[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþingiskosningar fóru fram á laugardag og eins og margir höfðu spáð þurfti að bíða úrslitanna fram eftir morgni á sunnudag. Og fram eftir viku.
Alþingiskosningar fóru fram á laugardag og eins og margir höfðu spáð þurfti að bíða úrslitanna fram eftir morgni á sunnudag. Og fram eftir viku.

Ástæða þessara vandræða var misbrestur í talningu hjá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis , en fyrir vikið kom upp vafi um hvaða jöfnunarmenn væru rétt kjörnir á þingið, þótt bót væri í máli að þingmannafjöldi flokkanna valt ekki á niðurstöðunni.

Það gerði illt verra að margvísleg svör Ingva Tryggvasonar , formanns yfirkjörstjórnar þar, voru ekki til þess fallin að sefa áhyggjur landsmanna. Ekki síst átti það við um orð hans að menn væru vanir að sinna talningunni með öðrum hætti en lög bjóða. Þar fyrir utan þótti það ekki góð yfirlýsing frá dómara við héraðsdóm Reykjaness og búast menn við skrautlegum vörnum sakborninga hjá honum í framtíðinni.

Sérstakt vandamál skapaðist vegna þessa, því samkvæmt upphaflegri úthlutun voru konur í meirihluta þingheims, líkt og bæði heimspressan og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands greindu frá. Þegar hinar leiðréttu tölur litu dagsins ljós duttu hins vegar þrjár konur út af þingi og þrír flokksbræður þeirra inn, svo Íslandsstofa þurfti að eyða vikunni í að þagga málið niður.

Úthlutun jöfnunarþingmanna var ekki einfaldari fyrir það hve margir flokkar voru í framboði og hve margir þeirra náðu inn á þing með naumu fylgi og mjög á svipuðum slóðum. Fór þó ekki eins og á horfðist því 11 flokkar voru í framboði, en þremur þeirra var alfarið hafnað.

Það var þó ekki svo að þeir átta flokkar, sem náðu mönnum inn á þing, gætu allir hrósað happi. Fimm þeirra voru með fylgi undir 10% en aðeins ríkisstjórnarflokkarnir þrír náðu fylgi yfir 10%. Sjálfstæðisflokkurinn mestu með 24,4%, Framsóknarflokkurinn bætti duglega við sig og fór í 17,3% en Vinstri-græn ráku lestina með 12,6%.

Stjórnarflokkarnir náðu því samanlögðu 53,4% fylgi og fengu 37 þingmenn kjörna. Það var því sjálfgefið að þeir ræddu saman um endurnýjað stjórnarsamstarf , sem gekk vel, þótt eitthvað væri nuddað um fjölda ráðherra og stöku málefni.

Framsóknarflokkur, Flokkur fólksins og Viðreisn voru einir um að bæta við sig fylgi, en tap hinna skýrist að hluta af fjölda flokka í framboði. Tapararnir höfðu margvíslegar skýringar á reiðum höndum um hvernig kjósendur hefðu brugðist sér og þjóðinni, en vinsælast var að kenna heimsfaraldrinum um og boða glæsta endurreisn síðar.

Mögulega var áhugi þjóðarinnar á kosningunum takmarkaður, en kjörsókn var 80,1% og hefur aðeins einu sinni verið minni í alþingiskosningum. Það var árið 2016 þegar hún var 79,2%.

Hins vegar er ekki unnt að kvarta undan stöðnun í þingsölum, því 25 nýir þingmenn voru kjörnir á Alþingi að þessu sinni. Af sama leiðir að 25 þingmenn hurfu af Alþingi. Flestir leituðu ekki endurkjörs en átta þeirra féllu í kosningunum.

Um fleira var þó kosið en þingsæti, því kjósendur í Ásahreppi afþökkuðu sameiningu við fjögur önnur sveitarfélög á Suðurlandi.

·

Eftir að ruglið við talningu í Norðvesturkjördæmi komst upp ákvað yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi að telja atkvæði þar aftur, en afar mjótt var á munum milli Miðflokks og Vinstri-grænna. Þar kom ekkert misjafnt í ljós og atkvæðatölur hinar sömu og fyrri daginn.

