Ólína Sigurbjört Guðmundsdóttir fæddist í Breiðavík í Rauðasandshreppi 11. september 1941. Hún lést á Landspítalanum 6. september 2021.

Foreldrar Ólínu voru hjónin Guðmundur Jóhann Kristjánsson bóndi, f. 2.5. 1907, d. 27.1. 1962 og Unnur Erlendsdóttir húsmóðir f. 10.2. 1915, d. 18.5. 1998.

Systkini Ólínu eru: Bergþóra Kristbjörg, f. 4.5. 1936, Erlendur, f. 23.2. 1939, d. 13.6. 1960, Egilína Kristjana Ólafía, f. 18.3. 1945, Kristinn, f. 16.7. 1948, Gyða, f. 16.7. 1948.

Börn Ólínu eru: 1) Erlendur Hilmar Geirdal, f. 24.10. 1963. Eiginkona hans er Kolbrún Matthíasdóttir, f. 11.11. 1966. Dætur Erlendar og Kolbrúnar eru: a) Sæunn Ósk, f. 9.3. 1986, d. 14.5. 2021. b) Unnur Sif, f. 3.7. 1991, sambýlismaður hennar er Eggert Reginn Kjartansson, f. 15.5. 1991. Dóttir Unnar og Eggerts er Hrefna Kolbrún, f. 8.9. 2019. c) Magnea Rún, f. 24.9. 1997. Sambýlismaður hennar er Ólafur Örn Eyjólfsson, f. 14.10. 1994. Sonur þeirra er Óliver Örn, f. 9.8. 2020.

2) Guðmundur Gísli Geirdal, f. 10.7. 1965. Börn hans eru: a) Hjörtur Atli, f. 12.12. 1987. Móðir er Bára Sævaldsdóttir, f. 9.3. 1969. Sonur Hjartar er Birkir Leó, f. 9.11. 2013, móðir er Elín Pálmadóttir, f. 27.2. 1988. Dóttir Hjartar og sambýliskonu hans Ásdísar Ólafsdóttur, f. 3.9. 1989, er Emilía Björk, f. 17.2. 2020. Börn Guðmundar og Lindu Jörundsdóttur, f. 9.8. 1967, eru: b) Axel Örn, f. 17.4. 1995, c) Bjarki Freyr, f. 5.2. 1999, d) Sandra Dís, f. 20.11. 2003. Dóttir Lindu og uppeldisdóttir Guðmundar er Helga Kristín, f. 8.1. 1987. Börn Helgu eru Róbert Aron, f. 26.12. 2007, faðir er Hafþór Karlsson, f. 4.5. 1985. Rúnar Emil, f. 3.10. 2010. Sæþór Ingi, f. 14.9. 2012. Faðir Rúnars og Sæþórs er Sigfús Atli Unnarsson, f. 5.3. 1978.

Faðir Erlendar og Guðmundar er fyrri eiginmaður Ólínu, Örn Geirdal Gíslason, f. 30.9. 1940.

3) Halldóra Sæunn, f. 12.2. 1972. Faðir hennar er seinni eiginmaður Ólínu, Sæmundur Traustason, f. 7.12. 1924, d. 31.3. 1986. Sonur Halldóru er Sæmundur Alexander Cardenas, f. 14.9. 2005, faðir hans er Cesar Eduardo Cardenas, f. 24.6. 1984.

Ólína ólst frá 8 ára aldri upp í Vatnsdal við Patreksfjörð. Fór í Húsmæðraskólann á Laugum í Þingeyjarsýslu en fluttist síðan ásamt Erni eiginmanni sínum og Erlendi syni þeirra til Grímseyjar. Þau byggðu sér þar hús að Eiðum og Guðmundur sonur þeirra fæddist 1965. Örn og Ólína skildu. 1968 fluttist hún í Grenivík og hóf sambúð með Sæmundi Traustasyni. Þau eignuðust Halldóru 1972. Í Grenivík undi Ólína hag sínum vel, þau höfðu kindur sem hún hafði yndi af og Sæmundur sótti sjó á trillu og vann síðar við verkstjórn í fiskverkun. Sæmundur lést 1986 en Ólína bjó áfram í Grenivík til ársins 2000. Þá flutti hún að Vestari-Hóli í Fljótum þar sem hún réð sig sem ráðskona hjá Sigmundi Jónssyni bónda. Eftir að Sigmundur lést árið 2011 flutti Ólína til Siglufjarðar og bjó þar á Skálarhlíð. 2016 fluttist hún að Ási í Hveragerði þar sem hún átti heima til æviloka.

