Kórea Ferðalangar á lestarstöð í Seúl horfa á fréttir af skotinu.
Kórea Ferðalangar á lestarstöð í Seúl horfa á fréttir af skotinu. — AFP
Bandaríkjamenn og Bretar fordæmdu í gær stjórnvöld í Norður-Kóreu fyrir tilraunaskot með skammdræga eldflaug sem þau framkvæmdu í fyrrinótt.

Bandaríkjamenn og Bretar fordæmdu í gær stjórnvöld í Norður-Kóreu fyrir tilraunaskot með skammdræga eldflaug sem þau framkvæmdu í fyrrinótt. Sagði í tilkynningu frá suðurkóreska hernum að flauginni hefði verið skotið frá héraðinu Jagang í norðurhluta Norður-Kóreu, áður en hún lenti í hafinu undan austurströnd Kóreuskagans.

Sagði bandaríska utanríkisráðuneytið að tilraunin væri ógn við nágranna Norður-Kóreu og alþjóðasamfélagið allt, auk þess sem hún bryti í bága við fjölmargar ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Breska utanríkisráðuneytið tók í sama streng og kallaði jafnframt eftir því að Norður-Kóreumenn hæfu aftur viðræður um kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga.

Kom Song, sendiherra Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum, lýsti því hins vegar yfir á allsherjarþingi þeirra að enginn gæti fjarlægt rétt Norður-Kóreumanna til sjálfsvarnar, og að þeir hefðu fullan rétt á að prófa vopn sín. „Við erum einungis að byggja upp landvarnir okkar til þess að verja okkur og tryggja frið og öryggi ríkisins,“ sagði Song í ávarpi sínu á þinginu.

Lagði til leiðtogafund

Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu töldu tilraunina vera ætlaða til að reyna á viðbrögð Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, í kjölfar þess að Kim Yo-jong, systir einræðisherrans Kim Jong-il, opnaði á þann möguleika á laugardaginn að halda leiðtogafund milli Kóreuríkjanna.

Hafði Moon Jae-in lagt þann fund til, en á dagskrá hans yrði meðal annars að undirrita formlegan friðarsamning milli Kóreuríkjanna og binda þannig opinberan enda á Kóreustríðið, sem geisaði frá 1950 til 1953.