Markaskorari Lionel Messi var að vonum ánægður með að skora sitt fyrsta mark fyrir PSG í gærkvöldi.
Markaskorari Lionel Messi var að vonum ánægður með að skora sitt fyrsta mark fyrir PSG í gærkvöldi. — AFP
Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir franska félagið Paris Saint-Germain þegar liðið bar sigurorð af Manchester City í stórslag í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í gærkvöldi.

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir franska félagið Paris Saint-Germain þegar liðið bar sigurorð af Manchester City í stórslag í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í gærkvöldi. Hann innsiglaði þá 2:0 sigur PSG þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka. Messi gekk til liðs við PSG frá Barcelona í sumar og var að spila sinn fjórða leik fyrir félagið í öllum keppnum. Á sama tíma vann Club Brugge, sem gerði jafntefli við PSG í 1. umferð, frækinn 2:1 útisigur gegn RB Leipzig í riðlinum.

Auðvelt hjá Liverpool

Liverpool gerði góða ferð til Portúgals og vann 5:1 stórsigur gegn Porto í B-riðlinum þar sem Mohamed Salah og Roberto Firmino skoruðu tvö mörk hvor og Sadio Mané eitt. Liverpool hefur nú skorað 14 mörk í síðustu þremur heimsóknum sínum á Estadio do Dragao-völlinn í Porto í Meistaradeildinni. Luis Suárez, fyrrverandi leikmaður Liverpool, reyndist hetja Atlético Madríd þegar hann skoraði sigurmark úr vítaspyrnu á sjöundu mínútu uppbótartíma í 2:1 sigri gegn AC Milan í Mílanó í hinum leik riðilsins. AC Milan lék einum færri í rúman klukkutíma eftir að Franck Kessié fékk tvö gul spjöld og þar með rautt innan hálftíma leiks.

Hreint út sagt ótrúleg úrslit litu svo dagsins ljós í D-riðlinum þegar Sheriff Tiraspol frá Moldóvu gerði sér lítið fyrir og vann Real Madríd 2:1 í Madríd. Sheriff er þar með á toppi riðilsins með fullt hús stiga, 6 stig, að loknum tveimur umferðum.

gunnaregill@mbl.is