[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Georg Már Ottósson fæddist 29. september 1951 á Hvolsvelli og ólst þar upp. Hann lauk barnaskóla þar og gagnfræðaprófi á Skógum 1967. Flestum sumrum eyddi hann í fangi ömmu og afa á Giljum í Hvolhreppi.

Georg Már Ottósson fæddist 29. september 1951 á Hvolsvelli og ólst þar upp. Hann lauk barnaskóla þar og gagnfræðaprófi á Skógum 1967. Flestum sumrum eyddi hann í fangi ömmu og afa á Giljum í Hvolhreppi. Þar kunna að hafa þroskast í honum ræktunargen sem hafa komið honum vel síðan.

Eftir gagnfræðaskóla fór hann að vinna við smíði á nýjum skóla á Hvolsvelli í eitt ár og hóf svo skólagöngu aftur í Kennaraskóla Íslands við Stakkahlíð. Þaðan fór hann í Íþróttaskólann á Laugarvatni og útskrifaðist sem íþróttakennari 1971.

Eftir útskrift sinnti Georg kennslu á Hellu í tvö ár, við íþróttir og bóklega kennslu á barna- og unglingastigi. Sundkennsla fór þá fram í Laugalandi í Holtum undir yfirstjórn þess merka manns Más Sigurðssonar Greipssonar frá Geysi. Í framhaldi af því réðst Georg sem íþrótta- og bóklegur kennari að Flúðum í Hrunamannahreppi og starfaði þar í 18 ár og hafði þá kennt í 20 ár samfellt. En síðustu kennsluárin hóf þessi athafnamaður ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni, Guðbjörgu Runólfsdóttur, uppbyggingu á garðyrkjustöðinni Flúða-Jörfa. Flúða-Jörfi dafnaði og óx uns þau bættu við og kauptu garðyrkjustöðina Ásland sem þá var ein stærsta garðyrkjustöð á landinu. Þar með varð til hagkvæm rekstrareining sem gekk vel og gerir enn í dag með ágætum.

Árið 2005 keypti Georg svo hlutafélagið Flúðasveppi ehf. og þá enn sem fyrr komu fram ræktunareiginleikar hans og svepparæktin dafnar og vex enn í dag. „Við erum komin með veitingastaðinn Farmers Bistro, sem var opnaður fyrir þremur árum. Þetta var hugmynd sem kom upp hjá mér fyrir mörgum árum til að kynna okkar vörur og landbúnaðinn í heild. Við vorum með opið í sumar og það var brjálað að gera, en við lokuðum í fjórðu bylgjunni í ágúst og opnum svo ekki aftur fyrr en með hækkandi sól.“

Georg var stjórnarformaður Sölufélags garðyrkjumanna og átti þar drjúgan þátt í uppbyggingu þess félags sem í dag flokkast eins og önnur fyrirtæki hans sem fyrirmyndarfyrirtæki.

Georg lærði ungur til einkaflugmanns og naut þess að skoða lendur sínar og ræktun úr lofti. Þá hefur hann alla tíð haft áhuga á hestum og sannri reiðmennsku og eignast um tíðina nokkra ágætis gæðinga. T.d. vann hann Hreppasvipuna 1978 á Murneyrum sem þá voru verðlaun fyrir alhliða gæðing. Í dag stundar hann nám í reiðmennsku á háskólastigi á vegum endurmenntunardeildar Landbúnaðarháskóla Íslands sem nefnist Reiðmaðurinn. Skipulagðar hestaferðir á sumrin með góðu fólki skipa háan sess í hans hestamennsku.

Georg er vinfastur, kappsamur og metnaðarfullur orkubolti sem ekki hefur kallað allt ömmu sína í gegnum tíðina. Hann fagnar nú sjötugasta aldursári sínu fullur af hugmyndum og orku til framtíðar.

Georg ætlar að bíða með að halda upp á afmælið. „Það er svo mikið að gera, loksins hætti að rigna, haustverkin eru því á fullu og við erum að þreskja korn og taka upp gulrætur. Við höfum verið að bíða eftir þessari viku og ég get því ekki farið að halda veislu núna, hver sólarhringur skiptir máli. Það eru veðurviðvaranir allt í kringum okkur, en þurrt og gott hér.“

Fjölskylda

Börn Georgs með fyrrverandi eiginkonu sinni, Guðbjörgu Runólfsdóttur, f. 7.10. 1954, eru: 1) Daði, f. 14.8. 1975, tónlistarmaður og tónlistarkennari, búsettur í Borgarnesi. Eiginkona hans er Þóra Sif Svansdóttir, f. 3.5. 1983; 2) Láretta, f. 8.12. 1978, viðskiptafræðingur og vinnur hjá Atlanta, búsett í Mosfellsbæ. Eiginmaður hennar er Hjörtur Pétursson, f. 25.5. 1975; 3) Kári, f. 25.12. 1984, viðskiptafræðingur og starfar hjá Nova, búsettur í Reykjavík. Eiginkona hans er Anna Guðmunda Andrésdóttir, f. 5.5. 1985; 4) Ragnheiður, f. 4.5. 1986, viðskiptafræðingur og starfar hjá Farmers Bistro, búsett á Flúðum. Barnabörn Georgs eru tíu.

Systkini Georgs eru Svavar Ottósson, f. 4.7. 1947, véltæknifræðingur í Mosfellsbæ; Sólveig Eyfjörð Ottósdóttir, f. 24.8. 1953, húsmóðir á Giljum í Rangárþingi eystra; Óli Kristinn Ottósson, f. 30.5. 1960, bóndi á Eystri-Seljalandi undir Eyjafjöllum, og Sigurður Grétar Ottósson, f. 17.3. 1962, bóndi í Ásólfsskála undir Eyjafjöllum.

Foreldrar Georgs voru hjónin Ottó Eyfjörð Ólason, f. 19.8. 1928, d. 31.5. 2009, bílstjóri, listmálari og ljósmyndari á Hvolsvelli, og Fjóla Guðlaugsdóttir, f. 3.6. 1930, d. 27.4. 2020, húsfreyja á Hvolsvelli og starfsmaður Kaupfélags Rangæinga.