Blýantsteikning Mynd Sigurðar Guðmundssonar „málara“, eins stofnenda Forngripasafnsins, frá árinu 1859 af séra Halldóri Jónssyni (1810-1881).
Blýantsteikning Mynd Sigurðar Guðmundssonar „málara“, eins stofnenda Forngripasafnsins, frá árinu 1859 af séra Halldóri Jónssyni (1810-1881).
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannamyndasafnið er heiti sýningar sem verður opnuð í Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu í dag, laugardag, klukkan 14. Á sýningunni getur að líta afar fjölbreytilegt úrval mannamynda úr safneigninni.
Mannamyndasafnið er heiti sýningar sem verður opnuð í Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu í dag, laugardag, klukkan 14. Á sýningunni getur að líta afar fjölbreytilegt úrval mannamynda úr safneigninni.

Í Ljósmyndasafni Íslands, sem er ein deilda Þjóðminjasafnsins, er safnheild sem ber heitið Mannamyndasafn. Í henni er að finna ólíkar gerðir mynda, þar á meðal málverk, ljósmyndir, útsaumsverk og höggmyndir. Breiddin er mikil, frá því að vera skyndimyndir yfir í að vera ómetanleg listaverk, en eins og segir í tilkynningu frá safninu þá eiga myndirnar það allar sameiginlegt að sýna fólk.

Á þessari nýju sýningu eru safnkostinum gerð skil í gegnum 34 þemu sem ná ýmist yfir myndefnið eða gerð mynda. Þar má til dæmis skoða elstu mannamyndina sem þekkt er á Íslandi, ljósmyndir af þátttakendum í fyrstu íslensku fegurðarsamkeppninni og myndir af ýmsum hópum, gömlum og nýjum. Myndirnar eru sagðar hafa margþætt gildi. Þær eru til að mynda heimild um fyrri tíð, útlit og klæðnað einstaklinga. Þá vitnar úrvalið sem sýnt er um þróun í gerð mannamynda; frá aldagömlum teikningum og málverkum yfir í stafrænar myndir. Jafnvel umgjörð og framsetning þeirra er ákveðin heimild. Stofnað var til Mannamyndasafnsins innan Þjóðminjasafns árið 1908, fyrir 113 árum, og var tilgangur þess í upphafi að safna myndum af öllum Íslendingum. Í því eru nú yfir 60.000 myndir, afar fjölbreytilegar eins og fyrr er sagt, og spanna verkin yfir fjórar aldir. Í safninu eru til að mynda verk eftir margra þekktustu ljósmyndara íslenskrar ljósmyndasögu, kunna teiknara og myndlistarmenn, auk verka eftir óþekkta höfunda.

Myndirnar hafa að mestu leyti verið gjafir frá einstaklingum og er enn í dag tekið við myndum í Mannamyndasafnið.