Skip Tuttugu ára togveiðiskip Vinnslustöðvarinnar, Huginn VE, hér við bryggju í Vestmannaeyjum. Það mun að líkindum hefja loðnuveiðar síðar á árinu.
Skip Tuttugu ára togveiðiskip Vinnslustöðvarinnar, Huginn VE, hér við bryggju í Vestmannaeyjum. Það mun að líkindum hefja loðnuveiðar síðar á árinu. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Ágúst Ingi Jónsson Stefán Einar Stefánsson Urður Egilsdóttir Hólmfríður María Ragnhildardóttir Bæjarstjórar Vestmannaeyja og Fjarðabyggðar segjast fagna ráðleggingu Hafrannsóknastofnunar um veiðar á allt að 904.200 tonnum af loðnu fyrir komandi vertíð.

Ágúst Ingi Jónsson

Stefán Einar Stefánsson

Urður Egilsdóttir

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

Bæjarstjórar Vestmannaeyja og Fjarðabyggðar segjast fagna ráðleggingu Hafrannsóknastofnunar um veiðar á allt að 904.200 tonnum af loðnu fyrir komandi vertíð. Mun þetta vera stærsta ráðstöfun í nærri 20 ár. Stærstur hluti loðnukvótans á Íslandi er í Vestmannaeyjum og Fjarðabyggð. „Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir og skiptir samfélagið hér í Vestmannaeyjum mjög miklu máli eins og þjóðarbúið allt,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Eyjum.

Auknar veiðar þýði gríðarlega innspýtingu í efnahags- og atvinnulíf Eyjamanna. „Bæði störfin í kringum vinnsluna, afleiddu störfin og vertíðin verður lengri,“ segir Íris. Eyjamenn horfi nú björtum augum á næsta ár.

Loðnubrestur á undanförnum árum hafi gífurleg áhrif á samfélagið. „Það er svo gríðarlega margt annað sem loðnan hefur áhrif á hér en bara sjávarútvegsfyrirtækin og þá sem þar starfa. Það er ofboðslega mikilvægt fyrir samfélagið að það sé loðnuveiði.“

Glöð að sjá þessi umskipti

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir tíðindin svo sannarlega fagnaðarefni. „Við erum mjög glöð að sjá þessi umskipti sem eru að verða. Að fara úr 127.300 tonnum á þessu ári í 904.200 tonn.“

Hann segir að fyrir Fjarðabyggð og önnur sjávarútvegssveitarfélög sé verðmætasköpunin ómetanleg.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin og alla afleidda þjónustu. Svo gætir áhrifanna í samfélaginu öllu þar sem aukin verðmæti gera það að verkum að samfélagið allt hagnast. Í heild sinni er þetta mikill gleðidagur fyrir land og þjóð.“

Loðnuvertíðin hefur verið mjög sveiflukennd undanfarin ár. Veturinn 2014-2015 voru veidd 517 þúsund tonn, ári seinna var aflinn 174 þúsund tonn og árin 2017 og 2018 var hann í kringum 300 þúsund tonn. Árin 2019 og 2020 voru loðnuveiðar ekki leyfðar við landið en kvótinn endaði þó í 127.300 tonnum síðasta vetur eftir mikla loðnuleit og sviptingar í ráðgjöf.

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að tíðindin gætu leitt til 5,3% hagvaxtar árið 2022 í stað 3,3% sem var spáð í maí. „Sá afli sem mun koma í hlut Íslendinga er einhvers staðar í kringum 700 þúsund tonn. Það gæti leitt til þess að aflaverðmæti íslenskra fyrirtækja yrði á bilinu 60-80 milljarðar króna og það munar um minna.“