Skjöl Pappírsskjölum fjölgar þótt áherslan sá á rafræna skjalavörslu.
Skjöl Pappírsskjölum fjölgar þótt áherslan sá á rafræna skjalavörslu. — Morgunblaðið/Ómar
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Hægt gengur að innleiða rafræna skjalavörslu ríkisins. Umfang pappírsskjala hjá opinberum stofnunum hefur aukist gífurlega og nota nú ríkisstofnanir um 17 þúsund fermetra til að geyma pappírsskjöl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Hægt gengur að innleiða rafræna skjalavörslu ríkisins. Umfang pappírsskjala hjá opinberum stofnunum hefur aukist gífurlega og nota nú ríkisstofnanir um 17 þúsund fermetra til að geyma pappírsskjöl. Það er langtum meira en rúmast í núverandi húsakynnum Þjóðskjalasafnsins við Laugaveg.

Þetta kemur fram í skýrslu með niðurstöðum eftirlitskönnunar safnsins á skjalageymslum afhendingarskyldra aðila ríkisins. Könnunin var gerð í sumar en skýrslan birt í gær.

Fram kemur einnig að afhendingarskyldir aðilar ríkisins hafa áhuga á að skila yngri pappírsskjölum til Þjóðskjalasafns en almennt er gert.

Nú þegar eru um 106 þúsund hillumetrar af pappírsskjölum hjá stofnunum, embættum og fyrirtækjum ríkisins, og hefur pappírsumfang þeirra vaxið um 112% frá árinu 2012. Ef gert er ráð fyrir að um 20-30% af þessum skjölum hafi ekki varðveislugildi til lengri tíma munu um 77 til 88 þúsund hillumetrar af pappírsskjölum berast Þjóðskjalasafni til varðveislu á næstu 30 árum. Til samanburðar er heildarsafnkostur Þjóðskjalasafns nú um 45 þúsund hillumetrar og ná skjölin frá 12. öld til dagsins í dag.

Í skýrslunni segir að þeir 106 þúsund hillumetrar sem eru í varðveislu stofnana, embætta og fyrirtækja ríkisins hafi að stærstum hluta myndast á síðustu 20 árum. Mikilvægt sé að Þjóðskjalasafni sé tryggt viðunandi húsnæði til að taka til varðveislu skjöl ríkisins á næstu árum og áratugum.