Á Ásvöllum Rut Jónsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir voru áberandi í leiknum gegn Slóveníu í apríl.
Á Ásvöllum Rut Jónsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir voru áberandi í leiknum gegn Slóveníu í apríl. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Arnar Pétursson og aðstoðarþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson hafa gert þriggja ára samning við Handknattleikssamband Íslands um að stýra áfram kvennalandsliðinu. Frá þessu var greint á blaðamannafundi í gær og þá var einnig tilkynnt hvaða leikmenn mæta Svíþjóð og Serbíu í næsta mánuði. Arnar segist í samtali við Morgunblaðið vilja sjá liðið ná meiri árangri en síðustu ár. Til að svo megi verða þurfi markvissa vinnu næstu árin.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Arnar Pétursson og aðstoðarþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson hafa gert þriggja ára samning við Handknattleikssamband Íslands um að stýra áfram kvennalandsliðinu. Frá þessu var greint á blaðamannafundi í gær og þá var einnig tilkynnt hvaða leikmenn mæta Svíþjóð og Serbíu í næsta mánuði. Arnar segist í samtali við Morgunblaðið vilja sjá liðið ná meiri árangri en síðustu ár. Til að svo megi verða þurfi markvissa vinnu næstu árin.

„Langtímamarkmiðin eru að eftir þrjú til fjögur ár muni íslenska kvennalandsliðið gera alvöru atlögu að því að komast inn á stórmót. Ég vil sjá okkur taka stórstígum framförum og við séum í barátttunni um að komast inn á öll stórmót eftir þennan tíma. Ég á mér að minnsta kosti þann draum að sjá liðið komast á stórmót og það er mitt markmið. Til skemmri tíma litið vil ég sjá okkur taka framförum í hverju verkefni fyrir sig. Byggt sé ofan á það sem gert var síðast þegar liðið kom saman og við séum að eflast sem lið. Hvort sem það sé innan vallar eða utan, eða í vörn eða sókn. Þannig tel ég vænlegast að nálgast þetta,“ segir Arnar.

Er þessi munur eðlilegur?

Sú spurning hefur leitað á Arnar hvort eðlilegt sé að jafn mikill munur sé á árangri karlalandsliðsins í handknattleik og kvennalandsliðsins. Fyrst litið sé á Ísland sem handboltaþjóð þá eigi kvennalandsliðið að geta náð meiri árangri. Munurinn á árangri liðanna þurfi ekki að vera svona mikill. Hann segist í það minnsta vera tilbúinn til að leita svara við þessari spurningu.

„Ég hef bent á að það er einhver skekkja í því að karlalandsliðið skuli vera á leið á sitt tuttugasta og fimmta stórmót frá aldamótum á meðan konurnar hafa farið á þrjú. Tíu ár eru liðin síðan það gerðist síðast. Við þurfum alla vega að svara því af hverju þetta er og eigum við ekki að sætta okkur við það.

Ég held að einnig sé nauðsynlegt að átta okkur á hvar við stöndum ef við ætlum að taka skrefin fram á við. Í dag erum við bara töluvert á eftir tuttugu bestu landsliðum heims og við höfum ekki nálgast þau á undanförnum árum. Til að breyta því er nauðsynlegt að átta sig á því hver staðan er. Við sem hreyfing munum vonandi taka þau nauðsynlegu skref sem þarf til að breyta hlutunum og gera það í sameiningu.“

Hefur Arnar fundið fyrir meðbyr í hreyfingunni þegar hann hefur viðrað þessar skoðanir sínar?

„Já já, en auðvitað þarf maður að fara varlega þegar maður talar um þessa hluti. Á Íslandi er fullt af þjálfurum og fullt af liðum sem eru að gera góði hluti. Ég er einfaldlega að benda á að staðan er a.m.k. ekki í samræmi við mínar væntingar og að við sem hreyfing getum gert betur.“

Nefndin skilar í nóvember

Á síðasta ársþingi HSÍ var samþykkt að fela stjórn HSÍ að skipa nefnd til að móta stefnu til framtíðar fyrir handbolta kvenna hérlendis. Fram kom hjá Guðmundi B. Ólafssyni, formanni HSÍ, í gær að útlit sé fyrir að nefndin skili af sér í nóvember. Bindur Arnar vonir við vinnu þessarar nefndar?

