Harpa segir að sífellt fleiri líti á það sem hluta af lífsgæðum að fólk geti valið hvernig það ráðstafar tíma sínum.
Harpa segir að sífellt fleiri líti á það sem hluta af lífsgæðum að fólk geti valið hvernig það ráðstafar tíma sínum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Hoobla er nýr valkostur þegar kemur að verkefnabundnum ráðningum á Íslandi. Um er að ræða klasasamfélag þar sem sjálfstætt starfandi fólk býður fram þjónustu sína til fyrirtækja og stofnana.

Viðhorf til hliðarstarfa og þess að ráða sig í tímabundin verkefni hefur verið að breytast ört síðustu misseri að sögn Hörpu Magnúsdóttur eiganda Hoobla. Þessa breytta viðhorfs gætir einkum hjá ungu fólki en einnig hjá eldri aldurshópum, að sögn Hörpu. Meðal þess sem hafi haft áhrif sé breytt vinnulag vegna faraldursins.

„Ungt fólk í dag vill ekkert endilega vera niðurneglt á einum stað. Það vill geta tekið að sér ólík verkefni fyrir fleiri en einn aðila, til dæmis ef það býr yfir sérfræðiþekkingu á ákveðnu sviði eða hefur sérstakan áhuga á einhverjum málefnum,“ segir Harpa í samtali við ViðskiptaMoggann.

Þrjátíu sérfræðingar

Um þrjátíu ólíkir sérfræðingar eru nú þegar á skrá hjá Hoobla, allt frá stjórnendum og ráðgjöfum upp í fyrirlesara og markþjálfa.

Samkvæmt samantekt Finance Online er hlutfall þeirra sem stunda einhver hliðarstörf, eða gigg, eins og það er kallað, hátt í mörgum löndum. Í Bandaríkjunum er hlutfallið til dæmis 46% og í Bretlandi 45%.

„Þó að sum fyrirtæki líti aukastörf starfsfólks hornauga held ég að sífellt fleiri vinnustaðir séu farnir að átta sig á að það er hluti af lífsgæðum fólks að geta valið hvernig það ráðstafar tíma sínum. Sífellt fleiri treysta starfsfólki sínu til að velja og meta hvað er eðlilegt að gera utan vinnutímans.“

Harpa segir til dæmis ekki óalgengt að stjórnendur í fyrirtækjum séu vinsælir sem fyrirlesarar og kennarar.

„Svona hliðarstörf og gigg gefa fólki kost á að blómstra á öðrum vettvangi. Það ávinnur sér með þessu aukið traust á vinnumarkaði, meiri sýnileika og verður þekktara sem „vörumerki“.“

Ráðningarfyrirtæki

Hoobla nýtist einnig sem eins konar ráðningarfyrirtæki fyrir tímabundna starfskrafta. „Fyrirtæki geta með því að nota Hoobla sleppt því að ráða manneskju í fast starf í skilgreind verkefni, en fengið í staðinn sérfræðing í gegnum Hoobla til að leysa málið. Hann fer svo út úr fyrirtækinu þegar verkefninu lýkur, nema fyrirtækið vilji endilega ráða hann í fullt starf og hann hafi áhuga á því sjálfur.“

Harpa, sem vann um árabil sem mannauðsstjóri Orf líftækni, segir að sér hafi fundist vanta vettvang eins og Hoobla. Það hafi verið hvatinn að stofnuninni.

Hún segir að margt bendi til þess að í framtíðinni, eftir 10-20 ár, verði meirihluti fólks í hinum vestræna heimi farinn að vinna hjá sjálfum sér.

Harpa segir að fólk innan Hoobla geti myndað teymi sem svo aftur er hægt að bjóða til þjónustu hjá fyrirtækjum og stofnunum í tímabundin verkefni. „Á skrá hjá Hoobla er til dæmis lítið ráðningarfyrirtæki sem fær í gegnum klasann aukinn sýnileika og fleiri möguleika. Þú tapar ekki á því að vera á skrá hjá Hoobla þótt þú sért líka með sjálfstætt fyrirtæki,“ segir Harpa og brosir.

Hoobla er einnig eins konar fræðsluvettvangur fyrir þá sem þar eru á skrá. Harpa sér fyrir sér að bjóða upp á námskeið í tímastjórnun, bókhaldi og öðru er nýtist giggurum. Einnig er innifalinn markaðslegur stuðningur. „Ef þú hefur verið lengi í föstu starfi einhvers staðar en ert nú alfarið farinn að vinna hjá sjálfum þér kanntu kannski ekkert á svona hluti.“

Hlaðvarp til kynningar

Einnig rekur Harpa sérstakt hlaðvarp þar sem hún kynnir starfsemina og þá aðila sem eru á skrá hjá henni.

Allir þeir sem eru hluti af Hoobla eru sérvaldir þar inn. „Ég vil passa upp á gæðin í hópnum og tek ítarlegt viðtal við alla sem sækja um. Ég vil geta sagt með þokkalega góðri samvisku að ég sé með toppsérfræðinga á skrá. Það skiptir líka máli fyrir aðra í hópnum að það sé vel valið í hópinn,“ segir Harpa að lokum.

Nafnið stendur fyrir gleði

Harpa vildi að nafn fyrirtækisins yrði alþjóðlegt og ekki of fyrirtækjalegt. Léttleiki átti að einkenna það og það átti að endurspegla gleði, fagmennsku og kraft. „Nöfn með tveimur o-um þykja vænleg til árangurs á netinu, eins og Google,“ segir Harpa og að lokum varð Hoobla fyrir valinu. „Hoobla þýðir á einhverju slangurmáli að vera mjög glaður.“