Sýnataka úr sjó Til mikils er að vinna að koma á sem bestri hreinsun skólps en því getur fylgt verulegur kostnaður við fráveituframkvæmdir.
Sýnataka úr sjó Til mikils er að vinna að koma á sem bestri hreinsun skólps en því getur fylgt verulegur kostnaður við fráveituframkvæmdir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Fyrirhuguð reglugerð umhverfis- og auðlindaráðherra um fráveitur og skólp, mun að öllu óbreyttu hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir sveitarfélög og fráveitur landsins, sem gæti jafnvel hlaupið á tugum milljarða kr. Forsvarsmenn sveitarfélaganna eru bersýnilega áhyggjufullir.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fyrirhuguð reglugerð umhverfis- og auðlindaráðherra um fráveitur og skólp, mun að öllu óbreyttu hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir sveitarfélög og fráveitur landsins, sem gæti jafnvel hlaupið á tugum milljarða kr. Forsvarsmenn sveitarfélaganna eru bersýnilega áhyggjufullir.

Rætt var um stöðu málsins á stjórnarfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) síðastliðinn föstudag. Í samþykkt stjórnarinnar segir að fyrirliggjandi gögn leiði í ljós „[...] að þær auknu kröfur sem reglugerðin leggur á sveitarfélög geti orðið á bilinu 20 til 25 milljarðar króna. Umhverfislegur ávinningur af kröfu um aukna hreinsun frárennslis er hins vegar óljós.“

Fram kemur í fundargerð stjórnarinnar að viðræður hafa farið fram milli sveitarfélaganna og umhverfisráðuneytisins vegna reglugerðardraganna og þau samskipti verið afar málefnaleg. Nú liggi fyrir sú niðurstaða að reglugerðin verði ekki sett án frekara samráðs við sambandið. Lýsir stjórnin fullum vilja til að vinna áfram að málinu með ráðuneytinu en vill að stofnaður verði samráðshópur með fleiri ráðuneytum og aðilum sem móti raunhæfar tillögur um hvernig hraða megi uppbyggingu fráveitna.

Tveggja þrepa hreinsun

Meginregla nýju draganna er sú að hreinsa skuli skólp með tveggja þrepa hreinsun nema kveðið sé á um annað. Málið á sér nokkurra ára aðdraganda. Sveitarstjórnarmenn líta svo á að með nýju drögunum séu settar fram reglur sem séu mikið breyttar og mun meira íþyngjandi fyrir sveitarfélög en drög sem fyrst voru kynnt árið 2018.

„Liggur sá munur fyrst og fremst í kröfum um aukna hreinsun frárennslis, sem kallar á umfangsmiklar fjárfestingar og stóraukinn rekstrarkostnað fráveitna, m.a. við meðhöndlun og förgun seyru,“ segir í bréfi sem Karl Björnsson framkvæmdasjóri SÍS sendi Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, 9. september sl. Segir Karl að fyrirhuguð reglugerð muni hafa mikil áhrif á framkvæmdir við fráveitur, skipulag þeirra, hönnun og framkvæmdakostnað og líkur séu á að þær muni leiða til aukinnar skuldsetningar veitna og sveitarfélaga og hærri þjónustugjalda til að fjármagna lántöku. Umhverfislegur ávinningur nýrrar reglugerðar sé hins vegar mjög takmarkaður, þar sem flestir þéttbýlisstaðir á Íslandi séu staðsettir við viðtaka þar sem ekki sé hætta á ofauðgun af völdum næringarefna úr frárennsli.

„Gera má ráð fyrir að sá kostnaður sem fyrirhuguð reglugerðardrög hafi í för með sér hlaupi á tugum milljarða króna, sem felur í sér miklar álögur á íbúa sveitarfélaganna án þess að sýnt sé fram á umhverfislegan ávinning af slíkum fjárfestingum, eins og áður er fram komið. Vert er að undirstrika að slíkri útgjaldaaukningu mun verða harðlega mótmælt af sveitarstjórnum enda hafa sveitarfélög orðið fyrir bæði tekjufalli og útgjaldaaukningu vegna Covid-19 heimsfaraldursins,“ segir í bréfinu.

SÍS sendi ráðuneytinu minnisblað 15. september þar sem m.a. er bent á að sambandið og Samorka hafi lagt mikla áherslu á að ekki verði gengið lengra í innleiðingu fráveitutilskipunar ESB en þörf sé á. Liggja þurfi skýrt fyrir hvert svigrúmið er við innleiðingu hér á landi.

36% hækkun á heimili

Fram kemur á minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga um kostnaðarmat umhverfisráðuneytisins á reglugerðinni, að vinnuhópur hafi komist að raun um að heildarkostnaður við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga næstu tíu árin gæti orðið á bilinu 27,5 til 39,5 milljarðar. Framlag ríkisins til fráveitustyrkja muni þurfa að hækka til að standa undir u.þ.b. 20% kostnaði við fráveituframkvæmdir.

Þann kostnað sem eftir situr geti sveitarfélög fjármagnað í gegnum fráveitugjöld og er áætlað að hækka þurfi fráveitugjöld að jafnaði um 20 þús.kr. á ári á hvert meðalheimili eða um 36% að jafnaði. SÍS hafi ítrekað bent á að svo mikil hækkun gjaldskrár muni mælast illa fyrir. Megi vænta þess að í kjaraviðræðum verði þvert á móti lögð áhersla á að þjónustugjöld ríkis og sveitarfélaga leiði ekki til verðbólguskots.