— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aukin notkun nýskapandi lausna hjá hinu opinbera er eitt mikilvægasta verkefnið sem stjórnvöld þurfa að tryggja alvöruframgang og þar eigum við mikið verk óunnið.

Niðurstöður alþingiskosninganna um liðna helgi voru nokkuð afgerandi. Ríkisstjórnarflokkarnir bættu samtals við sig frá síðustu kosningum, bæði fylgi og þingsætum, sem er vel af sér vikið eftir fjögurra ára stjórnarsetu. Þrjátíu og sjö þingsæti eru sterkur og afgerandi meirihluti. Eðlilega er áframhaldandi samtarf fyrsti valkostur flokkanna þriggja, þótt ekkert sé fyrirfram gefið í þeim efnum.

Engin skýr krafa um nýjan kúrs

Mikill fjöldi smáflokka gerir að verkum að óljósara verður um hvað er kosið. Kosningarnar verða af þeim sökum óþægilega mikið í ætt við konfektkassann fræga úr myndinni um Forrest Gump: „Þú veist aldrei hvað þú færð.“

Helstu átakafletir samfélagsins eru ekki þess eðlis að það þurfi níu eða tíu stjórnmálaflokka til að endurspegla valkostina sem kjósendur standa frammi fyrir.

Mögulega verða úrslit þessara kosninga til þess að kjósendur velji síður að verja atkvæði sínu á minni flokka. Kannski má segja að við séum ennþá að læra á breytingarnar sem urðu við fækkun og stækkun kjördæma, sem auðvelda minni flokkum að ná þingsæti. Nýjar hefðir eða viðmið gætu skapast eftir því sem nýr veruleiki blasir skýrar við, annaðhvort breytt kosningahegðun eða aukin tilhneiging hjá flokkum til að mynda bandalög fyrir kosningar eins og dæmi eru um frá nágrannalöndunum.

En þrátt fyrir að ekki hafi verið augljóst hvert var helsta kosningamálið að þessu sinni snúast allar kosningar óhjákvæmilega að mjög miklu leyti um verk fráfarandi ríkisstjórnar. Hvort halda eigi áfram á sömu braut eða víkja af henni og skipta um kúrs. Frá þeim sjónarhóli eru úrslitin mjög skýr.

Eins og Óli Björn Kárason hefur bent á fékk enginn stjórnarandstöðuflokkur 10% atkvæða. Þótt hver og einn kjósandi sendi sín eigin skilaboð, sem aldrei má gera lítið úr, er ekki hægt að segja að á heildina litið séu úrslitin til marks um að til staðar hafi verið skýr og öflugur valkostur við núverandi ríkisstjórnarsamstarf. Þvert á móti. Og ríkisstjórnarflokkarnir eru þrír stærstu flokkarnir að loknum kosningum.

Sjálf er ég þakklát öllum þeim tugþúsundum sem tryggðu Sjálfstæðisflokknum góða kosningu með atkvæði sínu – og margir einnig með kröftugu sjálfboðaliðastarfi í þágu okkar góðu grunngilda og stefnu.

Nýsköpun verði hluti af erfðaefni hins opinbera

Fjögur ár eru skammur tími til að breyta samfélagi. Samt kom fráfarandi ríkisstjórn mörgum mikilvægum grundvallarbreytingum í gegn, eins og ég rakti hér á þessum vettvangi fyrir kosningar. Ég vona að við taki ríkisstjórn sem gefur okkur tækifæri til að halda ýmsum af þeim málum áfram í góðum farvegi.

Einna mikilvægast tel ég að haldið verði áfram að innleiða áherslur og aðgerðir nýsköpunarstefnunnar sem mótuð var á síðasta kjörtímabili. Stórum hluta hennar hefur þegar verið hrundið í framkvæmd en margt er enn ógert.

Aukin notkun nýskapandi lausna hjá hinu opinbera er eitt mikilvægasta verkefnið sem stjórnvöld þurfa að tryggja alvöru framgang og þar eigum við mikið verk óunnið. Opinberir aðilar þurfa að vinna miklu betur með nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum í því að hanna og þróa lausnir sem geta leyst viðfangsefni hins opinbera á betri og hagkvæmari hátt. Margar af þessum lausnum eru þegar til, en tregða hefur verið til að nýta þær. Gildandi heimildir til nýsköpunar í lögum um opinber innkaup eru t.d. nær alveg ónýttar og því þarf að breyta. Við getum lært ýmislegt af nágrannalöndum okkar í þessum efnum – og það er ekki í boði að sitja eftir hvað þetta varðar. Notendur eiga skilið bestu mögulegu þjónustu, skattgreiðendur eiga skilið bestu mögulegu meðferð fjármuna, og ríkissjóður stendur frammi fyrir viðvarandi vexti í opinberum útgjöldum sem þarf að leita allra leiða til að hemja án þess að skerða þjónustuna. Til að svo geti orðið þarf nýsköpun að verða hluti af erfðaefni hins opinbera; gleraugu sem horft er á öll mál í gegnum, hvert og eitt einasta.

Þegar öllu er á botninn hvolft er fátt sem skila myndi almenningi í þessu landi meiri ávinningi.