinni eiginmaður hennar Staale Anda, f. 26. janúar 1959, þau skildu. Hún á þrjú börn og eitt barnabarn. 3) Elína Hrund Kristjánsdóttir, f. 30. maí 1962. Hennar maður var Geir Jónsson, d. 10. janúar 1994. Þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn. 4) Karítas Kristjánsdóttir, f. 24. október 1972. Hennar maður er Ingólfur Hartvigsson, f. 29. október 1972. Þau eiga þrjú börn.

Kristján lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar í Reykjavík 1950. Það ár hóf hann sjómennsku og var háseti á togurunum Bjarnarey og Vilborgu Herjólfsdóttur frá Vestmannaeyjum. Hann var háseti og bátsmaður á norskum skipum í þrjú ár, en síðar háseti á strandferða- og varðskipum ríkisins. Kristján lauk framannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1958. Einnig lærði hann köfun og var prófdómari til margra ára hjá köfunarnemum. Hann var fastráðinn stýrimaður á varðskipum ríkisins frá 1959-1966.

Hinn 15. mars 1966 tók hann við skipstjórn á björgunarskipinu Goðanum og var skipstjóri á Goðanum þar til skipið fórst við Vöðlavík 10. janúar 1994 þar sem skipið var við björgunaraðgerðir.

Kristján gekk í Skipstjórafélag Íslands árið 1966 og starfaði hann í ýmsum nefndum fyrir félagið og sat í stjórn þess sem meðstjórnandi frá árinu 1985, ritari frá 1989 og gjaldkeri félagsins frá árinu 1992 til ársins 1994. Hann var félagi í Kiwanisklúbbnum Esju frá árinu 1976 og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Kristján var ritari Sjómannadagsráðs þar til hann var áttræður. Kristján var sæmdur heiðursmerki sjómannadagsins árið 1994.

Eftir að Kristján lét af störfum sem sjómaður starfaði hann sem vaktmaður hjá Pósti og síma þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 29. september 2021, kl. 13.

Pabbi var sjómaðurinn sem sigldi um heimsins höf og bauð upp á sögur um framandi heima sem heilluðu áheyrendur. En mest af öllu var hann bara pabbi sem okkur þótti svo undur vænt um og söknuðum sárt þegar hann var úti á sjó.

Nú kveðjum við systur og mamma hann pabba í síðasta sinn, og að þessu sinni snýr hann ekki aftur eins og forðum daga, enda farinn í sína síðustu siglingu. Söknuðurinn er sár, en við dætur hans fjórar og eftirlifandi eiginkona yljum okkur við góðar minningar um yndislegan föður og elskulegan eiginmann.

Sigríður, Þorbjörg Ísafold,

Elína Hrund og Karítas.

Kristján Sveinsson, tengdafaðir minn, er látinn og verður jarðsunginn í dag. Hugur minn hefur farið síðustu daga um heima góðra minninga og vináttu sem varði í ein 27 ár. Það var gott að eiga Kristján sem vin og tengdaföður. Hann var alltaf boðinn og búinn til að hjálpa og trygglyndi er eitt orð sem kemur upp í huga minn þegar ég minnist Kristjáns. Það var magnað að hlusta á frásagnir hans af sjómennsku, siglingum og björgunarstörfum. Kristján var fróður, víðlesinn og gríðarlega víðförull. Hann var fyrst og fremst sjómaður alla sína tíð og skipstjóri að eðlisfari. Sigldi um höfin sjö og var einn af fáum, ef ekki sá eini sem bókstaflega gekk á milli lands og Eyja, þ.e.a.s. í kafarabúningi eftir hafsbotninum. Frásagnir hans báru ævintýraljóma og börnin mín nutu þess að hlusta á ferðasögur afa og dáðust að flottum húðflúrum sem hann bar með stolti. Kristján hafði ánægju af því að ferðast en ferðalagið varð að hafa einhvern tilgang. Til dæmis var stangveiði mikil ástríða og einnig ljósmyndun. Hann hafði gaman af stafrænu ljósmyndabyltingunni þegar hún byrjaði og var á tímabili með stórtæka ljósmyndaprentun heima hjá sér. Við fjölskyldan nutum góðs af því en hann var duglegur að mynda barnabörnin. Þegar ég varð hluti af fjölskyldu Kristjáns var hann að mestu leyti hættur á sjó en taugin til sjávar og sjómennskunnar var alltaf sterk, alla hans ævi.

