Dýrley fæddist í Reykjavík 25. september 1936. Hún lést á Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi 19. september 2021.

Foreldrar hennar voru þau Sigurður Guðmundsson, f. 17. desember 1913, d. 20. mars 1980 og Lára Sæmundsdóttir, f. 28. september1913, d. 8. desember 2017. Fósturfaðir Dýrleyjar var Gísli Oddsson, f. 5. september 1912, d. 23. mars 1987. Systkini sammæðra eru: Sæmundur, látinn, Sigríður, Oddur, Unnur og Gunnar. Systkini samfeðra eru: Sigríður, Svanhildur, Valur, Rúnar, Guðmundur, Sigurjóna, Hildur og Hörður.

Dýrley ólst upp í Reykjavík. 18. ágúst 1956 giftist Dýrley Daníel Kr. Kristinssyni, f. 8. maí 1930, d. 2. janúar 1995. Foreldrar hans voru Kristinn M. Þorkelsson, f. 17. ágúst 1904, d. 10. mars 1980, og Magðalena S. Sigurðardóttir, f. 17. september 1911, d. 10. nóvember 1985. Stjúpfaðir var Óskar Árnason, f. 24. september 1906, d. 24. maí 1983.

Dýrley og Daníel eignuðust sex börn: Magnús Karl, f. 31. janúar 1956, giftur Ragnheiði Jónsdóttir og eiga þau saman sex börn og sjö barnabörn. Gísli Dan, f. 23. nóveber 1957, d. 15. desember 1979, á hann einn son og eitt barnabarn. Sveinbjörn R. Daníelsson, f. 20. október 1958, d. 1. febrúar 2014, eiginkona Anna Kathrina Næs og eiga þau fjóra drengi og fjögur barnabörn. Lára Dan Daníelsdóttir, gift Sigurði Harðarsyni og eiga þau fjórar dætur og 14 barnabörn. Þórey Daníelsdóttir, 28. ágúst 1962, og eignaðist hún fjögur börn en eitt lést í bernsku. Reynir Daníelsson, f. 12 apríl 1964, giftur Valgerði Sveinsdóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn.

Dýrley vann lengi vel við fiskvinnslu hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar en árið 1978 fór hún yfir í Ísbjörninn sem síðar varð HB Grandi þar sem hún vann í fyrstu við gæðaeftirlit eftir að hafa farið í Fiskvinnsluskólann. Síðar vann hún sem verkstjóri og endaði starfsferil sinn á skrifstofu HB Granda árið 2004.

Dýrley byggði sér bústaðinn Laufás árið 1991 sem hún naut vel í frítíma sínum.

Dýrley verður jarðsungin frá Garðakirkju í dag, 29. september 2021, kl. 13.

Til mömmu.

Elsku mamma.

Þú ólst mig upp með von í hjarta

mér til handa um framtíð bjarta.

Hamingjusöm ég á að vera

elskuleg móðir sem allt vill gera.

Með þessum orðum vil ég þakka þér

alla þá ást og umhyggju sem gafst þú mér.

Ég elska þig mamma og mun ávallt gera.

Það vil ég að þú vitir hvar sem ég mun vera.

(KLS)

Elsku mamma, takk fyrir að vera þú.

Þín dóttir,

Þórey Daníelsdóttir

Í hjarta mínu er lítið ljós,

sem logar svo skært og rótt.

Í gegnum torleiði tíma og rúms

það tindrar þar hverja nótt.

Það ljósið kveiktir þú, móðir mín,

af mildi, sem hljóðlát var.

Það hefur lifað í öll þessi ár,

þótt annað slokknaði þar.

Hér sit ég á afmælisdaginn þinn og í stað þess að vera skrifa á afmæliskortið skrifa ég minningarorð til þín. Það er ljúfsárt, svo sárt að missa þig og ljúft að minnast að þú varst mamma mín 61 ár. Ég ætla ekki að lofa þig og þín verk þó það væri freistandi en ég læt aðra um það. Þeir sem þekktu þig vita hversu mikil hetja þú barðist úr fátækt án þess að missa fallega nærveru og karakter.

Ég vil bara minnast þín sem mömmu minnar og góðrar vinkonu, við vorum svo nánar og deildum flestu ef ekki öllu saman. Sem móðir stóðst þú ætíð mér við hlið, leiðbeindir mér þegar þannig stóð á, hafðir alltaf tíma til að hlusta, spjalla og gefa ráð, stundum var ég ekki sammála en alltaf náðum við lendingu. Þú varst stúlkunum mínum amman sem fylgdist með öllu, mættir á skólaskemmtanir, vannst grettukeppni, mættir á keppnismótin, gafst þér tíma til að bjóða í bíltúr eða ferð í bústaðinn þegar unglingsárin skullu á og móðirin skildi ekkert í þessum breytingum. Þú bara varst svo góð að laga hlutina. Hjartað þitt stóð alltaf opið fyrir stelpunum mínum og svo þegar barnabörnin komu slóst þú ekkert af að fylgja þeim eftir í leik, námi og íþróttum.

