[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Gunnlaugur A. Árnason Stykkishólmi Útikörfuboltavöllur , steinsteyptur og með hitalögnum, er að verða til á lóð Grunnskólans í Stykkishólmi. Uppbygging körfuboltavallarins er samstarfsverkefni Stykkishólmsbæjar og Umf.

Úr bæjarlífinu

Gunnlaugur A. Árnason

Stykkishólmi

Útikörfuboltavöllur , steinsteyptur og með hitalögnum, er að verða til á lóð Grunnskólans í Stykkishólmi. Uppbygging körfuboltavallarins er samstarfsverkefni Stykkishólmsbæjar og Umf. Snæfells í anda samstarfs beggja aðila um að efla íþróttastarf í Stykkishólmi. Um er að ræða þriðja áfanga uppbyggingar á skólalóðinni sem hófst árið 2019. Völlurinn verður blár og rauður á litinn, 28 x 15 metrar að stærð. Á honum verða 2 stórar körfur og 4 minni sem hægt er að spila á þvert á hvorum helmingi vallarins.

Undanfarnar vikur hefur fjöldi sjálfboðaliða lagt hönd á plóg vegna framkvæmda við völlinn. Nýlega var vallargólfið steypt og var reiknað með að um 100 rúmmetrar af steypu færu í völlinn eða ca. 14 steypubílar.

Agustsson ehf. hætti starfsemi í Stykkishólmi 1. júlí sl. Í kjölfarið var öllum starfsmönnum fyrirtækisins, 32 að tölu, sagt upp störfum. Fréttin kom á óvart og var mikið áfall fyrir byggðarlagið. Fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert út línubátinn Gullhólma SH sem það lét smíða fyrir nokkrum árum, saltfiskvinnslu og söltun grásleppuhrogna. Ástæða lokunar er fjárhagsörðuleikar síðustu ára. Það er ekki sjálfgefið að það drjúpi smjör af hverju strái í útgerð og vinnslu eins og margir halda.

Sigurður Ágústsson , fyrrverandi alþingismaður, stofnaði fyrirtæki árið 1933. Það hefur í gegnum tíðina verið einn af máttarstólpum í atvinnulífinu. Fyrr á tímum rak fyrirtækið öfluga útgerð, fiskvinnslu, verslun, sláturhús, bifreiðastöð og fleira mætti nefna. Í kringum 1970 var fyrirtækið frumkvöðull í veiðum og vinnslu hörpudisks sem í framhaldinu skapaði fjölda starfa í landi og á sjó og skilaði miklu fjármagni inn í samfélagið. Fyrirtækið hefur alla tíð verið í eigu fjölskyldu stofnandans eða í 88 ár.

Sæmundarreitur er nýjasta gatan í Hólminum og er ekki löng. Hún er úti á Ytri-Höfða og verða aðeins byggð fimm hús við götuna, öll í gömlum stíl sem einkennir margar byggingar í Hólminum. Þaðan er fagurt útsýni yfir Breiðafjörðinn. Gatan er kennd við Sæmund Halldórsson kaupmann sem þurrkaði saltfiskinn á klöppunum þarna í gamla daga. Sæmundur var umsvifamikill í atvinnurekstri í Stykkishólmi frá 1892 og yfir 40 ára skeið. Hann sat einnig í hreppsnefnd og sýslunefnd um tugi ára. Stofnaði með öðrum Sparisjóð Stykkishólms og var lengi í stjórn hans.

Miklar malbikunarframkvæmdir voru í sumar. Alls voru 17.000 fermetrar malbikaðir. Aðaláhersla var lögð á hafnarsvæðið þar sem stór bílaplön voru malbikuð og leiðin að ferjunni Baldri. Á svæðinu hafa verið merkt um 150 bílastæði, þannig að vel er hugsað um bílaeigendur sem þurfa að skilja bíla sína eftir á meðan siglt er um Breiðafjörð eða skroppið út í eyjar.

