Fullyrt var í Morgunblaðinu fyrir sjötíu árum að bókaormar sem söfnuðu gömlum bókum skiptu þúsundum. Hvað ætli þeir séu margir í dag?
Fullyrt var í Morgunblaðinu fyrir sjötíu árum að bókaormar sem söfnuðu gömlum bókum skiptu þúsundum. Hvað ætli þeir séu margir í dag? — Morgunblaðið/Kristinn
Íslenskir bókaormar voru til umfjöllunar í Morgunblaðinu á þessum degi árið 1951 en blaðið sagði þá skipta þúsundum.

Íslenskir bókaormar voru til umfjöllunar í Morgunblaðinu á þessum degi árið 1951 en blaðið sagði þá skipta þúsundum. Margir þeirra væru efnaðir menn, sem munaði ekki um að snara út 200 til 300 krónum fyrir rykfallna skræðu, aðrir væru snauðir eins og gengur. „En öllum er þeim sameiginlegt, að með gamla, sjaldgæfa bók í höndunum verða þeir meyrir og hátíðlegir, hjer um bil umkomulausir eins og lítil börn í ókunnu húsi.“

Fram kom að einir sjö fornbóksalar væru í Reykjavík og engir kynnast bókaormunum betur en þeir en „sjálfir eru þeir líka oft haldnir náttúru bókaormsins. Undir eins og bókin er seld upp í bókabúðunum, eykst eftirspurnin eftir henni í fornbóksölunni ef hún er eftir íslenskan höfund. Annars eru engar fastar reglur um verð og eftirspurn bóka, sem gengið hafa upp.“ Einnig var þess getið í fréttinni að bókasafnendurnir sæktust mest eftir ritum Halldórs Laxness, fyrstu útgáfu. „Leit þeirra að einstökum heftum, sem þá vantar í gömul tímarit, er líka áköf.“