Arnfinnur Daníelsson og Valur Darri Ásgrímsson í hlutverki feðganna í Byl.
Arnfinnur Daníelsson og Valur Darri Ásgrímsson í hlutverki feðganna í Byl. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndaleikstjórarnir Fannar Smári Birgisson og Óttar Ingi Þorbergsson vinna nú að stuttmyndinni Bylur. Þeir viðurkenna að það sé slagur að koma sér á framfæri en um leið mjög hvetjandi. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Tveir feðgar festast uppi á hálendi Íslands í hríðarbyl þegar bíllinn þeirra gefur sig. Þeir neyðast til að fara fótgangandi í leit að skjóli og finna fjallakofa sem þeir geta komið sér fyrir í. Dagarnir líða og illviðrið heldur áfram að geisa svo feðgarnir þurfa að dúsa í þessum litla fjallakofa í dágóðan tíma sem reynist þrautin þyngri þar sem samband þeirra er afar stirt og erfitt.

Þannig liggur landið í stuttmyndinni Bylur sem kvikmyndagerðarmennirnir Fannar Smári Birgisson og Óttar Ingi Þorbergsson vinna nú að. Flakkað er milli nútíðar og fortíðar. Sonurinn er orðinn tvítugur í nútímanum en við skyggnumst líka inn í líf persónanna rúmum áratugi fyrr. Þannig fáum við smátt og smátt að sjá hvað hefur mótað samband feðganna og gert það að því sem það er þegar við hittum þá fyrir uppi á hálendinu. „Segja má að rauði þráðurinn í þessari mynd sé eitruð karlmennska,“ upplýsir Fannar Smári.

Þeir Óttar eru báðir útskrifaðir úr Kvikmyndaskóla Íslands og hafa unnið mikið saman, gert eina aðra stuttmynd, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og fleira. Fyrir utan kvikmyndagerðina vinna þeir báðir sem stuðningsfulltrúar hjá Reykjavíkurborg. „Okkur fellur mjög vel að vinna saman enda eins gott, við verjum miklum tíma saman,“ segir Fannar Smári brosandi. Óttar útskrifaðist á undan og kynni tókust með þeim þegar Fannar Smári fékk hann til að taka upp útskriftarmyndina sína árið 2019.

Verkefnið byrjaði sem útskriftarmynd fyrir Arnfinn Daníelsson, sem leikur pabbann í myndinni. Hann er sjálfur veiðimaður og fer reglulega upp á hálendið og hugmyndin kviknaði út frá því. Fannar Smári og Óttar leggja söguna upp saman en sá fyrrnefndi skrifar handritið. Með önnur hlutverk í myndinni fara Margrét Kaaber, sem leikur móðurina, Ingvar Örn Arngeirsson, sem leikur soninn þegar hann er orðinn tvítugur, Valur Darri Ásgrímsson, sem leikur soninn átta ára, og Emma Júlía Ólafsdóttir, sem leikur systur drengsins. Tvö þau síðastnefndu eru frændsystkini Fannars Smára og segir hann þau hafa staðið sig með stakri prýði.

Fjármagna úr eigin vasa

Vinnsla við myndina hófst á seinasta ári en frestaðist ítrekað vegna heimsfaraldursins. Félagarnir voru þó staðráðnir að gera myndina og héldu áfram að þróa hana. Þá eignaðist Óttar barn í fyrra, þannig að í mörg horn var að líta.

Þeir höfðu áform um að sækja um styrk úr Kvikmyndasjóði Íslands en hættu á endanum við það og ákváðu að fjármagna myndina alfarið sjálfir. „Það er langt og flókið ferli að sækja um styrk hjá Kvikmyndasjóði og allir vita að möguleikar þeirra sem ekki hafa þegar skapað sér nafn í greininni eru ekki miklir. Við ákváðum því að fjármagna myndina alfarið úr eigin vasa. Það er líka góð leið til að sýna fram á hvað við getum,“ segir Fannar Smári.

– Er það slagur að hasla sér völl í kvikmyndageiranum á Íslandi?

„Já, það er slagur. Maður þarf að búa sér til tækifærin sjálfur en það er verðug áskorun og gefandi að þurfa að sanna sig.“

Hann segir stuttmyndina krefjandi og skemmtilegt form kvikmyndagerðar. „Við Óttar erum báðir heillaðir af þessu formi og það er mikil áskorun að segja svona knappa sögu; við erum að tala um á bilinu 15 til 20 mínútur. Það er ekki auðvelt að segja góða sögu á svo stuttum tíma; það má ekki ein einasta lína fara til spillis.“

Beðið eftir snjónum

Tökur á Byl standa yfir um þessar mundir. Byrjað var í húsi í Borgarnesi sem tekið var á leigu en síðan barst leikurinn til Hveragerðis og í Þrengslin, í hlöðu við bæinn Ytri-Þurá í Ölfusi og senn kemur að því að taka upp í fjallakofa á Hellisheiðinni. Að því búnu þarf að bíða eftir snjó á hálendinu, til að klára útitökurnar. „Við erum ekki með sérstakan stað í huga,“ segir Fannar Smári, „bara þar sem snjóar fyrst.“

Hann segir þá hafa verið gríðarlega heppna með veður meðan á tökum hefur staðið sem skiptir sköpum enda ekki á vísan að róa í þeim efnum hér um slóðir. Eins og við þekkjum gerist veðrið varla sérlundaðra en á Íslandi. „Það getur verið krefjandi að taka upp í íslenska veðrinu en maður verður bara að rúlla með því. Fram að þessu hefur veðrið í tökunum bara verið eins og í handritinu – sem hlýtur að teljast mjög sjaldgæft.“

Verkefnið er á áætlun og Fannar Smári gerir ráð fyrir að eftirvinnslu verði lokið fyrir jólin. Hvað ætli taki þá við?

„Að koma myndinni inn á hátíðir erlendis,“ svarar Fannar Smári. „Það er mikill meðbyr með íslenskri kvikmyndagerð, ekki síst stuttmyndum, og við erum mjög spenntir að sýna hvað getum og láta á þetta verkefni reyna.“

Fannar Smári og Óttar eru þegar farnir að leggja drög að næsta verkefni sem jafnframt verður stuttmynd. „Ég reikna með að byrja að skrifa handritið um leið og þessu verkefni lýkur,“ segir hann og bætir við að næsta verkefni eftir það verði vonandi kvikmynd í fullri lengd.

Fannar Smári er 26 ára en kvikmyndaáhuginn hófst fyrir alvöru þegar hann fékk myndavél í fermingargjöf. Þá byrjaði hann að gera heimatilbúin myndbönd og eftir það var ekki aftur snúið. „Þetta er það sem mig langar til að gera í lífinu og ég er hvergi nærri hættur – vonandi bara rétt að byrja.“