Það var ávallt gott að heimsækja tengdaföður minn og eftirlifandi eiginkonu hans og tengdamóður mína Valgerði „Völu“ Hjartardóttur sem nú syrgir eiginmann sinn. Þau hafa ávallt reynst mér og fjölskyldu minni vel á svo margan máta og er ég þeim ævinlega þakklátur fyrir það.

Það má svo ekki gleyma einni ástríðu hjá Kristjáni en það var golf. Hann stundaði þá íþrótt í mörg ár og átti hún hug hans allan síðustu árin og hélt í honum lífinu. Hann fór á hverjum degi á golfvöllinn, hitti þar góða félaga og gekk með þeim marga kílómetra. Það eru ekki nema um tvö ár síðan hann treysti sér ekki lengur á golfvöllinn.

Að lokum þakka ég fyrir vináttu og velgjörðir tengdaföður míns í minn garð og fjölskyldu minnar. Ég bið Guð, sem er kærleikur, að blessa minningu Kristjáns Sveinssonar og styrkja Völu tengdamóður mína í hennar miklu sorg. Samúðarkveðjur til allra vina og vandamanna Kristjáns.

Lækkar lífdaga sól.

Löng er orðin mín ferð.

Fauk í faranda skjól,

Fegin hvíldinni verð.

Guð minn, gefðu þinn frið,

Gleddu og blessaðu þá,

Sem að lögðu mér lið.

Ljósið kveiktu mér hjá.

(Sálmur 427, Herdís Andrésdóttir.)

Ingólfur Hartvigsson.

Elsku besti afi Kristján, við erum svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Við eigum svo margar góðar og skemmtilegar minningar tengdar þér. Allar bíóferðirnar sem við fórum í saman, þar sem þú slökktir á heyrnartækjunum því hljóðið var svo hátt stillt í bíó. Öll gamlárskvöldin þar sem þú sprengdir upp að okkur fannst mörg þúsund rakettum. Í hvert skipti sem eitthvert okkar fór til útlanda flettir þú upp á staðnum í stóra Atlasinum og sýndir okkur hvert við vorum að fara og sagðir sögur frá landinu ef þú hafðir komið þangað. Frábæri dagurinn í fyrrasumar þar sem þú varst enn nógu hress til að fara með okkur að pútta úti á velli, öll fótboltaspjöldin sem þú komst með þegar þú komst í heimsókn til okkar austur á Kirkjubæjarklaustur. Þú elskaðir vínarbrauð og önnur sætindi. Við munum sakna þess að koma til þín á Brúnaveginn með bakkelsi og sitja við borðstofuborðið og eiga með þér huggulega stund. Við munum sakna þess að sjá þig sitja í hægindastólnum þínum að lesa bók, hlæja að okkur barnabörnunum eða segja magnaðar sögur af ævi þinni. Þú ert mesti töffari sem við höfum kynnst og rólegasti maður á jörðinni.

Þín barnabörn,

Naómí Alda, Sveinn Hartvig og Kristján

Pétur Ingólfsbörn.

Í dag kveðjum við fjölskyldan og vandamenn hann afa Kristján. Afi Kristján var töffari í orðsins fyllstu merkingu. Ekki af því að hann leit stórt á sig heldur einmitt vegna þess að hann gerði það ekki. Þegar ég var krakki átti ég til að segja sögur af fjölskyldu minni sem myndu hreint út sagt teljast lygar. En þegar kom að sögum um hann afa minn þá voru þær töluvert nærri sannleikanum. Afi var hörkukarl sem átti ótrúlega en á köflum harmi þrungna ævi. Afi var boxari, heimshornaflakkari, kafari, skipstjóri, golfari, veiðimaður, húmoristi, ljúflingur, barngóður, hlýr og dásamlegur maður. Það er margt sem ég mun alltaf tengja við hann afa minn og allt er það af hinu góða. Hann hafði dálæti á íslenskum pönnukökum, góðu kaffi og að sjálfsögðu hinni ástinni í lífi hans, íslensku neftóbaki. Afi var alltaf klæddur eftir tilefni, snyrtilegur með sixpensarana sína og flotta gömlukarlastafinn sinn sem ég gerði oft grín að og þóttist einu sinni nota sem sverð. Afi þóttist þá líka vera með sverð. Þetta var ekki þegar ég var barn heldur var þessi „bardagi“ okkar bara í fyrra. Þessi minning finnst mér svo dýrmæt af því hún lýsir afa svo vel, alltaf stutt í krakkann Kristján.

