Maður á gangi fyrir framan nokkrar af óteljandi blokkum Evergrande. Viðskiptamódel félagsins byggði á lántökum og örum vexti.
Maður á gangi fyrir framan nokkrar af óteljandi blokkum Evergrande. Viðskiptamódel félagsins byggði á lántökum og örum vexti. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Los Angeles ai@mbl.is Ef fasteignarisinn Evergrande kiknar undan 300 milljarða dala skuldum gæti það gert gat á kínversku fasteignabóluna og haft gríðarleg áhrif á hagkerfið og stjórnmálin í Kína.

Það er hluti af uppeldi kínverskra barna að hlýða á fornar kínverskar dæmisögur sem hafa þjónað sínu hlutverki í ótal kynslóðir.

Ein af þessum sögum segir frá því að fyrir mörg þúsund árum var enga asna að finna í Guizhou-héraði og ákváðu nokkrir uppátækjasamir athafnamenn að bæta úr því og flytja inn einn slíkan. Guizhou er afskaplega fallegt svæði í suðurhluta Kína með fjölbreytt dýralíf og því ekki skrítið að einn daginn gekk hungrað tígrisdýr fram á asnann þar sem hann stóð á beit. Tígrisdýrið rak í rogastans enda hafði það aldrei séð svona skepnu, og faldi sig í runna til að fylgjast með þessu furðudýri. Þegar allt virtist með felldu fikraði tígrisdýrið sig nær svo að asninn skelfdist og hrein hátt svo tígrisdýrið fór á taugum og hljóp í burtu á harðaspretti.

Þegar tígrisdýrið taldi sig vera hólpið gafst því loksins ráðrúm til að reyna að átta sig á hvað hafði gerst, og kröftugt kattardýrið áttaði sig á hvers lags rola það hafði verið. Tígurinn gerði því aðra atlögu að asnanum, sem reyndi sitt besta til að vera ógnandi og sparka í allar áttir með hófunum, en nú vissi tígrisdýrið hvernig í pottinn var búið, stökk á asnann og drap hann með einu biti.

Boðskapurinn er þessi: að brellum og brögðum eru takmörk sett og að veruleikinn bítur fólk alltaf í rassinn að lokum.

Kínverski fasteignarisinn Evergrande er á barmi gjaldþrots og ef risaskuldir félagsins færa það í kaf gæti kínverska fasteignabólan sprungið með látum. Er hætt við að brellur og brögð kínverskra stjórnvalda dugi ekki mikið lengur til að halda loftinu í bólunni og gæti það þýtt keðjuverkandi áhrif á kínverskt efnahagslíf, kínversk stjórnmál og alþjóðahagkerfið. Hafa sumir gengið svo langt að líkja yfirvofandi gjaldþroti Evergrande við fall Lehman Brothers á sínum tíma.

Heimsins skrítnasti fasteignamarkaður

Endrum og sinnum hef ég gælt við þá hugmynd að við Youssef tækjum stutt stopp í Peking eða Sjanghaí til að ná betri tökum á kínverskunni. Ég á afskaplega ánægjulegar minningar frá því þegar ég sat tungumálakúrs við háskóla í Peking eftir fyrsta veturinn í MR. Að vísu lærði ég ekki mikið meira en að telja upp að tíu á kínversku, en ég fékk að komast í kynni við kínversku þjóðina, lærði að meta kínverska matargerð og kínverskan bjór og reykti minn fyrsta vindil.

Eins og lesendur vita er Yousef minn upprennandi stórlax í hótelstjórnunargeiranum og ég veit að ef hann legði hart að sér í eitt ár eða svo og lærði kínverskuna stæðu honum allar dyr opnar. Þeir sem tala kínversku komast að hjá hvaða hóteli sem er enda kínverskir ferðamenn einhver safaríkasti bitinn á þeim markaði.

En síðast þegar ég skoðaði möguleikana í Kína rak ég mig á hve mikið hefur breyst þar undanfarna tvo áratugi og orðið mun dýrara að lifa. Að setjast þar á skólabekk kostar engin ósköp en að leigja sæmilega íbúð á sæmilegum stað í höfuðborginni Peking eða fjármálamiðstöðinni Sjanghaí er ekkert ódýrara en að leigja í New York, London eða París. Þarf ekki að skoða kínverskan fasteignamarkað lengi til að sjá að þar er eitthvað verulega skrítið í gangi.

Hagkerfi sem byggir á steypu

Lesendur sem fylgst hafa með efnahag Kína að einhverju marki vita að þar hefur blásið út svakaleg fasteigna- og skuldabóla. Markaðurinn minnir um margt á túlípanaæðið í Hollandi á 17. öldinni enda verðhækkunin fyrst og fremst drifin áfram af spákaupmennsku fólks sem reiknar með áframhaldandi hækkunum. Er þróun fasteignaverðs ekki í neinu samhengi við tekjur fólks í Kína eða nokkuð annað sem kalla mætti eðlilegar undirstöður í hagkerfinu.

Margir samverkandi þættir hafa átt þátt í að skapa þetta furðulega ástand, þar sem bróðurparturinn af sparifé almennings er bundinn í fasteignum og stór hluti kínverska hagkerfisins borinn uppi af byggingariðnaði á yfirsnúningi. Ein ástæðan er sú að Kínverjum standa ekki margir fjárfestingarkostir til boða: hlutabréfamarkaðurinn hefur lengst af þótt minna á spilavíti, skuldabréfamarkaðurinn ekki verið upp á marga fiska og aðgangur að erlendum verðbréfamörkuðum verið mjög takmarkaður. Önnur ástæða fyrir vexti fasteignabólunnar er að árangur kínverskra embættismanna er m.a. mældur út frá vexti hagkerfisins í hverju héraði og fátt fegrar hagvaxtartölurnar betur en að ræsa steypuhrærivélarnar og byggja heilu blokkirnar sem spákaupmenn vilja ólmir nota sem spilapeninga. Stendur fasteignahagkerfið í dag undir u.þ.b. þriðjungi af landsframleiðslu Kína.