Fosshótel í Stykkishólmi bauð bæjarbúum nýlega til veglegs opnunarhófs í tilefni af því að lokið var við miklar endurbætur á hótelinu og félagsheimilinu. Boðið var upp á veitingar og vandaða dagskrá flutta af heimamönnum. Rakin var saga hótelsins og félagsheimilisins. Byggingarnar voru teknar í notkun 1977 eftir langa meðgöngu. Fyrsta byggingarnefndin var skipuð 1956 og voru margar hindranir á leiðinni, en bjartsýni og mikið sjálfboðastarf skilaði verkinu í höfn. Má segja að hótelið hafi verið upphaf skipulegrar ferðaþjónustu í bænum.

Fosshótelkeðjan keypti Hótel Stykkishólm 1. maí 2016. Frá þeim tíma hafa eigendur sýnt mikinn metnað i rekstri og endurbótum á hótelinu. Í þessum áfanga var ný hæð sett á hótelið með 14 herbergjum. Félagsheimilið var endurbyggt og heldur sínu upprunalega útliti. Bar, gestamóttaka og salerni voru endurnýjuð. Hótelið býður upp á 87 herbergi. Hótelstjóri er Agnes Rut Árnadóttir og segir hún að markmiðið sé að reka nýtískuhótel þar sem gestum líði vel í hlýlegri umgjörð og fái góða þjónustu. Hún segir velvild bæjarbúa skipta miklu máli og býður þá sérstaklega velkomna að eiga góða stund í mat og skemmtanahaldi. Hótelið hefur verið stolt Hólmara og bera þeir hlýhug til þess.

Frisbígolfvöllur var settur upp í lok júlí og hefur notið töluverðra vinsælda síðan. Völlurinn telur níu holur og er á holtinu fyrir ofan íþróttavöllinn og grunnskólann. Fyrsta brautin liggur frá grunnskólanum og er kastað í átt að þjónustuhúsi tjaldsvæðis. Völlurinn rekur sig svo í kringum holtið og upp á það. Völlurinn er ekki aðeins hugsaður sem góð afþreying og hreyfing fyrir heimafólk heldur er frísbígolf einnig vinsælt á meðal ferðafólks.

Glæsilegur klifurveggur hefur verið tekinn í notkun í íþróttahúsinu. Kristján Sveinsson, í samstarfi við Stykkishólmsbæ, sótti um styrk í uppbyggingarsjóð Vesturlands og hlaut þaðan styrk í verkefnið upp á 500.000 kr. Veggurinn er átta metrar að hæð og skemmtileg viðbót við það fjölbreytilega íþróttastarf sem unnið er í Stykkishólmi. Á veggnum eru margar miserfiðar klifurleiðir og hentar hann því bæði byrjendum og lengra komnum en klifurleiðirnar eru skilgreindar eftir litum á gripunum.

Klifurveggurinn er sá hæsti á landinu, sem gerir það mun meira spennandi að fást við hann.

Stykkishólmsbær býður nú upp á akstursþjónustu fyrir eldri borgara, 67 ára og eldri. Markmið með akstursþjónustunni er að gera öldruðum einstaklingum í Stykkishólmi kleift að búa lengur heima. Akstur er pantaður í gegnum Ráðhúsið sem sendir síðan bíl á réttum tíma.

Aftanskin, félag eldri borgara í Stykkishólmi, verður með í vetur öfluga starfsemi fyrir félagsmenn sína. Félagið hefur aðstöðu í Setrinu og þar fer fram handavinna, félagsvist og kaffispjall tvo morgna.

Í íþróttahúsinu gefst kostur á leikfimi í tvo daga og sami dagafjöldi í líkamsrækt í tækjasal. Önnur afþreying er boccia, smíðar, myndlist og sundleikfimi. Formaður Aftanskins er Halldóra Sverrisdóttir.