Ólafur Arnar Ólafsson, Óli stormur, fæddist á Ísafirði 4. september 1940. Hann lést á sjúkrahúsinu á Akranesi 14. ágúst 2021.

Foreldrar hans voru Ólafur Bjarni Ólafsson vélstjóri, f. 27. mars 1911, d. 9. ágúst 1979, og María Þorbjörg Maríasdóttir, f. 17. maí 1914, d. 4. október 1989.

Alsystur Ólafs eru Þorbjörg Jenny Ólafsdóttir, f. 4. ágúst 1945 og Þórdís Ingibjörg Ólafsdóttir, f. 29. september 1943.

Sammæðra systur Ólafs eru Þórdís Sigríður Jóhanna Helgadóttir, f. 31. desember 1933, d. 25. desember 1940, og María Júlía Helgadóttir, f. 25. júní 1935.

Ólafur var kvæntur Guðnýju Sigurðardóttur, f. 23. september 1943, d. 22. janúar 2021, og átti með henni tvo syni: 1) Ólafur Björn Ólafsson, f. 1. október 1973, kvæntur Jolanta M. Glaz og eiga þau tvær dætur. 2) Þorsteinn Bjarki Ólafsson, f. 27. september 1974, kvæntur Tatiana Malai og eiga þau tvær dætur.

Ólafur gekk í föðurstað þremur sonum Guðnýjar af fyrra hjónabandi: Bent Christian Russel, f. 8. maí 1964, í sambúð með Helgu Ingibjörgu Reynisdóttur. Rúnar Russel, f. 21. júní 1965, kvæntur Tuti Ruslaini. Frank Russel, f. 11. desember 1966.

Ólafur var nokkur ár sjómaður, byrjaði 1951. Fyrst lögskráður háseti 1957. Lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1961, lögskráður stýrimaður 1961. Skipstjóri hjá eigin útgerð 1962. Hætti útgerð 1966. Þá stýrimaður og skipstjóri. Fór í sex mánuði til King school of English, Bournemouth, Suður-Englandi, 1970 við enskunám. Hætti sem skipstjóri 1971, útskrifaðist frá Lögregluskóla ríkisins sama ár og byrjaði þá sem lögregluþjónn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Framhaldsnám hjá Lögregluskóla ríkisins 1975.

Hann fór svo aftur á sjóinn sem stýrimaður á nokkrum skipum þar til hann hóf næst störf í lögreglunni á Ísafirði 1985. Hann flutti sig svo til í starfi 1988 er hann gerðist aftur lögregluþjónn og síðar varðstjóri í lögreglunni á Snæfellsnesi. Hann kláraði starfsævina í Stykkishólmi er hann lét af störfum sem aðstoðarvarðstjóri í lögreglunni á Snæfellsnesi undir lok september 2005, þá fullra 65 ára.

Útför Ólafs fór fram 13. september 2021.

Elsku bróðir, nú ertu farinn en eftir lifa margar góðar minningar. Við vorum náin allt okkar líf, héldum alltaf sambandi við hvort annað. Við fórum oft í margar ferðir um landið okkar og einnig ferðuðumst við saman til útlanda. Allt skemmtilegar og ævintýralegar minningar sem gott er að eiga.

Börnin mín minnast frænda síns sem alltaf tók vel á móti þeim og það var alltaf gaman að heimsækja frænda sinn hann var fullur af fróðleik og skemmtilegum sögum einnig var alltaf fullt af góðum mat og öðru góðgæti í boði fyrir þau.

Ég vil minnast þín í fáum orðum, þú varst góður lögreglumaður sem fannst til með þeim sem minna máttu sín en sást alltaf til að lögum væri framfylgt sama hvort það voru háir eða lágir sem áttu í hlut. Einnig gat ég alltaf leitað til þín ef ég þurfti á stuðningi eða aðstoð að halda.

Einnig muna börn mín heilræði frænda síns og visku. Eftirlifandi sonum, tengdadætrum og barnabörnum sendum við börn mín innilegar samúðarkveðjur.

Þórdís Ingibjörg

Ólafsdóttir.