Kristján Sveinsson fæddist 11. desember 1933. Hann lést 15. september 2021.

Útför hans fór fram 29. september 2021.

Í dag kveðjum við Kristján hennar Völu móðursystur.

Mamma mín talaði alltaf um að mágur hennar væri kletturinn í fjölskyldunni og ég held að við öll sem vorum svo lánsöm að þekkja Kristján getum verið sammála þar um.

Fyrir mér voru Vala og Kristján eins og aukasett af foreldrum. Ég var ekki gömul, rétt níu mánaða, þegar ég var fyrst sett í pössun í Skerjó og eftir það var ég alla tíð umvafin kærleika og ást.

Kristján var eiginlega eins og ofurhetja. Hann boxaði, kafaði, var skipstjóri á Goðanum og um borð var tíkin Trýna! Einhvern veginn virtist ekkert koma honum úr jafnvægi, ekki einu sinni þegar hann var að bora í stofunni í Skerjó, borinn rann til og stakkst í brjóstið á honum og það kom sjúkrabíll og við Ellý hlupum öskrandi af hræðslu út í garð. Alltaf rólegur og yfirvegaður.

Systurnar voru alla tíð mjög örlátar á pabba sinn og leyfðu frænkunni úr Hafnarfirði að eiga hlut í honum. Fyrir það er ég svo ósköp þakklát.

Börnin mín fengu sömuleiðis að njóta kærleika og umhyggju Kristjáns. Hann fylgdist vel með hvað þau voru að gera í lífinu og skrifaði reglulega fallegar kveðjur til þeirra á fésbókinni.

Elsku Vala mín, Sigga, Böggý, Ellý og Kata. Megi allt gott og fallegt umvefja ykkur og styrkja. Minningar um góðan mann lifa.

Takk elsku Kristján fyrir að vera hluti af lífi mínu.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Delia Kristín Howser (Stína).