Á Boðnarmiði skrifar Anton Helgi Jónsson við mynd af sér og Jónasi Hallgrímssyni: „Ég veit ekki hvað er hægt að segja um úrslit kosninganna en við Jónas gerðum það gott hér á Akureyri í gær.

Á Boðnarmiði skrifar Anton Helgi Jónsson við mynd af sér og Jónasi Hallgrímssyni:

„Ég veit ekki hvað er hægt að segja um úrslit kosninganna en við Jónas gerðum það gott hér á Akureyri í gær. Dagskráin „Jónas á tímum loftslagsbreytinga“ fór ákaflega vel í fólk og nú er ákveðið að næst verður hún flutt á Norðurbakkanum í Hafnarfirði 16. nóvember. Þegar ég rölti út í morgun fannst mér eins og Jónas stæði heilshugar með mér í þeirri ákvörðun en ég gleymdi að spyrja hvernig honum litist á úrslit kosninganna. Einhver fugl, samt ekki þröstur, hvíslaði hins vegar að mér þessari limru“:

Þótt hvatt sé til kosningadáða

og kíkt sé á lífsskoðun tjáða

þarf fólk samt að skilja

þann forsjónarvilja

að framsóknarmennirnir ráða.

Magnús Halldórsson skrifaði árla á sunnudagsmorgun: „Samkvæmt könnun MMR er það stuðningsfólk Flokks fólksins sem stundar mest að „snúsa“, þegar horft er til stjórnmálaskoðana Íslendinga“:

Mundi sár og merin reið,

nú mega snúsa.

Frá þeim burtu fylgið skreið,

til föðurhúsa

Ármann Þorgrímsson við morgunverðarborðið daginn eftir kosningar:

Hér ég sit með hönd við kinn

hugsa um framtíð dapur

er nú fluga orðinn minn

eini félagsskapur.

Stefán Már Halldórsson orti á sunnudag:

Alþýðubarátta' er ekkert grín,

og óvíst hvort bættur sé skaðinn.

Byltingin étur börnin sín

og B-listinn kominn í staðinn!

Skúli Pálsson yrkir og kallar „Gosbrunnur“:

Braghenda er brunni lík hvar buna flýgur,

lóðrétt upp í loftið stígur,

lokahending niður hnígur.

„Þjóðarsálin“ er limra eftir Helga Ingólfsson:

Hennar telst heiðarleg fæðing,

til höfðingja kaus hún sér fræðing.

Hún átti sér glóð.

Svo greip mína þjóð

fádæma fávitavæðing.

Enn yrkir Helgi:

Bjartur og breiðleitur hnokki

brosir nú hreykinn á stokki.

Í fjósið hjá þeim

fylgið kom heim,

baulur úr Framsóknarflokki.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is