Afi var sköllóttur mest sitt líf. Ég veit ekki hvort hann afi hafi í raun og veru verið viðkvæmur fyrir því að vera sköllóttur en tel mig hafa einu sinni móðgað hann fyrir að reyna að kyssa hann á skallann. Honum fannst það fyrir neðan mína virðingu að kyssa skítugan beran koll á gömlum karli, eins og hann sjálfur orðaði það. Afi var ekki oft sá sem orðið hafði í okkar fjölskyldu en þegar hann talaði þá hlustaði fólk. Sögur hans voru ævintýrum líkar og gerðu mig oft agndofa, þakkláta og kjaftstopp. Sögur af skútusiglingu um heiminn rétt 17 ára, sögur af lífshættulegum prakkarastrikum á stríðsárum og harmsögur úr æsku eða af sjónum. Það er nefnilega ótrúlega skrítið hvað manns eigið líf veltur oft á litlum tilviljunum og heppilegum lífsbjörgum annarra. Einhvern veginn kom hann afi alltaf á óvart. Sérstaklega verð ég að nefna þegar ég rakst á viðtal við afa á forsíðu Morgunblaðsins fyrir tveimur árum þar sem fjallað var um köfunarafrek hans frá Vestmannaeyjum til Landeyjahafnar sem enginn hefur leikið eftir. Afi var töffari.

Hann og amma Vala eiga nú orðið stóran hóp af afleggjurum, um allt land og úti í Noregi. Afi var umkringdur konum bróðurpart lífsins en hann var það vinsæll karlinn meðal dætra sinna að þrjár af fjórum þeirra eiga drengi með hans nafni. Þetta getur orðið smá fyndið í fjölskylduboðum eða þegar verið er að ræða afabörnin: „Er það Kristján Geirsson? Nei Kristján Þverdal. Nei ég meina Kristján Pétur.“ Ég mun sakna þess að geta ekki boðið afa aftur upp á pönnukökur í afmælum, að geta ekki reynt að kyssa hann á skallann, að bregða fyrir okkur sverðum eða sitja í óþægilega gullsófanum, þegja og drekka heimsins besta ömmuafakaffi. Sonur minn mun alltaf fá að heyra um töffarann afa Kristján þegar hann vill og munum við hugsa vel um langömmu þar til þau afi sameinast.

Ágústa.

15. september sl. andaðist á Hrafnistu í Reykjavík Kristján Sveinsson skipstjóri, góður vinur og samstarfsmaður til margra ára. Kristján hóf sjómennsku ungur að árum sem háseti á togurum frá Vestmannaeyjum. Háseti og bátsmaður á norskum kaupskipum í nokkur ár, síðar háseti á strandferða- og varðskipum ríkisins. Kristján lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1958, stýrimaður á varðskipum ríkisins til ársins 1962, þá stýrimaður á nýju vitaskipi, Árvakri, sem kom til landsins í júnímánuði 1962. Ég var að ljúka 2. bekk í farmannadeild Stýrimannaskólans í byrjun apríl 1965 þegar Kristján Sveinsson hafði samband við mig, það vantaði stýrimann á vitaskipið. Ég sló til og sá ekki eftir þeirri ákvörðun því siglt var nánast inn á alla firði, voga og víkur landsins. Það var gott og farsælt samstarfið við Kristján, hann var ákveðinn og öruggur í sínu starfi sem gat ástundum verið við vosbúð og kulda þegar farið var í land vegna lagfæringa á vitum og öðru þeim tilheyrandi. Kristján tók við skipstjórn á björgunarskipinu Goðanum 1966 og til þess tíma er skipið strandaði í Vöðlavík í janúar 1994.

Kristján var fulltrúi skipstjórafélagsins í Sjómannadagsráði, var í stjórn ráðsins og Hrafnistuheimilanna í 15 ár.

Kristján Sveinsson var heiðraður á sjómannadaginn 1994.

Við hjónin sendum Valgerði, dætrum og öðrum ættingjum samúðarkveðjur vegna fráfalls Kristjáns Sveinssonar.

Guðmundur Hallvarðsson.