Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Birgir Jónsson, forstjóri Play. — Morgunblaðið/Eggert
Play auglýsir í dag störf fyrir um hundrað flugliða og í næstu viku verða störf auglýst fyrir 50 flugmenn hjá félaginu. Tilefnið er að Play mun taka þrjár nýjar farþegaþotur í notkun í vor en flugfélagið er nú með þrjár þotur í rekstri.

Play auglýsir í dag störf fyrir um hundrað flugliða og í næstu viku verða störf auglýst fyrir 50 flugmenn hjá félaginu. Tilefnið er að Play mun taka þrjár nýjar farþegaþotur í notkun í vor en flugfélagið er nú með þrjár þotur í rekstri.

Með þessu ríflega tvöfaldast fjöldi starfsmanna hjá Play en milli 130 og 140 manns starfa nú hjá félaginu.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir svo áformað að bæta við fjórum þotum árið 2023 en að jafnaði séu 50 ráðnir á hverja þotu.

Hagstætt leiguverð

Spurður um stöðuna á markaði segir Birgir útlit fyrir að nokkur flugfélög muni hætta rekstri á næstunni sem hafi verið haldið gangandi með ríkisstyrkjum. Það muni aftur skapa tækifæri fyrir önnur félög, þar með talið Play.

Þá hafi fall í eftirspurn, í kjölfar kórónuveirufaraldursins, haft í för með sér að leiguverð á þotum sé 25-30% hagstæðara en Play gerði ráð fyrir í áætlunum sínum.

Play hóf áætlunarflug með flugi til London 24. júní. Næst kom Tenerife 29. júní og í júlí bættust við Berlín, Alicante, París, Barcelona og Kaupmannahöfn. Flug til Amsterdam hefst svo 3. desember.

Hefja flug til Bandaríkjanna

Birgir segir að með nýju þotunum þremur verði hægt að hefja flug til Bandaríkjanna og þétta netið í Evrópu. Greint verði frá þeim áfangastöðum síðar með haustinu.

Birgir segir góða stígandi í bókunum. Til dæmis líti október mjög vel út. Aðstæður hafi verið krefjandi í sumar vegna faraldursins. Fjárfestar í félaginu horfi hins vegar til lengri tíma en horfur í rekstrinum séu bjartar. baldura@mbl.is