Vigdís Häsler
Vigdís Häsler
Eftir Vigdísi Häsler: "Fyrirsjáanleiki atvinnugreinarinnar þarf að ná yfir lengra tímabil en líftíma hverrar ríkisstjórnar."

Íslensku sveitapiltarnir sem árið 1835 fóru að gefa út Fjölni sáu hvers Ísland þarfnaðist mest; að losna undan dauðri hendi erlendra yfirboðara, byggja upp fjölbreyttari atvinnuhætti svo þjóðinni myndi fjölga og að hin íslenska bændaþjóð myndi þar með halda áfram að treysta byggð í landinu og að hér myndu vaxa og dafna blómlegir kaupstaðir. * Að Fjölni stóðu engir valdamenn, heldur einn nýlega útskrifaður guðfræðingur og þrír lagastúdentar sem áttu það sammerkt að hafa alist upp í sveit en dvalist árum saman á erlendri grundu og söknuðu fósturjarðar sinnar. Þó að margt hafi breyst á þeirri rúmu einni og hálfri öld sem liðin er frá skrifum Fjölnismanna stendur þó margt eftir óhaggað. Íslendingum er best borgið með því að hafa yfirráð yfir sínum auðlindum sjálfir og að byggðafesta verður ekki tryggð nema með öflugum landbúnaði.

Landbúnaðurinn er undirstöðuatvinnugrein og hefur tryggt byggðafestu fólks í áraraðir í okkar strjálbýla landi. Það er mín bjargfasta trú að án landbúnaðar glati Ísland mikilvægum hluta af sjálfsmynd sinni. Ætla má að að minnsta kosti 9.000 störf á Íslandi tengist landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Þetta er milli 4-5% af heildarvinnuafli landsins. Það er farsælt skref fyrir okkur sem þjóð til langframa að tryggja byggðafestu í landinu og störf þeirra sem starfa í frumframleiðslu matvæla. Fyrirsjáanleiki atvinnugreinarinnar þarf þó að ná yfir lengra tímabil en líftíma hverrar ríkisstjórnar. Að öðrum kosti er hætta á að greinin verði skammsýni stjórnmálanna að bráð og við förum að byggja upp samfélag með einhæfum þankagangi og skorti á allri víðsýni.

Upplýst umræða um landbúnaðarmál er forsenda málefnalegrar afstöðu. Landbúnaðurinn er ekki einkamál þeirra sem innan greinarinnar starfa. Ábyrgð þeirra er mikil og þeim ber að tryggja stöðugt framboð landbúnaðarvara. Til þess að byggja undir það markmið verður að auka framleiðni í landbúnaði með því að stuðla að tækniframförum og tryggja bætta nýtingu aðfanga í framleiðslu landbúnaðarvara og sem hagkvæmasta nýtingu á framleiðsluþáttum. Vatn og land eru þar stórir áhrifaþættir.

Stefna í landbúnaðarmálum þarf líkt og byggðastefna að taka á félagslegum og efnahagslegum þáttum. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland þarf að hljóta framgang á þingi þar sem hún gengur út á að auka framleiðni og afköst í landbúnaði, tryggja bændum og framleiðendum landbúnaðarvara viðunandi lífskjör og styrkja hlut þeirra í virðiskeðjunni og það sem mestu máli skiptir – að tryggja þjóðinni fæðuöryggi.

* Land og lýðveldi, I. bindi, 1965.

Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.