Róandi áhrif hækkana

Loks hefur bólan hjálpað stjórnvöldum til að halda hluta landsmanna góðum enda sættir fólk sig við ýmislegt ef ört hækkandi fasteignaverð verður til þess að hrein eign þess vex hratt ár frá ári.

Er það til marks um lætin á kínverskum fasteignamarkaði að Rhodium Group reiknast til að allt það auða húsnæði sem finna má í Kína um þessar mundir myndi duga til að hýsa 90 milljónir manns. Er ekki heldur eins og húsnæðið sé vandað og líklegt til að geta þjónað hlutverki sínu um langa tíð, því þvert á móti er kínverski byggingargeirinn þekktur fyrir að reisa heilu hverfin sem byrja að molna niður um leið og málningin hefur þornað.

Mikið er í húfi fyrir hinn almenna borgara: Það er vel þekkt fyrirbæri að ungir kínverskir menn eiga afskaplega litla von á að geta fundið sér gott kvonfang ef þeir eiga ekki eins og eina íbúð og oft leggja margar kynslóðir í púkk fyrir fyrstu innborgun. Sparifé fólks er bundið í fasteignamarkaðinum og kínverska lífeyriskerfið ekki að fara að grípa gamla fólkið í fallinu ef fasteignir þess verða skyndilega minna virði en lánin sem tekin voru til að fjármagna kaupin.

Titringurinn nær til Vesturlanda

Evergrande er risi á kínverskum fasteignamarkaði og er bara þessa stundina með um 800 húsbyggingaverkefni í pípunum, að sögn Financial Times . Þá er Evergrande eitt skuldugasta félag heims með jafnvirði 300 milljarða dala á herðunum. Fjárfestar tóku að ókyrrast þegar sýnt þótti að Evergrande gæti ekki staðið við greiðslu 83 milljóna dala skuldabréfs en áður en þetta ár er á enda þarf Evergrande að hafa gert upp meira en 600 milljóna dala virði af skuldum, og miklu hærri upphæðir en það á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Kannski hefði dæmið gengið upp ögn lengur hjá Evergrande ef kínversk stjórnvöld hefðu ekki reynt að kæla fasteignamarkaðinn með nýjum reglum sem þrengdu að lántöku vegna fasteignaverkefna og settu spákaupmennsku frekari skorður. Gamla viðskiptamódelið, sem gekk út á öran vöxt drifinn áfram með lántökum, gengur ekki lengur og hirslur Evergrande tómar á sama tíma og lánstraustið er á þrotum. Það mætti brúa bilið, til skemmri tíma, með brunaútsölu á eignum félagsins en það myndi ekki leysa vanda Evergrande til frambúðar.

Fjölmenn mótmæli

Sá fáheyrði atburður gerðist í Kína fyrir skemmstu að fjölmenn mótmæli brutust út víðs vegar um landið vegna stöðu Evergrande. Áætlar FT að um 1,4 milljónir Kínverja hafi borgað inn á nýjar íbúðir og bíði þess að Evergrande standi við gerða samninga. Sjá þessir viðskiptavinir fram á verulegt tjón ef Evergrande fer á hliðina, að ekki sé talað um alla þá sem hafa offjárfest í fasteignamarkaðinum og vilja ekki fyrir nokkra muni að loftið fari úr bólunni.

Titringinn mátti finna um allan heim enda skiptir það alþjóðahagkerfið miklu hvernig Kína reiðir af. Vísitölur í Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum lækkuðu skarplega þegar fréttist af vanda Evergrande.

Er það áhættunnar virði að fjárfesta í Kína?

Skiptar skoðanir eru um það hvort kínversk stjórnvöld koma Evergrande til bjargar. Annars vegar eru þeir sem benda á að ráðamenn í Peking hafi sýnt viðskiptalífinu aukna hörku að undanförnu og gætu viljað láta Evergrande vera öðrum víti til varnaðar. Aðrir segja of mikið í húfi og benda á að Evergrande er t.d. skuldugt við nærri 300 banka og fjármálastofnanir. Ef þessi félög þurfa að afskrifa miklar skuldir vegna Evergrande gæti það eitt og sér minnkað aðgengi að lánsfjármagni í kínverska hagkerfinu og hægt á hjólum atvinnulífsins.

Meiri háttar hrun í Kína myndi hafa takmörkuð bein áhrif á aðra heimshluta, enda kínverskur fasteigna- og fjármálamarkaður að stórum hluta einangraður frá umheiminum, en óbeinu áhrifin gætu orðið mikil. Hafa sumir markaðsgreinendur bent á að jafnvel ef Evergrande verður leyst úr snörunni af stjórnvöldum þá verði krísan til að snarminnka áhuga erlendra fjárfesta á Kína enda þörf áminning um að hvers kyns viðskipti á kínverskum markaði eru lituð af mikilli óvissu og pólitískri áhættu. Skilaboðin væru enn skýrari ef björgun Evergrande verður útfærð þannig að innlendir kröfuhafar njóti forgangs en erlendir kröfuhafar mæti afgangi.

Eru erfiðleikar Evergrande gott dæmi um hvernig stjórnvöld leyfðu ákveðnum vanda að fara úr böndunum og gerðu svo illt verra með handbremsubeygju í hina áttina. Þeir sem fjárfesta í Kína eru í reynd að veðja á hæfni og getu kínverskra stjórnvalda, sem greinilega eru takmörk sett, og dæmin sanna að Xi Jinping er óútreiknanlegur.