13 Breiðablik hóf bikarinn á loft í þrettánda sinn í sögu félagsins á Laugardalsvelli í gær eftir öruggan sigur gegn Þrótti úr Reykjavík í úrslitaleik. Með sigrinum jafnaði Breiðablik Íslandsmeistara Vals í fjölda bikarmeistaratitla en þetta eru sigursælustu félögin í íslenskri kvennaknattspyrnu.
13 Breiðablik hóf bikarinn á loft í þrettánda sinn í sögu félagsins á Laugardalsvelli í gær eftir öruggan sigur gegn Þrótti úr Reykjavík í úrslitaleik. Með sigrinum jafnaði Breiðablik Íslandsmeistara Vals í fjölda bikarmeistaratitla en þetta eru sigursælustu félögin í íslenskri kvennaknattspyrnu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Breiðablik er bikarmeistari kvenna í knattspyrnu í þrettánda sinn eftir öruggan 4:0-sigur gegn Þrótti úr Reykjavík í úrslitaleik á Laugardalsvelli í gær. Karitas Tómasdóttir kom Breiðabliki yfir á 26.

Í Laugardal

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Breiðablik er bikarmeistari kvenna í knattspyrnu í þrettánda sinn eftir öruggan 4:0-sigur gegn Þrótti úr Reykjavík í úrslitaleik á Laugardalsvelli í gær.

Karitas Tómasdóttir kom Breiðabliki yfir á 26. mínútu þegar hún vann boltann á miðsvæðinu og sendi boltann út á vinstri kantinn á Öglu Maríu Albertsdóttur. Agla María átti hnitmiðaða sendingu á Karitas sem átti viðstöðulaust skot úr teignum og boltinn söng í netinu.

Tiffany McCarty bætti við öðru marki Blika á 39. mínútu þegar Þrótturum mistókst að hreinsa frá marki. Íris Dögg Gunnarsdóttir misreiknaði boltann, missti hann beint fyrir fætur McCarty sem skoraði af öryggi í tómt markið.

Hildur Antonsdóttir bætti við þriðja marki Blika á 63. mínútu þegar Þróttarar töpuðu boltanum klaufalega í öftustu víglínu. Selma Sól Magnúsdóttir átti laglega sendingu á Hildi sem var ein á auðum sjó í vítateig Þróttara og hún skoraði af öryggi í hornið fjær.

Karitas Tómasdóttir innsiglaði svo sigur Blika á 83. mínútu með frábærum skalla eftir laglega aukaspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur frá vinstri.

Blikar slökktu í Þrótturum

Leikurinn fór rólega af stað og það var alveg ljóst að spennan var mikil hjá báðum liðum. Nokkurt jafnræði var með liðunum til að byrja með og það voru Þróttarar sem voru hættulegri sóknarlega en Andrea Rut Bjarnadóttir komst næst því að skora fyrir Þróttara á 16. mínútu þegar hún slapp ein í gegn en Telma Ívarsdóttir í marki Blika varði vel frá henni.

Þegar líða fór á leikinn fór Blikum að líða betur á vellinum og eftir að Kópavogsliðið skoraði fyrsta markið á 26. mínútu tóku þær öll völd á vellinum. Liðið fór að spila eins og það á að sér að gera en Þróttarar virkuðu slegnir. Það kom meira óöryggi í spil Þróttara á meðan Blikum óx ásmegin. Þróttarar gerðu sig svo seka um slæm mistök í öðru marki Blika og eftir það var leikurinn svo gott sem búinn.

Það ber hins vegar að hrósa Þrótturum fyrir þeirra leik enda tókst Blikum aldrei að opna vörn þeirra af neinu viti. Tvö af fjórum mörkum Blika komu eftir klaufaskap í öftustu víglínu Þróttara og fjórða markið kom eftir fast leikatriði þegar leikurinn var svo gott sem búinn.

Blikar eru svo sannarlega verðugir bikarmeistarar. Liðið var vissulega óstöðugt þegar mest á reyndi í sumar en þær hafa sýnt frábæra spilamennsku í undanförnum leikjum sínum og það verður afar áhugavert að fylgjast með liðinu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar sem hefst strax í næstu viku.

Þá má hrósa Karitas Tómasdóttur sérstaklega fyrir hennar spilamennsku í sínum öðrum bikarúrslitaleik en hún varð bikarmeistari með Selfossi í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2019. Karitas var algjörlega frábær á miðjunni í gær og tapaði ekki tæklingu. Hún leiddi með sönnu fordæmi þegar mest á reyndi í leiknum og dreif sitt lið áfram með frábæru vinnuframlagi allan tímann.

Þetta er fyrsti bikarúrslitaleikurinn í sögu Þróttara en liðið hefur verið í stöðugum framförum undanfarin ár undir stjórn Niks Chamberlains og ef fram heldur sem horfir verður þetta bara einn af mörgum úrslitaleikjum Þróttara í náinni framtíð.

Breiðablik og Valur hafa nú unnið bikarkeppnina oftast allra liða eða þrettán sinnum hvort. KR og ÍA koma þar á eftir með fjóra bikarmeistaratitla hvort og Stjarnan hef ur þrívegis fagnað sigri í keppninni.

BREIÐABLIK – ÞRÓTTUR 4:0

1:0 Karitas Tómasdóttir 26.

2:0 Tiffany McCarty 39.

3:0 Hildur Antonsdóttir 64.

4:0 Karitas Tómasdóttir 83.

Breiðablik : (4-3-3) Mark : Telma Ívarsdóttir. Vörn : Ásta Eir Árnadóttir, Kristín Dís Árnadóttir, Heiðdís Lillýjardóttir, Hafrún Rakel Halldórsdóttir. Miðja : Karitas Tómasdóttir, Taylor Ziemer (Vigdís Edda Friðriksdóttir 86), Hildur Antonsdóttir (Margrét Brynja Kristinsdóttir 90). Sókn : Selma Sól Magnúsdóttir (Vigdís Lilja Kristjánsdóttir 90), Tiffany McCarty (Birta Georgsdóttir 81), Agla María Albertsdóttir.

Þróttur R .: (4-3-3) Mark : Íris Dögg Gunnarsdóttir. Vörn : Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir (Sigmundína Sara Þorgrímsdóttir 78), Sóley María Steinarsdóttir, Jelena Tinna Kujundzic, Lorena Yvonne Baumann (Mist Funadóttir 87). Miðja : Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, Shea Moyer (Tinna Dögg Þórðardóttir 87), Katherine Cousins (Ragnheiður Ríkharðsdóttir 90). Sókn : Andrea Rut Bjarnadóttir, Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, Dani Rhodes (Hildur Egilsdóttir 87).

Dómari : Sigurður Hjörtur Þrastarson.

Áhorfendur : 2.385.