Útför Ólínu fer fram í Digraneskirkju 29. september 2021 kl. 15.

Elsku hjartans mamma mín er dáin. Ég bara get ekki trúað því, vil það ekki! Þú varst svo hress. Síðast í júní varstu hjá mér í heimsókn. Hlustandi á Jim Reeves, Helga Björns, Pál Rósinkranz, Ragga Bjarna og svona mætti lengi telja. Ég spilaði af you-tube í sjónvarpið, það þótti þér mjög skemmtilegt. Þér þótti líka gaman að Sæmundi Alexander, dóttursyni þínum, spila við hann og svoleiðis. Síðan þegar ég var ekki heima þá spilaði hann ýmislegt fyrir þig í sjónvarpinu. Hann fann ýmislegt á netinu sem þú hafðir mjög gaman af, t.d. þætti um Grímsey og Björgunarafrekið við Látrabjarg. Þar var afi Guðmundur, pabbi þinn, mikið í mynd og hann var á hlaupum eitthvað og þú sagðir að svona væri Guðmundur bróðir minn. Einnig sást mynd af þér og mömmu þinni, ömmu, að kveðja pabba þinn, lítið ljóshært sex ára stelpuskott. Þú hafðir líka mjög gaman af Chapo, hundinum okkar, og gast endalaust kastað bolta til hans. Hann á eftir að sakna „ömmu“ og sviðanna sem þú varst ónísk á handa honum. Þér þótti mjög gott að borða og helst svona íslenskan mat, t.d. svið, rauðmaga, hval og fleira.

Ég man eftir að þú varst með sérstaka „snarldiska“, þessa brúnu hálfgegnsæju, þegar pabbi var ekki heima til að vilja sitt saltkjöt og siginn fisk. Þá fengum við okkur „snarl“, steikt brauð og svoleiðis. Man líka eftir því að horfa á Nonna og Manna í sjónvarpinu með þér. Annars horfðir þú nú ekki mikið á sjónvarp þegar ég var að alast upp, alltaf í eldhúsinu að stússast eða uppi í fjárhúsum að plokka.

Æi elsku mamma mín, ég sakna þín svo ótrúlega mikið. Ég vil bara fá þig hérna til mín, sitja og prjóna tuskur. Spurðir mig hvort ég prjónaði á meðan ég horfði á sjónvarpið, ég sagði nei. „Hað gerirðu eiginlega?“ Í seinni tíð horfðir þú dálítið á sjónvarp, t.d. þótti þér gaman að Ljósmóðurinni, þessari stóru sagðir þú (Miröndu), síðan var það Landinn, en mest þótti þér gaman að tónlist og síðan má ekki gleyma Hljóðbókatækinu þínu og Guðrúnu frá Lundi sem þú gast hlustað á aftur og aftur og aftur og aftur. Þegar ég var lítil þótti þér ekki leiðinlegt að snurfusa mig, hafa mig fína. Þú keyptir mikið af fötum á mig úr Quelle og einnig verslaðir þú mikið í Ásbyrgi, sem var búð á Akureyri. Varst oft að setja rúllur í hárið mitt og laga það til. Þær minna mig svo á þig þessar greiður með prjóninum. Á Þorláksmessu þegar ég var lítil þá barstu mig alltaf inn í rúm eftir baðið, ég mátti ekki verða óhrein.

Þú sagðir mér oft frá því þegar ég fæddist. Pabbi sendi þig til Húsavíkur í desember '71, ég fæddist í febrúar '72. Þú sagðir mér að þú hefðir verið að borða hákarl og drekka kók. Svo komum við heim til Grímseyjar, en fljótlega eftir það fórstu í land í einhvers konar meðferð út af veikindum þínum. Þú varst mikið veik þegar ég var að alast upp.

