Leikstýrir Ólafur Arnalds er annar tveggja leikstjóra stuttmyndarinnar Ólafur Arnalds: Er við fæðumst.
Leikstýrir Ólafur Arnalds er annar tveggja leikstjóra stuttmyndarinnar Ólafur Arnalds: Er við fæðumst.
Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst á morgun, fimmtudag, og er nú haldin í 18. sinn.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst á morgun, fimmtudag, og er nú haldin í 18. sinn. Að vanda verður sýndur fjöldi íslenskra stuttmynda í tveimur flokkum og sjónum þannig beint að grasrótinni í íslenskri kvikmyndagerð, að því er fram kemur í tilkynningu. Einni stuttmynd sem þykir skara fram úr verða veitt sérstök verðlaun.

Í fyrri stuttmyndaflokknum eru tvær myndir sem voru í keppni á kvikmyndahátíðinni í Cannes í sumar sem þykir fágætt fyrir íslenskar stuttmyndir. Annars vegar er það stuttmyndin Frie Mænd eða Frjálsir menn sem er útskriftarmynd Óskars Kristins Vignissonar úr Konunglega danska kvikmyndaskólanum og fjallar um vináttu tveggja karlmanna sem vinna í fiskvinnslu, og hins vegar Céu De Agosto eða Ágústhiminn eftir brasilísku kvikmyndagerðarkonuna Jasmin Tenucci en myndin er brasilísk-íslensk samframleiðsla og segir af hjúkrunarfræðingi sem leitar á náðir hvítasunnusöfnuðar á sautjánda degi skógarbruna í Amasón.

Eldingar eins og við nefnist stuttmynd sem er fyrsta leikstjórnarverkefni Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttir sem er einnig þekkt sem tónlistarkonan Kira Kira og Frenjan eftir Þóreyju Mjallhvíti H. Ómarsdóttir segir frá konu á miðjum aldri sem verður sífellt önugri er kúahjörð tekur yfir borgina en hún er sú eina sem tekur eftir skepnunum.

Poppararnir Jóhann Kristófer Stefánsson/Joey Christ og Bríet fara með aðalhlutverkin í Egginu , ástarsögu í framtíðarsamfélagi sem er leikstýrt af Hauki Björgvinssyni, og Klettur aldanna eftir Eron Sheean segir frá hermanni á flótta sem rekst á talandi klett og í eru Tómas Lemarquis og Ólafur Darri Ólafsson í aðalhlutverkum. Hinn flokkurinn er skipaður nemamyndum og koma þær úr ýmsum áttum eins og sjá má á riff.is.

Fimm íslenskar stuttmyndir eru svo sýndar á hátíðinni í öðrum flokkum. Má þar nefna Ólafur Arnalds: Er við fæðumst sem sýnir lifandi flutning á tónlist Ólafs og skyggnist í hugarheim tónskáldsins þar sem einstakrar upplifunar af einingu náttúru, vitundar og listar er notið, eins og því er lýst í tilkynningu en Ólafur leikstýrir myndinni með Vincent Moon.

Horfin borg í leikstjórn Magnúsar Andersen er sögð óður til Reykjavíkur þá og nú, innblásinn af samnefndu lagi Úlfs Eldjárns, og eru þessar tvær myndir hluti af tónlistarmyndaflokki hátíðarinnar.

Tvær íslenskar stuttmyndir keppa um Gullna eggið, þar sem stuttmyndir þátttakenda í kvikmyndasmiðju hátíðarinnar, Talent Lab, eru sýndar. Það eru myndirnar Í gegnum stórmarkaðinn í fimm hlutum eftir Önnu-Mariu Jóakimsdóttir Hutri, dansmynd sem kjarnar hversdagsraunir nútímafjölskyldunnar við vikulega matarsöfnun, og Panikkprósi eftir Ernu Mist sem sögð er ljóðrænn vitnisburður um einangrun, firringu og þýðingu þess að týnast í félagsskap við sjálfan sig.

Síðast en ekki síst er svo nefnd stuttheimildarmyndin MÍR: Byltingin lengi lifi eftir Hauk Hallsson sem verður sýnd sem hluti af „sovéskri tvennu“ með Village Detective: A Song Cycle eftir Bill Morrison, og er hluti af heimildarmyndadagskrá hátíðarinnar.