„Ég geri það já og mér fannst jákvætt hjá HSÍ að fara þessa leið. Ég á ekki von á öðru en að nefndin skoði einfaldlega hvernig staðan er og komi með hugmyndir um hvernig hægt sé að gera betur. Ég held að þetta sé gæfuspor.“

Í gær var einnig tilkynnt að HSÍ hafi komið á fót B-landsliði til að styrkja frekar umhverfi kvennalandsliðsins. „Mér finnst skipta mjög miklu máli að ná snertifleti við fleiri leikmenn en við höfum verið með. Í komandi verkefni vantar til dæmis nokkra leikmenn. Við slíkar aðstæður höfum við fundið aðeins fyrir því að við fáum inn leikmenn sem langt er síðan voru í yngri landsliðum eða hafa ekki verið í landsliðum. Með B-landsliði getum við búið til snertiflöt við fleiri leikmenn. Þá er hægt að fara í gegnum það með þeim hvernig landsliðið vill spila og hverjar áherslurnar eru í leik liðsins. Þegar kallið kemur frá okkur varðandi A-landsliðið þá eru leikmenn með á hreinu til hvers er ætlast af þeim. Í stað þess að hafa unnið með tuttugu til tuttugu og fimm leikmenn þá verður sá hópur fjörutíu til fjörutíu og fimm leikmenn. Sem er allt annað og betra. Stundum þarf að gera breytingar og tilkoma B-landsliðsins ætti að auðvelda það.

Umhverfið hefur verið þannig að þegar keppni með 18 ára landsliðinu lýkur þá hefur afskaplega lítið tekið við hvað varðar landsliðsverkefni. Nú geta efnilegir leikmenn komið inn í B-liðið og tekið þátt í landsliðsverkefnum þar,“ segir Arnar og með auknu umfangi hefur tveimur þrautreyndum fyrrverandi landsliðskonum verið bætt við þjálfarateymið. Tilkynnt var í gær að Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Skúladóttir muni koma inn í þjálfarateymi landsliðsins ásamt Arnari og Ágústi.

„Þær hafa reynslu af stórmótum. Þær eru miklir sigurvegarar þessar stelpur. Þær lögðu mikið á sig fyrir íþróttina og eru til fyrirmyndar að öllu leyti. Við erum því að fá sterkar persónur inn í teymið með okkur.“

Mæta einu besta liði heims

Fram undan eru leikir gegn Svíum ytra og Serbum hér heima 7. og 10. október í undankeppni EM 2022. Svíar léku um verðlaun á Ólympíuleikunum í Tókýó.

„Við munum mæta Svíum úti en þær voru frábærar á Ólympíuleikunum í sumar. Ég hef horft á leiki Svía á leikunum og þetta er eitt af betri landsliðum heims í dag. Það verður spennandi að mæta þeim og bera okkur saman við sænska liðið. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við erum að mæta liði sem er töluvert sterkara en við. Í þeim leik viljum við sjá framfarir í okkar leik. Við viljum sjá leikmenn fara eftir skipulagi og styrkja þann grunn sem við höfum verið að vinna í. Ofan á það verður svo hægt að byggja í framhaldinu. Það á í raun við um báða leikina. Á meðan sænska liðið er líklega á meðal sex bestu liða í heimi þá er serbneska liðið á meðal fimmtán til átján bestu liðanna. Serbía á frábæra leikmenn. Við þurfum að nálgast það verkefni með svipuðum hætti en við verðum reyndar á heimavelli sem er alltaf betra. Eftir þetta verkefni myndum við vilja sjá liðið vera komið aðeins lengra og að grunnurinn verði traustari,“ segir Arnar Pétursson.

• Í fréttum á mbl.is/sport/handbolti má sjá landsliðshópana fyrir A-landsliðið og B-landsliðið.