Aðdáandi Bonds í Allahabad á Indlandi bíður eftir að fá miða á nýjustu myndina.
Aðdáandi Bonds í Allahabad á Indlandi bíður eftir að fá miða á nýjustu myndina. — AFP
París. AFP. | Enginn tími til að deyja (No Time to Die) er 25. kvikmyndin um James Bond og viðtökurnar sýna að myndirnar um útsendara hennar hátignar njóta enn mikilla vinsælda um allan heim.

París. AFP. | Enginn tími til að deyja (No Time to Die) er 25. kvikmyndin um James Bond og viðtökurnar sýna að myndirnar um útsendara hennar hátignar njóta enn mikilla vinsælda um allan heim. Hér eru fimm atriði sem ágætt er að vita um njósnarann sem hefur leyfi til mannvíga.

Byrjaði á bók

James Bond hóf feril sinn á bók. Nafnið á honum sótti höfundurinn, Ian Fleming, á kápu bókar um fuglaskoðun á Jamaíku og þótti það tilvalið því að hann vildi að það væri eins hversdagslegt og hægt væri að hugsa sér.

Fleming sótti í brunn reynslu sinnar í síðari heimsstyrjöld við skrifin. Þá var hann í leyniþjónustu breska sjóhersins.

Eitt helsta verkefni Flemings hlaut nafnið Gullauga eða Goldeneye og var því ætlað að eitra sambandið milli Spánverja og Þjóðverja. Hann kallaði síðar heimili sitt á Jamaíku Goldeneye og hlaut myndin um Bond frá 1995 það nafn.

Fyrsta skáldsagan um Bond, Casino Royale, kom út árið 1953 og sló í gegn, enda kærkomin afþreying á tímum harðinda og skömmtunar í Bretlandi upp úr stríði.

Fleming skrifaði 13 bækur um Bond til viðbótar og var einnig höfundur barnabókarinnar Kitty, Kitty, Bang um samnefnda töfrabifreið, sem úr varð vinsæl söngvamynd.

Hann lést árið 1964, 56 ára að aldri, aðeins tveimur árum eftir að fyrsta myndin um Bond, Dr. No, var frumsýnd.

Vænar fúlgur

Tölum ber ekki saman, en myndirnar um Bond eru einn ábatasamasti kvikmyndaflokkur sögunnar. Gerðar hafa verið 25 myndir og framleiðendur munaðarvarnings hafa slegist um að koma framleiðslu sinni að í þeim.

Á vefsíðunni The Numbers þar sem birtar eru ýmsar tölur úr viðskiptalífinu segir að myndirnar um Bond séu í þriðja sæti í miðasölu í heiminum á eftir Marvel-myndunum og Stjörnustríðsmyndunum.

Lengra er síðan fyrstu myndirnar um skrímslið Godzilla og apann foldgnáa King Kong voru gerðar, en mestur stöðugleiki hefur verið í gerð myndanna um Bond og hafa sjaldnast liðið meira en tvö til þrjú ár á milli mynda.

Lengst leið á milli síðustu myndar Timothys Daltons í hlutverki njósnarans, Leyfi til að drepa (Licence to Kill), frá 1989 og Gullauga (Goldeneye) með Pierce Brosnan árið 1995.

Það undirstrikar hvers virði Bond er að Amazon keypti réttinn að honum af MGM fyrir 8,45 milljarða dollara (1,1 billjón króna) fyrr á þessu ári.

Alþjóðlegur útsendari

Margir hafa leikið Bond á undanförnum 60 árum, Englendningarnir Daniel Craig og Roger Moore, Skotinn Sean Connery, George Lazenby frá Ástralíu, Timothy Dalton frá Wales og Írinn Pierce Brosnan.

Í skáldsögunum er Bond sonur skosks föður og svissneskrar móður, sem láta lífið í fjallgönguslysi þegar hann er drengur.

Dulnefni

Dulnefnið „007“ hefur sína merkingu. „00“ vísar til þess að útsendarinn hefur leyfi til mannvíga. „7“ er til marks um að hann sé í sérsveit MI6, bresku leyniþjónustunnar, sem sér um njósnir utan landsteinanna.

Yfirmaður Bonds er ávallt kallaður „M“ og ætti því að vera „V“ á íslensku því að þar er átt við verkefnadeild eða „Missions Department“.

„Q“ sér Bond fyrir framúrstefnulegum græjum á borð við bíla sem skjóta eldflaugum og breytast í kafbáta og penna með eiturörvum. Þar sótti Fleming í reynslu sína úr hernum þar sem birgðastjóri nefnist „quartermaster“.

Varmennin nota einnig sín dulnefni eða skammstafanir. „SPECTRE“ nefnast samtökin sem löngum hafa gert Bond lífið leitt. Á ensku stendur skammstöfunin fyrir „Special Executive for Counter-intelligence, Terrorism, Revenge and Extortion“ eða „Sérdeild fyrir gagnnjósnir, hryðjuverk, hefnd og kúgun“, væntanlega skammstafað SFGHHK, sem vissulega er ekki jafnógnandi og enska skammstöfunin. Spectre merkir vofa eða vá og hefur Fleming ugglaust raðað orðunum í nafninu saman til að geta myndað það orð.

Þekktur aðdáandi

Hróður Bonds jókst verulega eftir að John F. Kennedy Bandaríkjaforseti sagði að bókin Með ástarkveðju frá Rússlandi (From Russia With Love) væri ein af tíu uppáhaldsbókunum sínum. Hermt er að það hafi einnig verið síðasta kvikmyndin sem Kennedy horfði á áður en hann hélt til Dallas í nóvember 1963.