Roger Hunt, miðherji Englands, og Vestur-Þjóðverjarnir Hans Tilkowski og Wolfgang Weber horfa á boltann hrökkva niður af þverslánni í úrslitaleik HM á Wembley 1966. Viðbrögð Hunts þóttu næg sönnun þess að hann hefði verið inni.
Roger Hunt, miðherji Englands, og Vestur-Þjóðverjarnir Hans Tilkowski og Wolfgang Weber horfa á boltann hrökkva niður af þverslánni í úrslitaleik HM á Wembley 1966. Viðbrögð Hunts þóttu næg sönnun þess að hann hefði verið inni. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tveir af marksæknustu sparkendum Englandssögunnar, Jimmy Greaves og Roger Hunt, féllu frá í nýliðnum mánuði, báðir rúmlega áttræðir. Þeir byrjuðu sem miðherjapar Englands á HM 1966 en aðeins annar endaði með medalíu um hálsinn. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Ein frægasta ljósmynd sparksögunnar er af vesturþýska markverðinum Hans Tilkowski að horfa á eftir knettinum hrökkva niður af þverslánni eftir skot Geoffs Hursts í framlengingu úrslitaleiksins gegn Englendingum á Wembley-leikvanginum í Lundúnum 30. júlí 1966. Allir vita hvað gerðist næst, knöttinn bar eitt augnablik við svörðinn og rússneski línuvörðurinn, eins og sú ágæta stétt hét í þá daga, Tofiq Bakhramov, flaggaði í ofboði og svissneski dómarinn Gottfried Dienst dæmdi mark. Eitt það umdeildasta sem um getur enda voru ekki allir sannfærðir um að tuðran hefði farið yfir línuna. Heimamenn voru þó ekki í nokkrum vafa enda breiddi þeirra næsti maður, eini Englendingurinn á téðri ljósmynd, Roger Hunt, út faðminn til marks um það að boltinn væri inni. Hann var orðlagt séntilmenni og þjóðin þurfti ekki frekari vitna við. Það var ekki að ósekju að stuðningsmenn félagsliðs Hunts, Liverpool, kölluðu hann aldrei annað en Sir Roger, og kærðu sig kollótta um að hann hefði aldrei fengið formlegt vottorð þess efnis frá drottningu.

Nú er Sir Roger allur, 83 ára, og er syrgður í sparkheimum, vítt og breitt. Það þýðir að einungis þrír sem léku úrslitaleikinn 1966 eru eftir; Bobby Charlton, George Cohen og fyrrnefndur Geoff Hurst.

Slapp undan kústinum

Prúðmennskan sem bjó í eðlisfarinu kom aldrei í veg fyrir að Hunt væri grimmur og óvæginn andspænis marki andstæðinganna.

Hann gerði 18 mörk í 34 landsleikjum, þar af þrjú á HM 1966, og 285 mörk í 492 leikjum fyrir Rauða herinn. Aðeins Ian Rush hefur gert betur og raunar á Hunt ennþá metið í deildarleikjum, 244 stykki. Rush á 229. Rush skoraði að jafnaði 0,52 mörk í leik, Hunt 0,53. Okkar maður varð markakóngur á Anfield átta tímabil í röð. Hann var líka fljótastur allra til að skora 100 mörk fyrir Liverpool, í 152 leikjum, þangað til Mohamed Salah sló metið á dögunum; þurfti einum leik minna.

Hunt gekk til liðs við Liverpool frá áhugamannaliðinu Stockton Heath árið 1958, tvítugur að aldri, en lék ekki sinn fyrsta leik fyrr en rúmu ári síðar – og hélt upp á það með viðeigandi hætti, marki gegn Scunthorpe United í leik í gömlu 2. deildinni. Í samtali við blaðið The Liverpool Echo í fyrra greindi Hunt frá því að andað hefði köldu í hans garð til að byrja með enda hafi atvinnumennirnir á Anfield ekki skilið hvaða erindi áhugamaður beint úr hernum ætti upp á dekk. Varaliðsþjálfarinn, Joe Fagan, mun þó hafa tekið honum opnum örmum, stappað í hann stálinu og kennt honum að æfa eins og atvinnumaður. „Hann var goðsögn, magnaður maður.“

Ekki bætti úr skák að skórnir sem Hunt átti að fylla voru stórir og víðir en goðsögnin Billy Liddell var farin að reskjast og rifa seglin á þessum tíma. Meiðsli hans hleyptu Hunt á endanum inn í liðið.