Ekki síður varstu mér góð vinkona og ég þér, við gátum spjallað endalaust um það sem skipti máli og það sem skipti akkúrat engu mál, þú fylgdist vel með þjóðmálunum og var fróðleiksfús. Við deildum leyndarmálum saman, við gátum endalaust hlegið og gantast, svo áttum við sameiginlegt áhugamál sem voru bókmenntir. Vil lásum sömu bækurnar og skeggræddum þær fram og til baka, helst voru það ævisögur Íslendinga sem voru á toppnum, en líka skáldsögur. Uppáhaldsviðfangefnið okkar var saga Jóns Arasonar biskups og lá hún alltaf á náttborðinu þínu. Tónlist elskuðum við báðar og þá helst kántrí sem og aðra tónlist og eftir að þú lést yfirbyggja svalirnar þá var ekkert betra en að sitja þar og hlusta á músík.

Þú elskaðir og varst elskuð.

Í fangi mínu lagðir þú af stað í Sumarlandið, ég kúrði við hlið þér og það var friðsæl stund. Mér langaði ekki að sleppa hlýju höndinni en þú varst tilbúin.

Ég elska þig mamma mín og í hjarta mér geymi ég minningu þína.

Góða nótt.

Og þó þú sért horfin héðan burt

og hönd þín sé dauðakyrr,

í ljósi þessu er líf þitt geymt,

— það logar þar eins og fyrr.

Í skini þess sífellt sé ég þig

þá sömu og þú forðum varst,

er eins og ljósið hvern lífsins kross

með ljúfu geði þú barst.

Af fátækt þinni þú gafst það glöð,

— þess geislar vermdu mig strax

og fátækt minni það litla ljós

mun lýsa til hinsta dags.

(Jóhannes úr Kötlum)

Þín dóttir,

Lára Dan Daníelsdóttir.

Minning um þig, elsku mamma, tengdamamma, amma og langamma, mun lifa. Okkur langar að kveðja þig, elskuleg, með þessum orðum í ljóði eftir Gísla á Uppsölum:

Þegar raunir þjaka mig

þróttur andans dvínar

þegar ég á aðeins þig

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

Magnús Karl Daníelsson, Ragnheiður Jónsdóttir, börn og barnabörn.

Yndislega og hjartahlýja tengdamóðir mín, Dýrley, hefur kvatt þessa jarðvist og heldur á vit nýrra ævintýra í Sumarlandinu fagra.

Það var fyrir um fjörutíu árum að leiðir okkar lágu saman og ég fann strax að ég var velkomin á heimili hennar. Hún tók mér opnum örmum og samband okkar var alla tíð mjög gott og hlýtt var á milli okkar. Dýrley var einstaklega áhugasöm um börn okkar Reynis og bar hag þeirra ávallt fyrir brjósti. Hún fylgdist vel með þeim alla tíð, vissi alltaf hvað þau voru að fást við hverju sinni og naut þess að vera í samskiptum við þau.

Tengdamóðir mín hefur seinni árin glímt við heilsubrest en með mikilli þrautseigju náði hún sér á strik inn á milli og átti betri daga. Henni var umhugað um að líta vel út og fór reglulega í lagningu sem og hand- og fótsnyrtingu.

Við áttum saman margar góðar stundir síðustu tvö ár hennar á Flatahrauninu, sérstaklega eftir að svalalokun var sett upp. Hún naut þess svo sannarlega að sitja úti á svölum þegar vel viðraði, fylgdist með fuglunum, hlustaði á tónlist og naut umhverfisins. Hún var umvafin fallegum blómum og tíndi til aðra fallega muni til að fegra í kringum sig. Tveir hitarar gerðu það að verkum að hún gat notið þessa í mun ríkara mæli. Á svölunum endurupplifði hún sinn besta tíma sem voru árin í sumarbústaðnum hennar. Laufás var hennar sælureitur sem hún lagði mikinn metnað í að koma upp og var henni ávallt afar hjartfólginn.

Þessar breytingar á svölunum gerðu þess vegna svo ótrúlega mikið fyrir hana. Þarna naut hún sín í botn. Hún bauð aðstoðarfólki og gestum upp á gott kaffi, konfektmola og gott spjall á meðan heilsa hennar leyfði.

Ástkær tengdamóðir, ég mun ávallt minnast þín með mikilli hlýju og þakklæti fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Farðu í Guðs friði og megi minning þín lifa með okkur alla tíð.

Þín

Valgerður.