— Morgunblaðið/Unnur Karen
Ertu búin að leikstýra lengi? Kannski ekki mjög lengi. Ég byrjaði á því að gera tónlistarmyndbönd og stuttmyndir. Svo leikstýrði ég tveimur þáttum af Broti og síðan einum þætti af Kötlu.
Ertu búin að leikstýra lengi?

Kannski ekki mjög lengi. Ég byrjaði á því að gera tónlistarmyndbönd og stuttmyndir. Svo leikstýrði ég tveimur þáttum af Broti og síðan einum þætti af Kötlu. Þaðan fór ég í að leikstýra tveimur þáttum af sex í nýju seríunni um Stellu Blómkvist.

Lærðir þú leikstjórn?

Nei, ég tók átta mánaða kvikmyndakúrs í lýðháskóla í Danmörku sem gagnaðist mér mjög vel. Ég hef alltaf haft áhuga á bæði kvikmyndagerð og list og fór því næst í listnám í London og útskrifaðist þaðan með háskólapróf í fagi sem er eiginlega sambland af listum og kvikmyndagerð.

Finnst þér skemmtilegt að leikstýra?

Já, mjög gaman. Það samtvinnar vel minn sögusagnaáhuga við listaáhuga. Kannski var leikstjórn alltaf það sem ég stefndi að en ég fór ekki hefðbundna leið.

Hvernig var að leikstýra Stellu Blómkvist?

Það var ótrúlega gaman, þrátt fyrir að við værum að því í miðjum faraldri. Við vorum svolítið einangruð og höfðum ekki marga aukaleikara, enda fjöldatakmarkanir og allir með grímur. En hópurinn sem kom að gerð þáttanna var alveg frábær og hæfileikaríkur og það er gaman að vinna með þennan heim hennar Stellu.

Hvað er annað á döfinni?

Ég er nýkomin frá Bretlandi þar sem ég var að vinna að sjónvarpsseríu fyrir Sky sem heitir The Rising. Síðan er ég með bíómynd í bígerð ásamt ýmsu öðru. Mér finnst líka mjög gaman að hoppa inn í auglýsingar og styttri verkefni inn á milli stærri verkefna.

Önnur sería af Stellu Blómkvist er komin í Sjónvarp Símans Premium. Þættirnir eru byggðir á samnefndri bók og er leikstýrt af Þóru Hilmarsdóttur og Óskari Þór Axelssyni.