Ökuþórar Guðni Sveinn Theódórsson, lengst til vinstri, og Uwe Beyer þjálfari við hlið hans. Í nemendahópnum sem hér sést voru meðal annars menn úr liði Kynnisferða sem nokkrir eru af erlendum uppruna. Ánægja er með hvernig til tókst, en þarna fékk fólk að kynnast afar krefjandi aðstæðum í akstri.
Ökuþórar Guðni Sveinn Theódórsson, lengst til vinstri, og Uwe Beyer þjálfari við hlið hans. Í nemendahópnum sem hér sést voru meðal annars menn úr liði Kynnisferða sem nokkrir eru af erlendum uppruna. Ánægja er með hvernig til tókst, en þarna fékk fólk að kynnast afar krefjandi aðstæðum í akstri. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verkleg endurmenntun atvinnubílstjóra fer nú í fyrsta sinn fram á Íslandi. Rútur voru teknar til kostanna á kvartmílubrautinni við Hafnarfjörð, en einnig er farið í bókleg fræði. Farþegafræði, vistakstur og farmhleðsla eru fögin. Meiraprófið veitir fólki mikla möguleika.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á stórri rútu var stigið á olíugjöfina, ekið á þéttum hraða og svo slegið á hemlana svo ískraði í bremsum rútunnar stóru. Svona var gangurinn á kvartmílubrautinni í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð á dögunum þegar atvinnubílstjórar tóku akstursæfingar, sem voru hluti af endurmenntun sem fólki í stéttinni ber nú að afla sér. Slíkt er samkvæmt Evrópureglum sem kveða á um að bílstjórar sæki sér námskeið til þjálfunar á minnst fimm ára frest.

„Inntak þessarar þjálfunar er að bílstjórar geti ekið við erfiðar aðstæður án þess að stofna sér eða farþegum í hættu. Geti metið aðstæður rétt, læri á eðlisfræði bílsins og hvað hægt er að gera í þröngri stöðu,“ segir Guðni Sveinn Theodórsson hjá Ökulandi á Selfossi. Á vegum skólans hafa námskeið til endurmenntunar verið haldin um langt árabil og þau eru bæði verkleg og á bókina. Fræðin hafa síðustu misseri verið tekin í fjarkennslu, en meðal atriða sem þar eru kennd eru umferðarreglur, öryggismál, farþegafræði, vistakstur, farmhleðsla og svo mætti áfram telja. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem verklegur hluti námsins er kenndur hér á landi og slíkt eru tímamót.

Verklegar æfingar eru mjög mikilvægar

„Verklegar æfingar í þessari endurmenntun eru mjög mikilvægar,“ segir Guðni Sveinn. „Síðustu árin, eða alveg frá 2015, höfum við hjá Ökulandi farið reglulega með nemendum okkar til Þýskalands, þar sem námskeið í akstri með áherslu á neyðarviðbrögð hafa verið haldin í samvinnu við framleiðendur Mercedes Benz. Sjálfsagt eru þetta orðnir um 1.000 nemendur sem ég hef farið með utan á síðustu sex árum. Fyrir þessar Þýskalandsferðir tók í faraldrinum, en nú erum við að fara af stað að nýju, bæði með ferðir til Þýskalands og einnig námskeið hér heima. Tólf eru í hverjum hópi og að þessu sinni rúlla hér tveir slíkir í gegn. Þrautreyndur þjálfari frá Þýskalandi, Uwe Beyer, starfar með okkur og hér hafa verið tekin atriði eins og þröngar beygjur, svigakstur, bakkæfingar og nauðhemlun.“

Mikilvægt að vera vel með á nótunum

Aðstaðan til akstursæfinga í Kapelluhrauni er góð, byggð upp af Kvartmíluklúbbnum og Ökuskóla 3.

„Endurmenntun og þjálfun eru atvinnubílstjórum mikilvæg, eins og öllum öðrum stéttum. Ég tel að almenn sátt hafi náðst um mikilvægi þessara námskeiða og fækkun slysa í umferðinni segir vel hve mikilvæg þau eru,“ segir Guðni Sveinn sem minnir á að umferðarlög og -reglur séu í sífelldri þróun og ný atriði að koma inn. Sama megi segja um bílana sem verði æ fullkomnari. Mikilvægt sé því fyrir atvinnubílstjóra að vera vel með á nótunum og sækja endurmenntun, þar sem skyndihjálp er meðal kennslugreina. Almennt sé mælst til þess að fólk rifji helstu atriði hjálpar í viðlögum upp með reglulegu millibili og slíkt eigi ekki síst við um bílstjóra og fólk sem er mikið úti í umferðinni þar sem slysin verða oft.

„Á ári fer mikill fjöldi í gegnum endurmenntunarnámskeið atvinnubílstjóra hjá okkur í Ökulandi. Þá brautskráum við stóran hóp á ári hverju sem tekur meiraprófsnámskeið og -próf. Þetta er nokkurra vikna törn, en námið veitir fólki líka atvinnuréttindi og mikla möguleika,“ segir Guðni að síðustu.