Skagafjörður Áttstrenda kirkjan í lausu lofti. Langan tíma tók að ná réttu og góðu taki, því ekkert mátti klikka.
Skagafjörður Áttstrenda kirkjan í lausu lofti. Langan tíma tók að ná réttu og góðu taki, því ekkert mátti klikka. — Ljósmynd/Drífa Árnadóttir
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Lagni og útsjónarsemi þurfti þegar Silfrastaðakirkja í Blönduhlíð í Skagafirði var tekin af grunninum í gær, sett á vörubílspall og flutt til viðgerðar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Lagni og útsjónarsemi þurfti þegar Silfrastaðakirkja í Blönduhlíð í Skagafirði var tekin af grunninum í gær, sett á vörubílspall og flutt til viðgerðar. Nokkra klukkutíma tók að ná sæmilegu taki svo hægt væri að hífa kirkjuna, en til þess var notaður stór byggingarkrani.

Silfrastaðakirkja var byggð árið 1896 og hefur sett sterkan svip á umhverfi sitt, undir háum fjöllum. Hefur hvílt á eins konar grjótpúða á jörðinni og er fótstykki orðið mjög fúið. Þá er gólfið sigið. Þetta er meðal þess sem starfsmenn í Trésmiðjunni Ýri á Sauðárkróki munu bæta. Nokkrir mánuðir eru frá því turnspíra kirkjunnar var tekin ofan og farið með hana í viðgerð. Að grunnformi er Silfrastaðakirkja áttstrend, 6,5 m að þvermáli en hliðar 2,70 m að lengd. Þakið er krossreist upp af hliðarveggjum og tengt stöpli. Kirkjan er klædd sléttu járni. Á sex hliðum eru bogadregnir steypujárnsgluggar.

„Óneitanlega verður talsvert svipminna að líta hingað heim að Silfrastöðum þegar engin er kirkjan, en við reiknum með að óumflýjanlegar viðgerðir, sem njóta tilstyrks Minjastofnunar, taki þrjú til fimm ár,“ sagði María Jóhannsdóttir á Kúskerpi, formaður sóknarnefndar Silfrastaðasóknar, í samtali við Morgunblaðið.