Varð lykilmaður hjá Shankly

Skömmu síðar bar Bill nokkurn Shankly að garði – með kústinn hátt á lofti. Hvorki fleiri né færri en 24 leikmenn enduðu úti á stétt. Aðeins hörðustu Púlarar muna hvern Shankly leysti af hólmi á Anfield. Ég heyri þá núna slá sér á lær og mæla hátt og snjallt: Phil Taylor. Drjúgir með sig. Í Liverpool Echo-viðtalinu lýsir Hunt Shankly sem stórmenni og fljótt hafi komið í ljós að hann ætlaði að umturna félaginu. „Ég vissi að hann var sérstakur og drengur góður. Hann var ekki eins mikill harðjaxl og margir halda,“ sagði Hunt og eiginkona hans, Rowan, bætti við að leikmennirnir hefðu hlaupið gegnum veggi fyrir Shankly. Spurð hvort allt sem sagt hafi verið um Shankly sé satt og rétt hristu hjónin höfuðið og svöruðu: „Kannski svona 50%“

Sönn er þó sagan af því þegar Hunt sneri aftur á Melwood eftir að hafa orðið heimsmeistari með Englendingum og hitti Shankly. „Vel gert, vinur,“ sagði stjórinn, „en nú skulum við snúa okkur að því sem skiptir máli!“

Shankly var sumsé Skoti.

Hunt lenti ekki í brottkastinu hjá Shankly og átti eftir að verða lykilmaður í endurreisn hans næstu árin; vann tvo Englandsmeistaratitla (1964 og 1966) og enska bikarinn einu sinni (1965). Þá varð hann markakóngur efstu deildar 1966 með 29 mörk ásamt Willie Irvine, leikmanni Burnley. Mestum hæðum náði Hunt þó fjórum árum áður, þegar hann skoraði 42 mörk í 46 leikjum í 2. deildinni. Hann gerði sem frægt er fyrstu tvö Evrópumörk sín á Laugardalsvellinum gegn KR haustið 1964, framhjá Gísla Þorkelssyni. Hann skoraði líka í seinni leiknum í Liverpool, þá framhjá Heimi Guðjónssyni. Vel haldnir af markvörðum á þessum árum, KR-ingar.

Þetta var viðburðaríkt ár hjá Hunt en 22. ágúst skoraði hann fyrsta markið sem sýnt var í hinum langlífa og sívinsæla sjónvarpsþætti Match of the Day, eða Leik dagsins, á BBC. Það gerði hann fyrir framan The Kop í 3:2 sigri á Arsenal. Lyfti boltanum viðstöðulaust yfir bjargarlausan Jim Furnell í markinu eftir fyrirgjöf frá Ian Callaghan. „Það var mark,“ galaði Kenneth Wolstenholme sem seinna lýsti úrslitaleik HM á Wembley. Skömmu áður hafði verið brotið á Callaghan á hægri kantinum en leikurinn hélt eigi að síður áfram í drykklanga stund á eftir enda heyrði ekki nokkur maður í flautu Kevins Howleys dómara vegna hávaða á pöllunum. Eða „herra Howley“, eins og Wolstenholme kallaði hann. Menn kunnu sig í þá daga.

Hunt var ekki aðeins iðinn við kolann, heldur vann hann alla tíð einnig eins og þjarkur án bolta. Réttnefndur draumaleikmaður knattspyrnustjórans. Fræg er líka samvinna hans við Skotann Ian St John í framlínu Liverpool sem dugði í átta ár. Einhver ljóðræn fegurð í því að þeir skuli falla frá á sama árinu.

Í Liverpool Echo-viðtalinu ber Hunt lof á St John og einnig útherjana, téðan Callaghan og Peter Thompson sem skópu ófá mörkin fyrir hann.

Einu vonbrigðin á ferli Hunts voru að vinna ekki Evróputitil með Liverpool. Lengst komst hann í undanúrslit Evrópukeppni meistaraliða 1965 og ári síðar laut Rauði herinn í gras í framlengdum úrslitaleik gegn Borussia Dortmund, 1:2, í Evrópukeppni bikarhafa, eftir að Hunt hafði jafnað 1:1.

Hann yfirgaf Liverpool í desember 1969 og gekk í raðir Bolton Wanderers og lék í þrjú tímabil með þeim, í 2. og 3. deild, áður en hann lagði skóna á hilluna 1972, tæplega 34 ára gamall. Sama ár efndi Liverpool til ágóðaleiks fyrir kappann á Anfield sem 56 þúsund manns sóttu.

Eftir að sparkferlinum lauk tók hann við flutningafyrirtæki fjölskyldunnar, Hunt Brothers, ásamt Peter bróður sínum en þeir bræður heyrðu til þriðju kynslóðinni sem hélt þar um stjórnvölinn.

Félagar falla

Rúmri viku áður en Hunt kvaddi sagði félagi hans í framlínu Englands í fyrstu leikjum HM 1966 einnig skilið við þetta líf, Jimmy Greaves. Þeir voru parið sem Alf Ramsey stólaði á að myndi sigla fyrsta heimsbikarnum heim.

