[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Jóhannesson fæddist 2. október 1931 á Akureyri og ólst þar upp. Hann var í sveit nokkur sumur í Öxarfirði og Kelduhverfi. Hann tók gagnfræðapróf 1947 og sótti nám í Tónlistarskólanum á Akureyri.

Sigurður Jóhannesson fæddist 2. október 1931 á Akureyri og ólst þar upp. Hann var í sveit nokkur sumur í Öxarfirði og Kelduhverfi. Hann tók gagnfræðapróf 1947 og sótti nám í Tónlistarskólanum á Akureyri. Sigurður lék með Lúðrasveit Akureyrar um árabil og stjórnaði henni í eitt ár. Hann var í danshljómsveitum í nokkur ár, m.a. á Hótel KEA og Hótel Norðurlandi. Hann brautskráðist frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1953 og var við nám í Svíþjóð á árunum 1950-51 og 1966.

Sigurður var fulltrúi innkaupastjóra KEA á árunum 1953-68, framkvæmdastjóri Bifreiðaverkstæðisins Þórshamars hf. 1968-79 og aðalfulltrúi kaupfélagsstjóra KEA 1979-2001 er hann lét af störfum vegna aldurs.

Hann átti sæti um margra ára skeið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félaga, sem Kaupfélag Eyfirðinga átti aðild að. Hann var konsúll Danmerkur á Akureyri 1989-2001 og var veitt heiðursmerkið „Ridder af Dannebrogsordenen“ 1998.

Sigurður var bæjarfulltrúi og varabæjarfulltrúi á Akureyri fyrir Framsóknarflokkinn um 24 ára skeið, árin 1966-1990. Hann sat í bæjarráði 1983-90 og var forseti bæjarstjórnar í nokkur ár.

Einnig starfaði hann í ýmsum nefndum Akureyrarbæjar um lengri eða skemmri tíma, m.a. í stjórn rafveitunnar, hitaveitunnar, byggingarnefndar, skipulagsnefndar og veitustofnana bæjarins, auk þess sem hann sat í stjórn Fjórðungssjúkrahússins og Tónlistarskólans á Akureyri og var formaður stjórnar Tónlistarskólans um árabil. Hann var varaþingmaður. Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1963-67 og sat á Alþingi vorið 1965.

Þá sinnti hann ýmsum öðrum félagsmálum, m.a. trúnaðarstörfum innan frímúrarareglunnar um árabil.

„Við Laufey konan mín ferðuðumst stundum innanlands og til meginlands Evrópu. Bæði vegna vinnu og á eigin vegum. Ég er nokkuð frískur og síðan Laufey féll frá hef ég ferðast töluvert með afkomendum mínum. Hef verið svo heppinn að fá m.a. að upplifa það að sofa í hirðingjatjaldi í Sahara, sigla um síkið milli Atlantshafs og Miðjarðarhafs og róa á kajak vestur á fjörðum. Mestum tíma eyði ég sjálfsagt í sumarbústað fjölskyldunnar í Öxarfirði, sýsla þar einn eða með fólkinu mínu.

Það er nóg að gera þó aldurinn færist yfir. Ég geng daglega með bróður mínum Gunnari, spila bridge með félögum mínum, syng með kórnum „Í fínu formi“, auk þess sem ég hitti fyrrverandi andstæðinga mína í bæjarpólitíkinni á hverjum morgni, við drekkum saman kaffi og ræðum heimsmálin í bróðerni.

Covid-19 hefur auðvitað fækkað samverustundum með vinum og kunningjum síðustu misseri þó ég hafi ekki þurft að fara í sóttkví sjálfur. Ég var þó sendur í sóttkví sem barn og hef því upplifað það.“

Þegar Sigurður var 11 ára gamall sótti hann það fast snemma vors að fá að fara í sauðburð austur í Hafrafellstungu í Öxarfirði, en þar hafði hann verið í sveit áður. Hann fékk leyfi frá skólanum og foreldrunum og lagði af stað ásamt fleiri börnum með póstbátnum Ester, sem var að fara til Raufarhafnar. Þetta var snemma vors og ekki búið að moka Reykjaheiðina, sem á þeim tíma var eina leiðin með bílum til Norður-Þingeyjarsýslu.

Báturinn sigldi frá Akureyri, kom við í Hrísey, Ólafsfirði, Siglufirði og Þorgeirsfirði en gat ekki lagst að bryggju þar og var árabátur sendur frá landi til að taka við póstsendingum. Þaðan var siglt beint til Kópaskers þar sem krakkarnir, ýmis flutningur og pósturinn var skilinn eftir á bryggjunni og Ester sigldi svo áleiðis til Raufarhafnar.

Krakkarnir stóðu svo þarna á bryggjunni með koffortin sín þegar héraðslæknirinn kom og tilkynnti að þessi börn yrði að kyrrsetja, þau mættu ekki fara lengra. Á Akureyri væru mislingar og hann vildi ekki fá krakka þaðan í ósýkt héraðið. Börnin hímdu í hnapp með koffortin sín á bryggjunni meðan fundað var um vandamálið. Að lokum var haft samband við alla bæi sem krakkarnir áttu að fara til og fengið samþykki um að taka við þeim með því skilyrði að halda þeim frá öðrum bæjum í hálfan mánuð. Að því loknu kom vörubíll með háum skjólborðum og bakkaði út á bryggjuna. Börnunum var smalað upp á pall og keyrð hvert á sinn bæ og voru þar með öll lent í tveggja vikna sóttkví.

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar var Laufey Garðarsdóttir, f. 24.1. 1935, d. 23.10. 2012, húsmóðir og verslunarmaður. Hún var dóttir hjónanna Garðars Júlíussonar, f. 20.6. 1901, d. 20.2. 1986, verkamanns og sjómanns, og Sigurveigar Jónsdóttur, f. 15.9. 1901, d. 19.6. 1989, húsfreyju og organista, en þau bjuggu á Felli í Glerárþorpi.

Börn Sigurðar og Laufeyjar eru: 1) Sigríður, f. 11.10. 1955, bókasafns- og upplýsingafræðingur, og er sambýlismaður hennar Sveinn Helgi Sverrisson; 2) Laufey Sigurlaug, bókari og svæðanuddari, f. 26.11. 1958; 3) Sigurður Árni, f. 14.3. 1963, myndlistarmaður. Maki: Guðrún Hálfdanardóttir, blaðamaður/dagskrárgerðarmaður; 4) Elín Sigurveig, f. 5.6. 1970, framkvæmdastjóri. Maki: Hallgrímur Magnússon byggingartæknifræðingur. Barnabörn og barnabarnabörn eru 12 .

Bræður Sigurðar eru: Ari Jóhannesson, f. 26.6. 1926, d. 2010, póstrekstrarstjóri hjá Pósti og síma í Reykjavík. Maki: Anna Ragnheiður Einarsdóttir, skilin; Sverrir Jóhannesson, f. 11.7. 1928, d. 2009, yfirlæknir í Kungälv í Svíþjóð. Maki: Christina Gunilla Liewendahl, hjúkrunarfræðingur; Gunnar Haukur Jóhannesson, f. 4.6. 1944, verkfræðingur. Maki: Þóra Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur.

Foreldrar Sigurðar voru Jóhannes Jónsson, f. 7.12. 1890 í Hafrafellstungu í Öxarfirði, d. 11.2. 1972, kaupmaður á Akureyri, og Sigrún Sigvaldadóttir, f. 31.10. 1900 í Byrgi í Kelduhverfi, d. 24.1. 1975, húsfreyja.