Tryggvi V. Líndal
Tryggvi V. Líndal
Eftir Tryggva V. Líndal: "Þykir mér gott að hugsa til þess að þetta fagra og litríka efni, plastið, sé að teygja sig um gjörvöll lönd og höf."

Umhverfismál eru með stærstu málum dagsins. Ég vil ekki gera lítið úr þeim málaflokki yfirleitt, enda munu heildarhagsmunir mannsins og lífríkis jarðar vera komnir undir því að farsæl lausn finnist á þeim.

Þó þykir mér, líkt og mörgum, að rétt sé að nefna í fjölmiðlum að við eigum líka að vera þakklát fyrir bjartar hliðar á þessu fjölþætta máli. Dæmi:

Inniveruhvati?

Margir Íslendingar munu geta glaðst við tilhugsunina um að loftslagið verði ögn hlýrra á Íslandi að jafnaði. Kann þá minna að skipta að veðuröfgar aukist á móti.

Er varðar virkjun náttúrunnar, og þar með minna ósnert umhverfisútsýni fyrir ferðalanga þar, má sjá þar tilefni til að brýna fyrir fólki að halda sig þá meira í þéttbýli í frístundum sínum og rækta þar allt sem borgir hafa upp á að bjóða, og kostar stundum einungis tíma, svo sem bóklestur! Þetta segi ég þrátt fyrir ævarandi áhuga minn á líffræði, náttúrufræði og náttúruskoðun!

Leitt er til þess að hugsa að manneskjan heldur áfram á vaxandi hraða að útrýma æ fleiri tegundum dýra og plantna. En vel mætti hugsa sér að ef þær eru varðveittar nógu vel í sýnum, erfðaefnum og upplýsingamiðlum komi það að miklu leyti í staðinn.

Líkt má segja um varðveislu menningarverðmæta, svo sem gamalla húsa: lengra mætti ganga í að rífa mörg þeirra ef hægt væri að kvikmynda-skrá þau fyrst í bak og fyrir handa komandi kynslóðum.

Fegurð plastmengunar

Innblásnust þykir mér þó hugmynd mín um plastmengun. Mun hún vera vaxandi vandamál í náttúrunni þótt óljóst sé hversu slæmt það verði fyrir lífríkið. Hins vegar þykir mér gott að hugsa til þess að þetta fagra og litríka efni, plastið, sé að teygja sig um gjörvöll lönd og höf; því slíkt er óneitanlega menningartengd fjölbreytni í okkar umhverfi. Og tilhugsunin um að hafsbotnar og jarðvegur verði að miklu leyti úr plastögnum og plasthlutum finnst mér að ætti að geta hrifið myndlistarmennina, fornleifafræðingana, skáldin, sem og fólk almennt.

Um leið má gleðjast yfir að síðasta áratuginn hefur upphafist yndisleg hugsjónagleði meðal almennings við að taka þátt í að flokka sorp og safna úrgangi í náttúrunni. Er þetta fögur hlið á okkar litlu þjóð er sameinast um að hægja á þessu vaxandi vandamáli.

...

Lítið hefur farið fyrir náttúrukveðskap í ljóðum mínum. Þó vil ég birta hér stutt ljóð sem ég gerði upp úr skáldsagnatilraunum mínum í menntaskóla forðum daga, en það heitir: Umkvörtun unglingsstúlku og er svo sem dæmi um náttúrusýn mína:

Til lítils eru brún augu lóunnar,

hlýleg bringan og biðjandi rómur

um svo ómerkilega hluti.

Stór fluga settist á handarbak mitt;

ég fann hvernig hún smakkaði, kaldri tungu.

Mér finnst skordýrin vera eins og mennirnir:

Ég kemst aldrei í samband við þá!

Höfundur er skáld og menningar-mannfræðingur.