Greaves meiddist hins vegar illa í þriðja og seinasta leiknum í riðlakeppninni, þegar Frakkinn Joseph Bonnel renndi tökkunum eftir legg hans með þeim afleiðingum að sauma þurfti 14 spor. Geoff Hurst kom inn í liðið í fjórðungsúrslitunum og skoraði sigurmarkið gegn Argentínu. Hélt svo sæti sínu í undanúrslitunum gegn Portúgal og úrslitunum, þar sem hann gerði sem frægt er þrennu. Greaves var orðinn leikfær þann dag en Ramsey kaus að rugga ekki bátnum. Valdi því Hunt og Hurst fram yfir Greaves sem sat eftir með sárt ennið. Fékk ekki einu sinni medalíu en samkvæmt miskunnarlausum reglum sem þá voru við lýði áttu aðeins þeir ellefu sem tóku þátt í leiknum rétt á henni. Það var ekki fyrr en 2009 að Alþjóðaknattspyrnusambandið samþykkti að breyta reglunum afturvirkt og þá fékk Greaves loksins laun erfiðisins. Landsliðsferillinn rann eiginlega út í sandinn eftir þetta; hann skoraði aðeins eitt mark í þremur landsleikjum 1967, sem var seinasta árið sem hann skrýddist ljónabúningnum.

Greaves var ennþá marksæknari en Hunt á sínum ferli; er raunar sá leikmaður sem skorað hefur flest mörk í efstu deild á Englandi frá upphafi, 357. Hvorki meira né minna. Á þeim fimmtíu árum sem liðin eru frá því að hann lagði skóna á hilluna hefur enginn komist nálægt þessu meti. Það segir sína sögu um undramátt Jimmy Greaves. Mörkin gerði hann í aðeins 516 leikjum sem gerir 0,69 mörk á meðaltali í leik. Þá gerði Greaves 44 mörk í aðeins 57 landsleikjum.

Greaves sló í gegn á sinni fyrstu leiktíð í efstu deild, með Chelsea, 1957-58, aðeins 17 ára gamall; skoraði 22 mörk í 37 leikjum í öllum keppnum. Alls skoraði hann 132 mörk í 169 leikjum fyrir þá bláu á fjórum tímabilum áður en hann gekk til liðs við AC Milan á Ítalíu. Þar fann kappinn sig ekki nægilega vel, enda þótt liðið yrði ítalskur meistari, og sneri aftur til Lundúna eftir aðeins einn vetur. Þá varð Tottenham Hotspur fyrir valinu, þar sem Greaves gerði garðinn frægan næstu níu árin. Gerði 268 mörk í 381 leik. Hann lauk ferlinum hjá þriðja Lundúnaliðinu, West Ham United, en komst aldrei á flug þar. Alls varð Greaves sex sinnum markakóngur efstu deildar á Englandi, fyrst 1959 og seinast 1969. Mest gerði hann 41 deildarmark á einu og sama tímabilinu, fyrir Chelsea 1960-61.

Greaves varð aldrei enskur meistari í knattspyrnu en vann bikarinn í tvígang með Tottenham, 1962 og 1967 og svo Evrópukepnni bikarhafa 1963; skoraði tvisvar í 5:1 sigri á Atlético Madrid.

Eins og að drekka vatn

Ekki er ofsögum sagt að Greaves hafi fæðst til að leika knattspyrnu – og skora mörk. Hann var eldfljótur, las leikinn betur en flestir, var jafnvígur á báða fætur og frábær skallamaður miðað við hæð, hann var 1,73 sentimetrar. Fyrir honum var það að skora mark eins og að drekka vatn. Jafnvel auðveldara.

Annars konar drykkja kom honum í koll síðar en Bakkus konungur læsti klónum um tíma í Greaves eftir að hann hætti sparkiðkun. Hann sökk djúpt en komst á endanum upp á yfirborðið. Það var þó ekki álagið sem fór með hann heldur þvert á móti skortur á álagi, eins og hann orðaði það einu sinni í samtali við breska blaðið The Guardian. „Það var ekki álagið sem fylgdi því að spila sem fékk mig til að drekka mér til óbóta, heldur tómleikinn sem hlaust af því að spila ekki,“ sagði hann. „Ég saknaði fótboltans.“

Þannig tengdi hann við tvo af frægustu ógæfumönnum enskrar knattspyrnusögu, George Best og Paul Gascoigne. „Þeir fundu aldrei fyrir álagi meðan þeir voru að spila; þeir bara nutu þess.“

Greaves eignaðist fimm börn með eiginkonu sinni, Irene, öll áður en hann varð 25 ára og missti eitt þeirra á fyrsta ári. Irene stóð eins og klettur við hlið bónda síns alla tíð og átti stóran þátt í því að hann sneri á endanum blaðinu við.

Eftir að skórnir fóru á hilluna fékkst Greaves við viðskipti af ýmsu tagi og naut lýðhylli sem sparkskýrandi, bæði í blöðum og sjónvarpi. Þekktastur er hann líklega fyrir samstarf sitt við téðan Ian St John í sjónvarpsþáttunum Saint and Greavsie, sem voru í loftinu á ITV frá 1985 til 1992.

Já, enginn tengir Jimmy Greaves og Roger Hunt líklega betur saman en félagi þeirra Ian St John. Blessuð sé minning þeirra allra!