Magnús Davíð Norðdahl
Magnús Davíð Norðdahl
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi (NV), hefur afhent Alþingi og dómsmálaráðuneytinu kosningakæru þar sem þess er krafist að Alþingi úrskurði ógilda kosningu allra framboðslista stjórnmálasamtaka í kosningunum í kjördæminu.

Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi (NV), hefur afhent Alþingi og dómsmálaráðuneytinu kosningakæru þar sem þess er krafist að Alþingi úrskurði ógilda kosningu allra framboðslista stjórnmálasamtaka í kosningunum í kjördæminu.

Í kærunni kemur enn fremur fram að Alþingi fresti úrskurði um kjörbréf allra þingmanna og varaþingmanna í kjördæminu.

Magnús segir í kærunni að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi brotið gegn mikilvægum ákvæðum XV. kafla kosningalaga við meðferð kjörgagna og talningu atkvæða í kjördæminu. Ágallar séu verulegir og með engu móti hægt að útiloka að þeir gætu hafa haft áhrif á úrslit kosninga til Alþingis 25. september sl. Því beri að ógilda kosningu í NV-kjördæmi og fyrirskipa uppkosningu.

Fram kemur í tilkynningu, að Magnús trúi því og treysti að þingmenn skoði þessa kosningakæru af fullri sanngirni og alvöru.

„Uppspretta valdsins í okkar samfélagi er í þingkosningum. Löggjafarvaldið velur síðan hverjir fara með framkvæmdarvald sem síðan skipar þá sem fara með dómsvald. Heilindi kerfisins í heild eru undir í þessu máli,“ segir Magnús m.a. í kærunni.

Harma stöðuna

Yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hörmuð er sú staða sem upp sé komin vegna starfa hennar á talningarstað í kosningunum.

Biður yfirkjörstjórnin frambjóðendur og kjósendur afsökunar, en tekið er fram að talningarfólk og starfsfólk á talningarstað hafi sinnt starfi sínu af heilindum. Lýsir hún því að ábyrgðin á stöðunni sé alfarið yfirkjörstjórnar og óskar þess að starfsmenn verði ekki dregnir í umræðuna um málið.