— Morgunblaðið/Unnur Karen
Umsagnarmenn af ýmsu tagi, og eins þeir sem fjölmiðlar hafa vanið sig á að velja sem kjaftaska í sín prógröm, stundum augljóslega af ástæðum, sem ekki blasir við að séu eðlilegar, eru reyndar óþægilega oft fyrirsjáanlegri en boðlegt ætti að vera.

Umsagnarmenn af ýmsu tagi, og eins þeir sem fjölmiðlar hafa vanið sig á að velja sem kjaftaska í sín prógröm, stundum augljóslega af ástæðum, sem ekki blasir við að séu eðlilegar, eru reyndar óþægilega oft fyrirsjáanlegri en boðlegt ætti að vera.

Einfalda skýringin á því er sennilega sú, að við, áhorfandinn eða hlustandinn, þekkjum rulluna þeirra svo vel, að þúsundir manna úti í bæ gætu leyst þessa fastagesti af, ef þeir forfölluðust fyrirvaralaust, og farið með pólitísku viðhorfin og klisjurnar, og það þótt þeir hefðu flestir ímugust á áróðrinum.

Og þegar einhver þessara spekinga mætir í opinbera settið til góðkunningjans má strax í upphafi deila með tveimur í spurninguna um það, hvort einhvers frumlegs sé að vænta í þessari útsendingu.

Væri einhverjum þeirra, sem heima sitja, boðið „að borðinu“ væri það einungis til að taka þátt í að tyggja bita sem áður höfðu verið tuggðir oftar en muna mætti. Varla yrði mikil eftirsókn í þær trakteringar.

Heimsborgarar á þing

En þó var þessi kosningaslagur ekki algjörlega ófrumlegur eða að öllu leyti laus við áhugaverð tilþrif. Enda hefði verið óvenjulegt ef tveir menn í frumlegri kanti Íslendinga og stuðmenn að auki hefðu ekki haft neitt upp úr krafsi sínu, fyrst þeir slógu til.

Tómas Tómasson athafnamaður taldi seinustu forvöð að tryggja að hann gæti orðið talsmaður okkar gamlingjanna og sló því met þeirra sem hafa hlotið kosningu til þings í fyrsta sinn, með svona þroskaða kennitölu eins og hann.

Einhver benti á, sem þó var óþarft, að auðvitað færi Tommi hamborgari í gamla troðninga Borgaraflokksins og Borgarahreyfingarinnar, sem reyndar klofnaði eftir að hún var kjörin á þing og áður en hún komst í þingsalinn. En Tommi Hótel Borgari og Hamborgari er sjálfstætt gleðiefni fyrir borgara-stéttina, enda margsannað að þegar sú stétt lætur mest til sín taka vænkast hagur allra frá vöggu til grafar.

Þegar gamli flokkur gamla bréfritara hugsar til síungs slagorðs þeirra beggja, „Stétt með stétt“, viðurkennir hann í trúnaði sagt við lesanda, að sú stétt sem var þar efst á þeirra blaði, ásamt öðrum vinnandi stéttum á Íslandi, hvort sem það var sagt eða ósagt, var auðvitað borgarastéttin í ham, og það löngu fyrir daga hamborgaranna. Sú eina og sanna stétt sem ákveður sjálf hvar hana ber niður hefur síst allra brugðist lýðræðinu, hvað sem á hefur gengið.

Borgarastéttin í augum fyrrnefnds flokks var önnur en sú sem skilgreind var þröngt víða og þar með talið annars staðar á Norðurlöndum, en þar þótti gjarnan brýnast að leggja þyngstu áherslu á að skipta fólkinu upp í fylkingar og að leitast við að tryggja að tortryggni og andúð yrði aðalinntak þeirrar skiptingar.

Vinstriflokkar af öllu tagi voru ekki hrifnir af „borgarastéttinni“ hér og einkum vegna þess hve víðfeðm, fjölbreytt og fjölmenn sú góða fylking var löngum í þessu landi og þeir þráðu mest að sprengja það allt upp í illindi og gagnkvæma andstöðu, sem auðvitað felur að lokum í sér yfirgengilegt tap fyrir alla.

Eineltisliðið

En enga stétt hataði það lið í sinni meinloku þó meir en stétt „skattborgara“, og virtist aldrei telja sig hafa sparkað nóg í hana, ekki einu sinni þau Grímur og Jóhanna, sem gerðu það þó 104 sinnum, hvorki meira né minna, en þau létu, svo frægt var, að meðaltali samþykkja nýjar skattahækkanir og börðu varnarlausa skattborgara á tveggja vikna fresti, allt það dimma kjörtímabil, sem þau þjökuðu land og þjóð.

Hitt er svo önnur saga, að allt of lítið var gert, og óþægilega hægt, þegar hatursokinu var loks létt af vorið 2013 með fylgishruni skötuhjúanna.

Þótt margt væri gott gert af nýrri stjórn, þá sat á hakanum að einhenda sér í það verk sem var þýðingarmest; að tryggja að réttlætið fengi að njóta sín til fulls á ný og það án tafar.

