Vinnsla Loðnuafurðirnar fara bæði til manneldis og í mjölbræðslu.
Vinnsla Loðnuafurðirnar fara bæði til manneldis og í mjölbræðslu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Þetta eru ansi mögnuð tíðindi. Gangi þetta eftir og takist að veiða alla þessa loðnu má gera ráð fyrir því að það leiði til 1,5 til 2 prósentustiga hagvaxtarauka að öðru óbreyttu.“ Þetta segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, inntur eftir viðbrögðum í kjölfar þess að Hafrannsóknastofnun lagði til að veiða megi 904.200 tonn af loðnu fiskveiðiárið 2021 til 2022.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Þetta eru ansi mögnuð tíðindi. Gangi þetta eftir og takist að veiða alla þessa loðnu má gera ráð fyrir því að það leiði til 1,5 til 2 prósentustiga hagvaxtarauka að öðru óbreyttu.“ Þetta segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, inntur eftir viðbrögðum í kjölfar þess að Hafrannsóknastofnun lagði til að veiða megi 904.200 tonn af loðnu fiskveiðiárið 2021 til 2022.

Í hagspá Landsbankans frá því í maí var gert ráð fyrir því að hagvöxtur yrði 3,3% hér á landi á árinu 2022 og miðað við mat Gústafs gæti vöxturinn því orðið allt að 5,3%. Síðastliðinn áratug hefur hagvöxtur aðeins einu sinni mælst yfir 5% en það var árið 2016 þegar hann reyndist 6,3%.

Óvissa um aflaverðmætið

Gústaf segir erfitt að leggja nákvæmt mat á það hver útflutningsverðmæti vegna komandi loðnuvertíðar verða. Þar spili ekki síst inn í hvert afurðaverðið verður, enda líklegt að mikil framboðsaukning þrýsti verðinu niður.

„Útflutningsverðmæti mun að öllum líkindum aukast minna en sem nemur veiðiaukningunni. Það gerist bæði vegna minna framboðs en einnig vegna þess að hlutfall hrogna verður minna af heildarverðmætinu. Sterkt sögulegt samband hefur verið á milli hlutfalls hrogna í heildarverðmætinu og aflamarks sem er með þeim hætti að meiri veiðar hafa dregið úr vægi hrogna í heildarverðmætinu.“

Þrátt fyrir þessa óvissu segir Gústaf ekki loku það fyrir skotið að útflutningsverðmæti loðnuafurða geti vaxið um 40 til 60 milljarða miðað við síðustu vertíð sem skilaði um 20 milljörðum króna.

„Sá afli sem mun koma í hlut Íslendinga er einhvers staðar í kringum 700 þúsund tonn. Það gæti leitt til þess að aflaverðmæti íslenskra fyrirtækja verði á bilinu 60-80 milljarðar króna og það munar um minna,“ segir Gústaf.

Hjálpar Seðlabankanum

Hann telur þessi tíðindi ekki síst jákvæð þegar horft sé til þeirra áskorana sem Seðlabanki Íslands stendur frammi fyrir.

„Þetta mun styrkja krónuna og draga þar með úr verðbólgu hér á landi. Þannig mun þetta létta á peningastefnunni og ætti Seðlabankinn að þurfa að hækka vexti minna en ella til þess að tryggja verðbólgumarkmiðið.“

Gústaf ítrekar þó að aukin umsvif í tengslum við loðnuvertíðina geti aukið á framleiðsluspennuna, eftirspurn og þar með á verðbólguþrýsting.

„Það eru áhrif sem taka verður tillit til þótt ég telji líklegt að þau verði minni en jákvæðu áhrifin sem felast í sterkari krónu. Skipakosturinn er til staðar og ekki líklegt að það þurfi að ráða mikið í áhafnir. Hins vegar mun þetta sennilega kalla á aukið vinnuafl í landi sem mun draga úr slaka á vinnumarkaði.“ Hann segir tíðindin frá Hafró mjög jákvæð í öllu tilliti og raunar mjög óvænt.

„Ég held að enginn hafi leyft sér að vonast eftir viðlíka veiðiráðgjöf. Fara þarf 20 ár aftur í tímann til að finna viðlíka afla en síðan 2002 hafa veiðar leitað niður á við og engin loðnuveiði var heimil 2019 og 2020. Þetta er hvalreki sem kemur á mjög heppilegum tímapunkti fyrir íslenskt þjóðarbú.“

Brim og Síldarvinnslan hækka

Sjávarútvegsfyrirtækin Brim og Síldarvinnslan, sem bæði eiga mikinn kvóta í loðnu, hækkuðu gríðarlega í Kauphöll Íslands í gær í kjölfar þess að fréttir bárust af hinni mjög svo uppfærðu veiðiráðgjöf Hrafrannsóknastofnunar. Þannig hækkuðu bréf Brims um 9,52% í ríflega milljarðs viðskiptum og bréf Síldarvinnslunnar hækkuðu um 9,57% í 478 milljóna króna viðskiptum.

Félögin tvö hafa raunar verið á mikilli siglingu í Kauphöllinni að undanförnu. Síðastliðna viku hefur Brim hækkað um 30,91% og frá áramótum nemur hækkun bréfanna 43,71%. Nemur markaðsvirði þess nú tæpum 141 milljarði króna.

Bréf Síldarvinnslunnar hafa hækkað um 22,94% síðastliðna viku og frá því að bréf félagsins voru skráð á markað í Kauphöll Íslands á nýliðnu sumri nemur hækkunin 28,22%. Markaðsvirði félagsins er nú 142,1 milljarður króna.