Félagsmálaráðuneytið leitaði eftir samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um lausnir til skemmri og lengri tíma vegna reksturs öryggisgæslu/öryggisvistunar fyrir ósakhæfa einstaklinga.

Félagsmálaráðuneytið leitaði eftir samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um lausnir til skemmri og lengri tíma vegna reksturs öryggisgæslu/öryggisvistunar fyrir ósakhæfa einstaklinga. Niðurstaðan var sú að Reykjanesbær tók jákvætt í erindið, eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær.

Leitað var nánari upplýsinga hjá ráðuneytinu sem svaraði greiðlega.

Gert er ráð fyrir að lóð heimilisins geti orðið allt að 2.200 fermetrar, en stærð hennar hefur ekki verið ákveðin. Félagsmálaráðuneytið og Framkvæmdasýsla ríkisins vinna að frumhönnun byggingarinnar. Gert er ráð fyrir að byggingin falli vel að umhverfinu. Markmiðið er að tryggja öruggt umhverfi fyrir íbúa og starfsmenn og að það auki möguleika þeirra sem þar búa til betra lífs.

Þurfa aukinn stuðning

„Öryggisgæsla byggist fyrst fremst á því að umhverfi sé hannað að starfseminni með sérhæfðu starfsfólki sem eykur líkur á því að þeir sem þar dvelja geti betur aðlagast samfélaginu með virkri þátttöku og auknu sjálfstæði.

Hér er leitast við að búa til heimili fyrir fatlað fólk sem þarf aukinn stuðning og sérhæfða meðferð á leið sinni út í samfélagið.

Lagt er upp með þá grunnhugmynd að um heimili fólks sé að ræða og að sú aðstoð sem veitt er styðji fólk til þess að það geti lifað sjálfstæðara lífi. Hér er því ekki um fangelsi að ræða heldur sérhæfða endurhæfingu fatlaðs fólks.“

Ráðuneytið segir að fyrir liggi skýrsla frá 2016 um stöðu þeirra sem taldir eru þurfa á öryggisgæslu/öryggisvistun að halda á Íslandi.

„Í vinnu þess starfshóps sem vann skýrsluna var haft samráð við fulltrúa innanríkisráðuneytisins (nú dómsmálaráðuneyti) um æskileg viðmið að því er varðar viðbragðstíma lögreglu ef þörf væri á sérstakri aðstoð. Niðurstaða þeirra skoðunar var að æskilegur viðbragðstími lögreglu til heimilisins (öryggisgæslu/öryggisvistun) væri um (5-7 mín.).“

Ekki gilda sérstök viðmið um fjarlægð frá heilsugæslu enda gert ráð fyrir því að þeir sem búa á heimilinu njóti sömu heilbrigðisþjónustu og aðrir íbúar. Sé þörf fyrir sérhæfðari aðstoð er gert ráð fyrir aðgengi að sérfræðingum Landspítala eða öðrum sérfræðingum eftir þörfum.

Ítarlegt frumvarp í vinnslu

Félagsmálaráðuneytið hefur á þingmálaskrá sinni veturinn 2021 og 2022 ítarlegt frumvarp um framkvæmd öryggisgæslu og annarra öryggisráðstafana sem einstaklingi er gert að sæta samkvæmt dómi eða úrskurði. Markmið með löggjöfinni yrði að tryggja þeim sem þurfa á slíkum úrræðum að halda vegna öryggis síns og/eða annarra viðeigandi stuðning. Einnig að tryggja að fyllsta réttaröryggis sé gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þeirra. „Það er von ráðuneytisins að frumvarpið verði samþykkt á komandi vetri. Því er ætlunin að lögin hafi þegar tekið gildi þegar starfsemin í Dalshverfi hefst um mitt ár 2023,“ segir í svari ráðuneytisins.

Ráðgert er að ráðuneytið fundi með hlutaðeigandi aðilum í Reykjanesbæ á næstu vikum. Það kveðst leggja mikinn metnað í að þetta verkefni í þágu fatlaðs fólks í Dalshverfi í Reykjanesbær verði góð fyrirmynd um hvernig hægt er að veita fötluðu fólki með miklar stuðningsþarfir góða þjónustu í sátt við samfélagið. gudni@mbl.is