Sjálfsagt hefur skattpíndur almenningur misjafnt álit á því, í hvað þær eru notaðar skerðingarnar á launatekjunum hans, sem fást fyrir vinnuframlagið, og eru iðulega, yfir ákveðnu lágmarki, fast að því að vera nærri önnur hver króna, og það áður en virðisaukaskattur og annað viðhengi, sem fellur á greiðendur með fjölbreyttum hætti við svo að segja hverja hreyfingu þeirra, mörgum sinnum á dag, er útkoman því sú að fjarri er, að „borgarinn“ haldi hálfum hlut tekna sinna þegar upp er staðið. Þegar þetta blasir við er það næsta undarlegt að leggja fæð á þá sem standa undir drýgstum hluta sívaxandi skattbyrðar.

Langt er gengið

Framganga „góða fólksins“, sem telur sér leyfast hvað sem er, í skjóli uppblásins málstaðar sem að þeirra mati sé yfir flest eða allt annað hafinn og sé réttlæting alls.

Í Bretlandi hefur borið á því upp á síðkastið, eftir að mótmæli gegn manngerðu veðri urðu vinsæl á ný, þegar rýmkaðist um svigrúm til þrenginga, þegar úr lokunum dró vegna kórónuveiru, að „framsækið fólk“, svo kallaðir aktivistar, taki völdin í sínar hendur, og stöðvi umferð á fjölförnum götum. Lögreglan þar virtist í fyrstu ekki þora að blanda sér í „góðverkin“ og reyndar var sitthvað í framgöngu hennar orðið harla fáfengilegt og handan við mörk. Fjöldi neyðarbíla stöðvaðist með sjúklinga innanborðs sem höfðu farið með ljósum og sírenum, en máttu sín einskis gegn góðmennunum í ruddastellingum, sem voru að stöðva manngerða veðrið, með því að stöðva nauðsynlega umferð almennings. Loks var fólkinu nóg boðið og yfirvöld urðu hrædd um atkvæðin sín, og kröfðust þess að lögregla sinnti hlutverki sínu en leyfðu ekki öfgafólki að taka stjórnina í landinu!

Það er sem sagt „nóg til“

Heyrst hefur að íslensk yfirvöld ætli sér að kasta 50 milljörðum króna í fyrstu atrennu á nýjasta tískubálið af skattfé borgaranna.

Bent hefur verið á og því ekki mótmælt að „litla sæta eldgosið“ sé 10 sinnum erfiðara heimsfárinu en öll bílaumferð á Íslandi og er þá talið með hversu miklu meira þeir menga vegna óhæfs borgarstjórnarmeirihluta í höfuðborginni og þeirra endalausu stíflna sem vangeta þeirra og delluhugmyndir tryggja.

Fjáraustur ríkisins í þetta tískumál hér hefur ekkert með framþróun þess á heimsvísu að gera og segir sig sjálft. Allur heimurinn yrði að vera með, og það jafnvel þótt kenningarnar um manngert veður, sem eru að vonum umdeildar, reyndust að einhverju leyti réttar. Kína hefur haft góð orð um að skoða aðkomu sína að hinu mikla „átaki“ um og upp úr árinu 2035 og veit enginn hvað úr slíku tali verður. Væri ekki ráð að verða samferða Kína?

Rússland Pútíns lætur ekki teyma sig í þessa vitleysu. Gæti ekki verið gott að koma í kjölfarið á honum. Viðurkennt er að Afríka og Suður-Ameríka hafa enga fjárhagslega stöðu til að blanda sér í mál af þessu tagi.

Þeir sem horfðu nýlega á hörmulegar fréttamyndir af líkbrennslum á opnum völlum af alls konar tagi, í öðru fjölmennasta ríki veraldar, eru varla að ímynda sér að Indland muni á næstunni blanda sér í þennan kostnaðarsama samkvæmisleik góða fólksins. Gæti ekki verið rétt að vera ekki að troða sér fram fyrir Indland, Afríku og Suður-Ameríku? En koma svo. Og þá eru ekki margir eftir í „heimsátakinu“ en auðvitað munar rosalega um Ísland, hvað sem spúandi eldfjöllum þeirra líður, þótt Kína, Rússland, Indland, Afríka og Suður-Ameríka og annað smælki sé ekki með.

Miklu meira en nóg til

Það þótti mikil ósvífni þegar „launþegahreyfingin“, með skylduaðild fólks úr öllum flokkum, tók að verja miklu fé, fengið með afli frá „bláskínandi fátækum launþegum“, í áróður sem félli að hugmyndum frambjóðenda með sömu pólitísku sýn og forsprakkarnir sem eyddu fjármunum launþeganna. Afsökun verkalýðsforkólfanna fyrir þessari pólitísku sjálftöku var í fæstum orðum þessi: „Það er nóg til.“ Það er erfitt að bera á móti því af hálfu ríkisstjórnar sem ætlar sér að haga sér eins og afglapi í meðferð almannafjár gegn ímynduðum heimsfaraldri, sem 85% íbúa þessa sama heims ætla ekki að koma nálægt! En á móti þessum 85 prósentum heimsbyggðarinnar kemur þó, að á Íslandi er „nóg til“.

Er það ekki öruggt?