Elsku mamma, hve mikið ég á eftir að sakna þín er svo sárt. Þú hringdir oft á dag í mig og oft langar mig núna að hringja í þig. Elsku mamma mín, þakka þér fyrir allt og vonandi ertu búin að hitta pabba. Við sjáumst síðar.

Þín elskandi dóttir,

Halldóra Sæunn.

Elsku mamma mín hefur nú kvatt okkur, nokkrum dögum áður en hún hefði orðið áttræð.

Hún var frá Rauðasandshreppi og af Kollsvíkurætt og minntist æskuslóðanna og fólksins fyrir vestan ávallt með hlýhug. Fyrstu árin hennar var fjölskyldan í Breiðavík en fluttist svo í Vatnsdal við Patreksfjörð. Þau stunduðu búskap og afi sótti einnig sjóinn. Átján ára vann hún um tíma á Breiðavíkurheimilinu, svo fór hún í húsmæðraskóla einn vetur og eina síldarvertíð réð hún sig ásamt Kiddu systur sinni í skipspláss, sem fátítt var meðal stúlkna.

Þegar hún var nítján ára varð hún og og fjölskyldan fyrir miklu áfalli er bróðir hennar Erlendur drukknaði 21 árs ásamt Hilmari, ungum dreng sem var hjá þeim í sveit. Afi var þá orðinn veikur af krabbameininu sem tveimur árum síðar dró hann til dauða og lát Erlendar varð til þess að þau urðu að bregða búinu og flytjast á brott úr Vatnsdal.

Frá mínum uppvexti í Grímsey man ég hve ósérhlífin og harðdugleg hún var og gekk til útiverka jafnt sem heimilisstarfa inni. Hún hafði mikið yndi af kindunum, sérstaklega við sauðburðinn á vorin en þeim fylgdi líka mikil vinna árið um kring. Hún fór líka stundum í sjóróðra með Sæmundi fóstra mínum og undir bjarg til lundaveiða. Mamma var mjög áhugasöm um matargerð og bakstur og var sífellt að vinna að matföngum. Vann úr kjötinu sem kindurnar gáfu af sér, flakaði fisk, sat og plokkaði lunda dögum saman og útbjó í reyk eða frost, skar grásleppu til að hengja upp og rauðmaga í reyk. Oft var gestkvæmt í Grenivík og hún sá til þess að alltaf var nóg heimabakað og smurt með kaffinu.

Mamma ól okkur krakkana þannig upp að verk væru ekkert sérstaklega kynjaskipt án þess að hún nefndi það beint. Lét okkur bræðurna t.d. vaska upp, sópa gólf, ryksuga og skúra sem drengjum var sums staðar hlíft við á þeim tíma. Ég áttaði mig á því löngu seinna að jafnréttisuppeldi hennar mótaði mín eigin viðhorf.

Eftir að mamma flutti í Fljótin átti hún góðan tíma þar í sveitinni en þau voru með fjárbúskap, hænur og hunda. Hún var alltaf svo mikill dýravinur og það var gaman að heimsækja hana og sjá að henni leið vel þar.

Mamma glímdi við erfitt þunglyndi á köflum í lífi sínu. Á árum áður var almennt lítill skilningur á andlegum veikindum og hún hafði oft orð á því að heldur vildi hún vera brotin á útlimum en að þurfa að þjást af sjúkdómi sem ekki sést á manni utan frá. Síðustu áratugina var hún þó að mestu laus við sjúkdóminn vegna betri lyfja.

Í fyrrasumar fórum við Halldóra systir og Sæmundur Alexander sonur hennar með mömmu út í Grímsey þar sem hún bjó í 36 ár en hafði ekki heimsótt í 20 ár eða síðan hún flutti þaðan. Henni þótti alltaf mjög vænt um eyjuna og var stolt af því að hafa átt þar heima. Í heimsókn okkar fórum við með henni um alla eyjuna, heim að Grenivík, í kirkjugarðinn og kirkjuna fallegu. Hún var himinlifandi með ferðina og talaði oft um það síðan hve gaman það hefði verið að komast þangað aftur. Þær dýrmætu minningar bætast við allar hinar um merkilega konu og elskulega móður.

Erlendur Hilmar Geirdal.