Vigdís myndi vilja láta gera úttekt á því hvar Ísland hefur farið út af sporinu með því að gullhúða reglugerðir EES.
Vigdís myndi vilja láta gera úttekt á því hvar Ísland hefur farið út af sporinu með því að gullhúða reglugerðir EES. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Ferskir vindar blása um Bændasamtök Íslands með komu Vigdísar Häsler og verður gaman að sjá hvert hún mun leiða samtökin. Íslenskur landbúnaður á mikið inni og greinin tilbúin að vaxa og dafna. Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi...

Ferskir vindar blása um Bændasamtök Íslands með komu Vigdísar Häsler og verður gaman að sjá hvert hún mun leiða samtökin. Íslenskur landbúnaður á mikið inni og greinin tilbúin að vaxa og dafna.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Á Búnaðarþingi 2021 var samþykkt að breyta félagskerfi landbúnaðarins í því augnamiði að efla Bændasamtökin og tryggja enn frekari tengsl félagsmanna við neytendur og stjórnvöld. Fyrsta skrefið í þeim breytingum snýr að sameiningu Bændasamtakanna við þau búgreinafélög sem átt hafa aðild að samtökunum. Búgreinafélögin voru tólf talsins og þar á meðal voru t.a.m. Félag kjúklingabænda, Landssamtök kúabænda, Landssamtök skógareigenda, Geitfjárræktarfélag Íslands og þar fram eftir götunum. Þau höfðu hingað til innheimt sín félagsgjöld hvert fyrir sig og upphæðir þeirra og þjónusta gagnvart félagsmönnum var mjög ólík. Okkur er mikið í mun að fá fleiri félagsmenn sem starfa í frumframleiðslu þar sem Bændasamtökin halda á umboði gagnvart stjórnvöldum við gerð 14 milljarða kr. búvörusamninga og við erum vonandi að sjá til lands með gerð sérstakrar landbúnaðarstefnu með nýrri ríkisstjórn.

Þetta er verkefni, sem felst í sameiningu margra ólíkra hópa, gerist ekki á einni nóttu, viku eða þremur mánuðum. Þetta er ógnarstórt verkefni og þeir sem komið hafa að breytingarstjórnun átta sig á því að það tekur tíma þegar farið er af stað í svona umfangsmiklar breytingar þá dugar ekki að skipta um höfuð á búknum, eftir lifa gamlir tímar og úrelt menning í húðveggjunum sem kallar á breytta nálgun og annað sjónarhorn. Við erum hagsmunasamtök undirstöðuatvinnugreinar á Íslandi og til þess að við náum að efla samtökin þarf að fá fólkið með í lið og þá er ég ekki eingöngu að tala um starfsfólk Bændasamtakanna, það eru núverandi og nýir félagsmenn sem við þurfum að fá um borð inn í nýja tíma. Hvernig ætlum við að ræða um framtíðarsýn íslensks landbúnaðar ef við tölum ekki fyrir heildina?

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ég sótti mataræðisráðstefnu í Hörpu, The future of food. Fín ráðstefna svo sem og margir áhugaverðir örfyrirlestrar en landbúnaðurinn var lítið ræddur en það eru svo sem sóknarfæri í að breyta því, þ.e. gera okkur sýnilegri og leiðandi í umræðu um atvinnugreinina. Á það hefur skort síðustu ár að mínu mati.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ævisaga Margaret Thatcher eftir Charles Moore. Uppáhaldsbókin mín er samt Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson.

Hvernig heldurðu

þekkingu þinni við?

Síðustu ár hef ég sótt talsvert af námskeiðum í endurmenntun, m.a. á sviði samningaréttar og vinnuréttar. Það reynist öllum hollt að sækja slík námskeið. En ég bý einnig að því að hafa óbilandi áhuga á Alþingi, er stundum með kveikt á alþingisrásinni ef spennandi umræður um þingmál eru í gangi. Það leynist nefnilega ágæt lögfræði þar á stundum, þ.e. í málunum sjálfum, og svo er ég heppin að eiga góðar vinkonur og vini sem starfa í lögmennsku og hægt er að slá á þráðinn til og „hugsa upphátt með“ og fá líka að heyra hvað er helst að gerast á þeirra vettvangi.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég myndi fara í eitthvað verklegt, taka meirapróf og sinna snjóruðningi og hálkueyðingu á flugbrautum. En að öllu gamni slepptu myndi ég ábyggilega taka sjúkraflutningaskólann.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég myndi fá ráðherra landbúnaðarmála til þess að leggja fram lagafrumvarp um stefnumarkandi áætlanir á sviði matvæla og landbúnaðar. Á hverju kjörtímabili yrðu þannig lagðar fram uppfærðar tillögur til þingsályktana um matvælastefnu og landbúnaðarstefnu, sem myndu gilda til næstu 15 ára og síðan yrðu tilgreindar sérstaklega þær aðgerðir sem ráðast ætti í á fyrstu fimm árum gildistíma þar sem gerð yrði grein fyrir fjárveitingum og útgjöldum aðgerða. Samhliða yrði farið í áframhaldandi vinnu við einföldun á regluverkinu og gerð úttekt á því hvar þessi 360 þús. manna þjóð hefur farið út af sporinu með því að gullhúða reglugerðir frá Evrópu. Síðustu ár hefur okkur nefnilega tekist að innleiða auknari kröfur á okkar litla samfélag en gerð er krafa um í gegnum EES-samninginn. Út frá þeirri vinnu væri síðan hægt að fara í breytingar á lögum til að einfalda regluumhverfið sem við búum við. Einhverjir ráðherrar hafa farið í slíka vinnu en núna er kannski tími til kominn að næsta ríkisstjórn leggi af stað í þessa vegferð – saman.

Hin hliðin

Nám: Stúdentspróf frá FÁ 2002; lýk lögfræðinámi frá HA 2008; LLM frá University of Sussex 2013.

Störf: Lögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka 2008 til 2015; lögmaður hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga 2015 til 2017 og 2018-2020; aðstoðarmaður ráðherra hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu 2017; aðstoðarmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins 2020 til 2021; framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands frá febrúar 2021.

Áhugamál: Golf. Ferðalög þykja mér leiðinleg, þá aðallega ferðalagið á áfangastað því ég þoli ekki flugvelli. Síðan þykir mér afskaplega gaman að tala um mat og borða mat. Hér áður fyrr þótti mér gaman að elda matinn líka en það hefur dregið úr þeirri nautn síðustu ár.

Fjölskylduhagir: Gift Gerald Häsler, viðskiptastjóra hjá Landsbankanum, og eigum við tvær stelpur, Alice Emilíu og Kamillu Marín.