[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Fanndís Friðriksdóttir , leikmaður Vals í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við félagið til næstu tveggja ára. Fanndís, sem er 31 árs gömul, gekk til liðs við Val frá Marseille í Frakklandi árið 2018 en hún er uppalin hjá ÍBV í Vestmannaeyjum.
* Fanndís Friðriksdóttir , leikmaður Vals í knattspyrnu, hefur framlengt samning sinn við félagið til næstu tveggja ára. Fanndís, sem er 31 árs gömul, gekk til liðs við Val frá Marseille í Frakklandi árið 2018 en hún er uppalin hjá ÍBV í Vestmannaeyjum. Hún lék tólf leiki með Íslandsmeistaraliði Vals í efstu deild í sumar þar sem hún skoraði fjögur mörk. Alls á hún að baki 216 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 111 mörk og þá á hún að baki 109 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 17 mörk en hún er ellefta leikjahæsta landsliðskona sögunnar.

*Haukar, sem féllu úr úrvalsdeild karla í körfuknattleik á síðasta tímabili, ætla sér líklega ekki að staldra lengi við í 1. deildinni. Liðið lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í gær og rótburstaði ÍA á Skaganum 120:44. Shemar Deion Bute skoraði 26 stig fyrir Hauka.

* Gauti Guðmundsson , landsliðsmaður Íslands á skíðum, gerði góða ferð til Hollands um nýliðna helgi.

Gauti keppti á tveimur svigmótum innandyra í Landgraaf, SnowWorld Cup ILC 2021 og Lowland Championship 2021. Hann gerði sér lítið fyrir og vann á báðum mótunum en hann undirbýr sig nú erlendis fyrir komandi keppnistímabil.

* Guðmundur Þ. Guðmundsson , landsliðsþjálfari karla í handknattleik, sagði ákvörðun forráðamanna Melsungen hafa komið sér á óvart á dögunum en þeir tóku þá ákvörðun að slíta samstarfinu við Guðmund. Segist Guðmundur hafa skömmu áður greint þeim frá áhuga danska liðsins Frederica. Guðmundur sagði frá þessu í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun.

*Simone Biles , ein fremsta fimleikakona sögunnar, segir að það hafi verið mistök að taka þátt í Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar. Þetta kom fram í viðtali hennar við New York Magazine. Biles komst í úrslit í alls sex greinum í fimleikakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó en hætti keppni í fjórum þeirra vegna andlegra erfiðleika. Hún fékk brons á jafnvægisslá í Tókýó og silfurverðlaun í liðakeppni með Bandaríkjunum.Vann hún til fernra gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 og höfðu margir vonast til þess að hún myndi leika sama leik í Japan. „Það voru mistök að taka þátt á Ólympíuleikunum miðað við allt sem ég var búin að ganga í gegnum undanfarin sjö ár,“ sagði Biles.

Biles var misnotuð kynferðislega af Larry Nassar , fyrrverandi lækni bandaríska fimleikasambandsins, en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir brot sín gegn bandarískum fimleikakonum árið 2017. „Ég var staðráðinn í því að láta hann ekki ræna mig gleðinni í því sem ég var að gera. Ég var búin að byrgja þetta inni í mér í langan tíma og að lokum varð eitthvað undan að láta.

Ég fann fyrir meira stressi, eftir því sem leikarnir nálguðust, og sjálfstraustið var ekki eins og það var vanalega eftir langar og strangar æfingar.“