Landskjörstjórn var kvödd saman til þess að fjalla um talninguna í Norðvesturkjördæmi. Um mistökin þar var mikið rætt í þjóðfélaginu öllu, þótt menn væru mjög missammála um alvarleikann og áhrifin. Sumir töldu einboðið að í kjördæminu yrði að kjósa upp á nýtt, aðrir töldu það hins vegar vægustu leiðina og algert lágmark að kosið yrði aftur á landinu öllu. Skiljanlega voru fallkandídatar allra flokka sárastir og boðuðu sumir kærur, en eins bar á því að stuðningsfólk flokka, sem ekki náðu inn á þing, ætti erfitt með skapsmunina.

Eftir að formenn ríkisstjórnarflokkanna hittust, til þess að fara yfir stöðuna og kanna grundvöll frekara stjórnarsamstarfs, greindu þeir frá því að þeir myndu gefa sér út vikuna að leita að samstarfsgrundvelli áður en eiginlegar stjórnarmyndunarviðræður gætu hafist. Ef mönnum litist svo á.

Willum Þór Þórsson varð starfandi þingforseti uns þing kemur saman, en hann var 4. varaforseti þingsins á liðnu kjörtímabili. Hinir hurfu allir af þingi að eigin frumkvæði eða kjósenda.

Við athugun á auglýsingum stjórnmálaflokka á félagsmiðlum kom í ljós að Flokkur fólksins og Miðflokkurinn skáru sig mjög úr að því leyti, eyddu langmestu, meira en fjórum milljónum hvor flokkur.

Samninganefnd Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) komu saman til fundar og féllust á að lífskjarasamningurinn svonefndi héldi, þrátt fyrir að sumar forsendur hans væru brostnar. Hann gildir því til 1. nóvember 2022 eins og til stóð.

Skotmönnum var úthýst úr Reykjavíkurborg eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði að starfsleyfi borgarinnar fyrir skotvelli í Álfsnesi væri ógilt.

·

Mikið óveður gerði á þriðjudag og þurftu björgunarsveitir víða að sinna útköllum þegar Vetur konungur kom í óvænta skyndiheimsókn.

Landskjörstjórn tilkynnti að ekki hefði borist staðfesting á því að meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi hefði verið fullnægjandi. Það kemur í hlut Alþingis að úrskurða um hvort ógilda þurfi kosninguna.

Stjórnarflokkarnir reyndust sammála um að fela Katrínu Jakobsdóttur að leiða endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf ef af yrði. Framsóknarmenn voru í sigurvímu og gáfu til kynna að þeir gætu meira en hugsað sér að fá fjármálaráðuneytið. Eitthvað rann þó af þeim er á leið vikuna.

Að kosningum loknum varð ljóst að misvægi atkvæða er orðið svo mikið milli Norðvesturkjördæmis og Suðvesturkjördæmis, að færa verður þingsæti á milli kjördæmanna næst þegar gengið verður til kosninga.

Þær góðu fregnir bárust að loðnustofninn væri í brjálæðislegu stuði og að Hafrannsóknastofnun myndi leggja til tvöfalt meiri veiði á henni en gert hafði verið ráð fyrir. Á daginn kom að hún lagði til vel ríflega tvöföldun og hlutabréf í útgerðarfyrirtækjum ruku upp í verði.

·

Ákveðið var að flýta úthlutun kjörbréfa til þingmanna, svo unnt væri að kalla þing saman hið fyrsta, kjósa kjörbréfanefnd og úrskurða um talninguna í Norðvesturkjördæmi.

Flugfélagið Atlanta hefur bætt sjö þotum við flugflota sinn vegna mikillar eftirspurnar, en þar sem farþegaflutningar hafa mjög dregist saman vegna heimsfaraldursins er kominn upp skortur á flutningarými í flugi.

Landsliðsfyrirliðinn í fótbolta karla, Aron Einar Gunnarsson , hafnar alfarið sögusögnum um sig og sárnar að KSÍ hafi sett sig á bekkinn vegna óljóss söguburðar. Sumir félagar hans í liðinu íhuga að gefa ekki kost á sér í leik vegna þessa.

Eftir fund landskjörstjórnar með fulltrúum stjórnmálaflokka á þingi á föstudag var ákveðið að úthluta þingsætum í samræmi við þau úrslit, sem fengust eftir endurtalninguna í Norðvesturkjördæmi. Gefin voru út kjörbréf til þeirra sem náðu kjöri til þings og jafn margra varamanna.