Ármann Öflug fimleikadeild er rekin í íþróttahúsinu í Laugardalnum.
Ármann Öflug fimleikadeild er rekin í íþróttahúsinu í Laugardalnum. — Morgunblaðið/Ómar
Stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) telur skynsamlegast að færa höfuðstöðvar Ármanns úr Laugardal í hinna nýju Voga- og Höfðabyggð og byggja þar upp aðstöðu fyrir allar íþróttagreinar félagsins.

Stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) telur skynsamlegast að færa höfuðstöðvar Ármanns úr Laugardal í hinna nýju Voga- og Höfðabyggð og byggja þar upp aðstöðu fyrir allar íþróttagreinar félagsins.

Þetta kemur fram í umsögn ÍBR um íþróttastarf til framtíðar í Vogabyggð við Elliðaárvog og Höfðabyggð á Ártúnshöfða. Þar er áformað að byggja upp fjölmenn íbúðahverfi á næstu árum. ÍBR eru heildarsamtök 78 íþróttafélaga í höfuðborginni. Glímufélagið Ármann er eitt elsta íþróttafélag landsins, stofnað árið 1888.

Þegar Reykjavíkurborg kannaði áhuga íþróttafélaga á að þjónusta þessi nýju hverfi lýstu Fjölnir, Fylkir, Víkingur, Þróttur og Ármann yfir áhuga á því að taka að sér verkefnið. Allt eru þetta hverfafélög „sem öll eiga landamæri að þessu nýja svæði og því mætti segja að þau geti öll átt ákveðið tilkall til þess að þjónusta íbúa nýs hverfis“, segir í umsögn ÍBR. Lagt er til að eitt félag sjái um um hið nýja hverfi í heild sinni og það verði Ármann, sem verði þá „hverfisíþróttafélagið“.

Aðstöðuvandi hefur háð starfsemi Ármanns, mest í fimleikum og körfuknattleik. Margar af öflugustu deildum félagsins eru reknar vítt og breitt um borgina. „Þar sem fyrir liggur að byggja þarf upp skólaíþróttasali í nýju hverfi þá er eðlilegt að þeir séu nýttir af Ármanni og taki strax mið af framboði félagsins. Samhliða yrði byggð upp miðstöð félagsins og aðstaða fyrir aðrar greinar,“ segir í umsögn ÍBR. sisi@mbl.is