Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson
Eftir Guðna Ágústsson: "Kosningasigur Framsóknar er sá stærsti í sögu flokksins í ljósi þess að sigurinn er unninn með flokkinn sitjandi í ríkisstjórn."

Í eina tíð þótti það svolítið gott grín að teikna formann Framsóknarflokksins peysufataklæddan á skopmyndum. Framsókn er eini stjórnmálaflokkurinn sem var og hefur ávallt verið kvenkenndur. Í því er fólginn mikill styrkur. Eina ferðina enn kemur þessi flokkur síungur og sigrar í kosningum með eitt hundrað og fimm ára farsælt starf í farteskinu.

Það var ævintýri að fylgjast með kosningabaráttunni og ég heyri loks hófadyninn þegar kjósendur yfirgáfu öll yfirboð og plat. Fólk endurtók hvert við annað kosningaslagorð Framsóknar: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn!“ Slagorðið hljómaði ekki síst vel þar sem það var eins og okkar ástsæli Steingrímur Hermannsson af hógværð sinni talaði til okkar.

Kosningasigur Framsóknar er sá stærsti í sögu flokksins í ljósi þess að sigurinn er unninn með flokkinn sitjandi í ríkisstjórn. Maddaman er þrautseig og síung, en þunginn er samt í ráðherrum flokksins og vel heppnuðum frambjóðendum flokksins um land allt. Ríkisstjórnarflokkarnir geta vel við unað; ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var endurkosin með glæsibrag. Framsókn er í kunnuglegri fylgistölu. Vinstri grænir eru það einnig. Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti flokkur landsins þó að brot af honum hafi í þetta sinn runnið fram í Viðreisnarlæknum. Sorglegast var að missa Brynjar Níelsson af þinginu, þar missti ekki bara „fýlupokafélagið“ einn sinn besta mann, og rödd hverfur af Alþingi sem þorði að standa með sjálfri sér og Brynjar er að auki alltaf skemmtilega glettinn. Hins vegar gleðilegt að sjá hinn djúpvitra Birgi Ármannsson koma enn upp úr kófinu og skila sér eins og vant er inn á þing, með rök og lögspeki Njáls á hreinu.

Stalín og Gunnar Smári fengu makleg málagjöld. Fólk skilaði ekki rauðu í kjörklefanum, vissi að það þýðir stopp! Samfylkingin sem felldi Össur Skarphéðinsson vin minn í 30% fylgi 2003 er með allt í logandi vandræðum, komin undir 10%. Píratarnir sluppu með skrekkinn. Miðflokkurinn laut í gras, þrátt fyrir forystumann sem alltaf verður afreksmaður fyrir kjarkinn 2013 til 2016 sem formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra. Flokkur fólksins með hina glaðbeittu Ingu Sæland átti hins vegar inni hjá þjóðinni, því sáttin í málefnum eldri borgara og öryrkja hefur enn ekki náðst fram. Fallegasta og mikilvægasta viðurkenning sem stjórnmálamenn öðlast í pólitík er traust og aftur traust. Traustið bar Sigurð Inga, Lilju Dögg og Ásmund Einar til sigurs í kosningunum 2021.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.

Höf.: Guðna Ágústsson