Konráð Jónsson
Konráð Jónsson
Eftir Konráð Jónsson: "Með þessu móti sparaðist launakostnaður og enginn þyrfti að telja vansvefta langt fram á morgun."

Í kjölfarið á þeim mistökum sem voru gerð við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi hafa komið fram hugmyndir um að gera alþingiskosningar á Íslandi rafrænar. Það er skilvirk leið til að komast hratt að niðurstöðu og líklega ódýrari en það fyrirkomulag sem er nú við lýði. Hins vegar hefur verið bent á galla við þá aðferð – til dæmis að kjósandinn hafi enga auðsótta leið til að fullvissa sig um að atkvæði hans sé skráð rétt. Þá er ekki auðvelt að veita rafrænni kosningu aðhald, sem yrði sambærilegt við það eftirlit með pappírskosningum sem felst í því að talning fer fram fyrir opnum tjöldum og fulltrúar framboða fá að vera viðstaddir talningu. Þá geta rafrænar kosningar orðið fyrir tölvuárásum. Það er því mjög flókið verkefni að útfæra öruggt rafrænt kosningakerfi.

Það er jú rétt að við notum tölvutæknina fyrir ýmislegt annað mikilvægt, svo sem eins og bankaviðskipti og skattskil, en kosningar eru heilög stund, þar sem atkvæði eru greidd leynilega og mega alls ekki vera rekjanleg. Það gerir rafrænar kosningar flóknari í útfærslu en flest annað sem við gerum með aðstoð tölvutækninnar. Ef upp kemur grunur um að ekki sé allt með felldu í rafrænni kosningu er mjög erfitt að vinda ofan af því á trúverðugan og gagnsæjan hátt.

Hægt er að taka upp kosningaaðferð sem hefur marga kosti beggja kerfa og útrýmir flestum göllunum, að því er undirrituðum sýnist. Hún felur í sér mikið til óbreytt fyrirkomulag, en með viðbættri rafrænni atkvæðagreiðslu sem ætti að vera samhljóða pappírskosningunni.

Kjósandinn kýs á skjá í kjörklefanum. Í klefanum er prentari sem prentar atkvæðið. Kjósandinn getur fullvissað sig um að atkvæðið sé í samræmi við vilja hans. Kjósandinn setur prentaða atkvæðið í kjörkassa og það fer í hið venjulega ferli sem er í gildi í dag. Pappírskosningin gildir.

Þegar kjörstöðum er lokað er hægt að birta niðurstöðurnar skömmu seinna – hvernig og hversu löngu seinna er útfærsluatriði.

Niðurstöðurnar eru stemmdar af, í fyrsta lagi með því að tölva les prentuðu kjörseðlana, sem ætti að vera tæknilega auðvelt þar sem þeir voru merktir af prentara. Að því loknu telur fólk seðlana, og getur dundað sér við það í nokkra daga, án tímapressu og fyrir opnum tjöldum. Sú talning gildir á endanum. Með þessu móti þyrfti enginn að telja langt fram á morgun.

Einhver gæti spurt: Getur svona kerfi ekki orðið fyrir tölvuárásum? Svarið við því er játandi, það getur gerst – en þar sem pappírskosningin gildir hefur sú staðreynd ekki eins mikla þýðingu og ef kosningin væri eingöngu rafræn. Í því vonandi sjaldgæfa tilviki að tölvutæknin brygðist þannig að fólk gæti ekki kosið væri hægt að leyfa því að kjósa með blýanti. Blýantsatkvæðin yrðu þá talin sérstaklega. Jafnvel væri hægt að gefa fólki val um hvort það kysi með tölvuskjá eða blýanti. Að líkindum yrðu blýantsatkvæðin í örlitlum minnihluta og gætu verið talin hratt og örugglega.

Það er von undirritaðs að þessi hugmynd verði tekin til skoðunar.

Höfundur er lögmaður. konrad@jsg.is

Höf.: Konráð Jónsson