Kvikmyndaþorp Tölvuteikning sem sýnir kvikmyndaver GN Studios. +Arkitektar sjá um hönnun og arkitektúr.
Kvikmyndaþorp Tölvuteikning sem sýnir kvikmyndaver GN Studios. +Arkitektar sjá um hönnun og arkitektúr. — Tölvuteikning/Kynningargögn GN Studios ehf.
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Fyrirtækið GN Studios ehf.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Fyrirtækið GN Studios ehf. sem er fasteignaþróunarfélag í eigu Baltasars Kormáks kvikmyndaleikstjóra ætlar sér að auka starfsemi sína á Gufunesi, bæta við nýju kvikmyndaveri sem tengt verði því sem fyrir er á vegum RVK Studios ehf. auk þjónustubyggingar og fjölbreyttari möguleika sem og að ýta undir aðra starfsemi á svæðinu í þjónustu við kvikmyndagerð.

Borgarráð samþykkti í fyrradag heimild til að gengið verði til samninga við GN Studios um kaup á Gufunesvegi 21 skv. tilboðsverði sem hljóðar upp á 320 milljónir kr. Breyta á 4.306 fermetra birgðaskemmu sem fyrir er og kemur fram í kynningargögnum GN Studio sem lögð voru fram í borgarráði að áætlaður heildarkostnaður við uppbygginguna er 1,3 milljarðar kr.

Núverandi kvikmyndaver GN Studios í Gufunesi er sagt nýtast vel fyrir stærri framleiðslu kvikmyndaverkefna en fyrirsjáanleg þörf sé á minni kvikmyndatökuverum fyrir minni tökuverkefni á svæðinu. Gert er ráð fyrir að færibandið sem áður lá yfir Gufunesveg á tíma Áburðarverksmiðjunnar verði endurgert sem göngubrú milli núverandi kvikmyndavers og fyrirhugaðra upptökuvera. Þá verði þjónustubygging við suðurhlið gömlu birgðageymslunnar nýtt fyrir starfsemi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis.

Til stendur að breyta fasteigninni á Gufunesvegi 21 í tvö minni kvikmyndaver sem þjóni minni verkefnum og samtímatökum og aðstöðu fyrir stuðningsdeildir í kvikmyndaframleiðslu sem eru á staðnum við tökur. „Má þar nefna aðstöðu fyrir leikmyndadeild til að smíða, setja saman og geyma leikmyndahluti fyrir tökur eða svæði þar sem búningadeild getur verið með heildarlager fyrir tökur eða sett upp bráðabirgðasaumastofu fyrir tökur eða jafnvel aukaskrifstofur fyrir framleiðsludeildir verkefna,“ segir í kynningu.

3 framleiðslufélög og Þorpið-Vistfélag stefna á uppbyggingu

Borgarráð samþykkti einnig að gengið yrði til viðræðna við kvikmyndaframleiðslufélögin Truenorth ehf., Pegasus ehf. og Sagafilm ehf. og Þorpið-Vistfélag ehf. um lóðavilyrði til þróunar og uppbyggingar á kvikmyndatengdri starfsemi í Gufunesi, m.a. með byggingu kvikmyndavers og aðstöðu fyrir tækjabúnað og leikmyndir á stóru útisvæði. Gera fyrstu áætlanir ráð fyrir að þar verði um nærri tveggja milljarða fjárfestingu að ræða, m.a. með byggingu þrjú þúsund fermetra stúdíós.

Í kynningu segir að markhópurinn sé íslensk og erlend kvikmyndafyrirtæki og byggt verði á góðu tengslaneti Truenorth og Pegasus. Á meðal viðskiptavina séu mörg af stærstu og þekktustu kvikmyndafélögum heims.