Ingeborg von Pezold fæddist 30. september 1926. Hún lést 15. júlí 2021.

Fyrri maki Ásgeir Bjarnþórsson listmálari, látinn, síðari maki Walter von Pezold, látinn.

Synir hennar eru Amin og Götz von Pezold.

Útför hennar fór fram 20. ágúst 2021.

Árið 1950 kvæntist Ásgeir Bjarnþórsson ömmubróðir minn Ingeborg Lorenzon, eistneskri konu. Inger, eins og hún var kölluð, kom hingað til lands með togaranum Neptúnusi og réð sig í vist. Í Eistlandi var hluti þegnanna þýskur að uppruna og myndaði milli- og efri stétt menntamanna. Úr þessari stétt lista- og fræðimanna komu forfeður Inger. Þegar Hitler og Stalín skiptust á löndum í október 1939 voru yfir 12.600 þýskumælandi íbúar reknir fyrirvaralaust út úr landinu og var fjölskyldu Inger komið fyrir í Austur-Þýskalandi. Inger lýsti síðar lífi sínu fyrir okkur ungmennunum, t.d. þegar hún varð viðskila við fjölskyldu sína á flótta undan Rússum og þurfti að standa úti á tengingum lestarvagna í þrjátíu klukkustundir áður en hún komst með naumindum til vestursins í skjól. Hún lýsti sprengjuregninu, sultinum og atvinnuleysinu í kjölfar stríðsins. Og hún sagði okkur hve dásamlegt hefði verið að koma til Íslands. Seinna sagði Inger okkur frá ætt sinni og uppruna og að móðurafi hennar, sem bar ættarnafnið Lorenzon, hefði verið „musikdirektör“ í einni af stærri kirkjum St. Pétursborgar. Móðir Inger hafði verið gift hirðlækni og átt með honum einn son, Viktor Jerovizer. Hirðlæknirinn fór til vinnu sinnar einn daginn árið 1920 og spurðist aldrei til hans meir. Móðir Inger kynntist öðrum manni að nafni, Keiser og eignaðist með honum Inger 1926. Móðir Inger dó í febrúar árið eftir en faðir hennar í júní sama ár. Inger bar ekki nafn Keiser sem var þó nafn föður hennar þar sem andlát fyrri manns móður hennar fékkst aldrei staðfest. Eftir lát föðurins fór afi Inger með dóttur sína og son hennar, Viktor, f. 1921, frá Pétursborg til Eistlands. Þessi hálfbróðir Inger hvarf líkt og faðir hans þegar hann sem unglingur fór til Rússlands að leita að föður sínum. Inger var síðan komið í fóstur til móðurbróður síns í Eistlandi en átti þar erfiða daga. Eftir stríðið lá leið hennar eftir miklar hremmingar til Íslands. Hún lýsti hörmulegum örlögum fjölskyldu á taflborði kommúnisma og nasisma. Þau Inger og Ásgeir skildu í vinsemd árið 1960 og fluttist Inger aftur til Þýskalands þar sem hún eignaðist mann og tvo syni. Inger yfirgaf Ísland með trega en hún hafði lært íslensku bæði fljótt og vel og talaði hún málið alla tíð eftir það. Í augum Inger jafnaðist engin þjóð á við Íslendinga. Svo vel hafði hún aðlagast íslensku samfélagi, að þegar hún kom aftur til Þýskalands hafði hún sérstakt íslenskt herbergi í húsi sínu, eins konar altari íslenskrar menningar. Inger hélt alltaf sambandi við okkur og aðra í fjölskyldu Ásgeirs og kom reglulega í heimsókn þegar hún varð eldri. Síðasta heimsókn hennar var í tilefni níræðisafmælis hennar. Með Inger er gengin ein úr hópi þeirra dugmiklu þýskumælandi kvenna sem komu í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar og lögðu Íslandi lið. Hún var okkur ungmennunum uppspretta gæsku og fróðleiks og veitti okkur innsýn í hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Við minnumst hennar nú með hlýhug og þakklæti. Blessuð sé minning hennar.

Marta Bergmann.