Það ríkir ekki nein óvissa um úrslit kosninganna. Þegar alþingi kemur saman verður útgáfa kjörbréfa til 63 einstaklinga staðfest.

Næsta grátbroslegt er að málsvarar „nýju stjórnarskrárinnar“ fullyrði að reiknivilla við samlagningu atkvæða í NV-kjördæmi sanni að setja þurfi lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Málflutningurinn er líklega síðasta andvarpið til stuðnings „nýju stjórnarskránni“. Flokkunum sem vilja hana, Samfylkingu og Pírötum, var hafnað í þingkosningunum fyrir réttri viku.

Nú er gert tortryggilegt að alþingismenn eigi sjálfir síðasta orðið um hvort kjörbréf séu gild.

Framkvæmd alþingiskosninga er á ábyrgð alþingis sem fellur að hugmyndum um þrískiptingu valdsins. Í 46. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.“

Tal um að alþingismenn séu vanhæfir til að gera það sem segir í 46. gr. stjórnarskrárinnar beinir athygli að álitsgerð sem Páll Hreinsson, þáverandi lagaprófessor, núverandi forseti Efta-dómstólsins, samdi að beiðni Halldórs Blöndals, forseta alþingis, snemma árs 2004.

Í álitsgerðinni er meðal annars að finna tilvísun til úrskurða sem forsetar alþingis hafa gefið um þetta efni. Í úrskurðunum er áréttað að alþingismenn séu í störfum sínum eingöngu bundnir við sannfæringu sína og standi aðeins kjósendum skil gerða sinna. Þeir séu ekki bundnir af hæfisreglum í störfum sínum og geti því tekið þátt í meðferð og afgreiðslu allra mála á þinginu. Það sé einmitt ein af grundvallarreglum í stjórnmálum lýðræðisríkja að þingmenn taki ákvarðanir um hvaða hagsmuni eigi að taka fram yfir aðra. Séu þeir tengdir þeim með mjög persónulegum hætti sé þeim auðvitað í sjálfsvald sett af siðrænum ástæðum að segja sig frá máli. Það sé þeirra ákvörðun og á þeirra ábyrgð.

Páll Hreinsson segir í álitsgerðinni frá 27. mars 2004 að ekki séu gerðar eins strangar hæfiskröfur til þingmanna og til embættismanna eða dómara enda sé ekki ætlast til að þingmenn séu hlutlausir í störfum sínum. Þvert á móti ráðist það af lífsviðhorfi meiri hluta þingmanna í hverju máli hvaða hagsmunir fái framgang í löggjöf, eftir atvikum á kostnað annarra hagsmuna. Þingmenn ákveði hvaða hagsmunir skuli teljast almannahagsmunir og þar með verkefni stjórnvalda. Í því efni séu þingmenn ekki bundnir af öðru en sannfæringu sinni og ákvæðum stjórnarskrár.

Þegar nú er rætt um afgreiðslu á kjörbréfum nýkjörinna þingmanna er nauðsynlegt að árétta þessar einföldu og skýru grundvallarreglur. Þeir sem vilja að ekki sé farið sé að þeim leggjast í smíði „sviðsmynda“ sem eru ekki annað en hugarburður.

Í byrjun júní 2021 samþykkti alþingi breytingu á þingskapalögum sem heimilar starfandi forseta þingsins að kveðja saman nefnd níu alþingismanna til að undirbúa rannsókn kjörbréfa sem fer fram á þingsetningarfundi. Með þessu nýja ákvæði er skotið lagastoð undir venju sem fylgt hefur verið undanfarin ár til að flýta fyrir og auðvelda afgreiðslu kjörbréfa á þingsetningarfundi.

Að fengnum kjörbréfum frá landskjörstjórn kallar Willum Þór Þórsson, starfandi forseti alþingis, eftir nöfnum níu þingmanna til að sitja í þessari undirbúningsnefnd sem fer yfir gerðabækur landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna, ágreiningsseðla og kosningakærur sem kunna að hafa borist dómsmálaráðuneytinu.

Í störfum sínum nýtur nefndin aðstoðar starfsfólks landskjörstjórnar við útreikninga á úrslitum kosninga í einstökum kjördæmum og starfsfólks skrifstofu alþingis eftir atvikum. Þetta er forrannsókn kosningaúrslitanna áður en kjörbréfanefnd kjörin á þingsetningarfundi ræðir málið og gerir tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanns teljist gild.

Sjaldgæft er eftir alþingiskosningar að athygli beinist að þessum mikilvæga formbundna þætti við að tryggja alþingismönnum lögmæti. Áður hafa ágallar við framkvæmd kosninga þó komið til umræðu.

Kvartanir og umvandanir eiga nú greiða leið í fjölmiðla og þar birtist reiði einstakra frambjóðenda yfir eigin örlögum. Áður báru þeir harm sinn yfirleitt í hljóði. Nú er leitað til lögreglu eða þess krafist að stuðst sé við talningu sem reyndist röng eða kosningin sé endurtekin! Hvergi er vikið að nokkru saknæmu eða svindli við framkvæmd kosninganna.

Það ríkir ekki nein óvissa um úrslit kosninganna. Þegar alþingi kemur saman verður útgáfa kjörbréfa til 63 einstaklinga staðfest. Það er verkefni þingmanna að ljúka þessu máli.

Þess varð ekki vart í kosningabaráttunni að upplýsingaóreiða væri markvisst notuð til að villa um fyrir kjósendum. Það hefur hins vegar verið gert í þessu klúðursmáli að kosningum loknum. Meira að segja er sagt að „helstu lögspekingar landsins“ séu „hugsi yfir þeim stjórnskipulega vanda“ sem við sé að eiga. Látið er eins og dómur Mannréttindadómstóls Evrópu vegna allt annars konar kosningamáls í Belgíu víki skýru íslensku stjórnarskrárákvæði til hliðar.

Ístöðuleysið sem einkennir þennan furðulega málflutning smitar frá sér inn á alþingi, einkum innan flokka sem eiga um sárt að binda vegna höfnunar af hálfu kjósenda.

Landstjórnin er sem betur fer í sömu traustu höndunum og fyrir kosningarnar. Stjórnarflokkarnir hafa alla burði til að ljúka þessu upphlaupsmáli. Þeir verða að gera það svo fljótt sem kostur er. Falli alþingi á þessu fyrsta prófi nýs kjörtímabils lofar það ekki góðu um framhaldið.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is