[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pistlahöfundur er staddur í landi bjórs og svínakjöts, eftir hálfs annars árs innilokun á köldum klaka. Í lestinni á milli Zürich og München gafst tóm til að rifja upp sérkennileg orð þýskrar tungu.

Pistlahöfundur er staddur í landi bjórs og svínakjöts, eftir hálfs annars árs innilokun á köldum klaka. Í lestinni á milli Zürich og München gafst tóm til að rifja upp sérkennileg orð þýskrar tungu. Þar á meðal er vitaskuld eitt frægasta orð þýskunnar, Schadenfreude „skaðagleði“, að hlakka yfir óförum annarra. Á íslensku er talað um Þórðargleði, sem séra Árni Þórarinsson segir frá í ævisögu sinni. Meinfýsni nær að einhverju leyti utan um þessa hugmynd en þó ekki alveg.

Þýska stórskáldið Goethe ritaði magnþrungna frásögn af raunum Werthers unga og þá varð til hugtakið Weltschmerz . Það hefur verið þýtt sem „heimshryggð“, þ.e. lífsleiði eða þunglyndi yfir eigin ófullkomleika og alls heimsins.

Miklum leiðindum getur valdið það kykvendi sem Ohrwurm nefnist, „eyrnaormur“; grípandi lag sem maður fær á heilann. Því má ekki rugla saman við „eyrnafíkju“, Ohrfeige , löðrung ellegar kinnhest sem líka er kallaður Backpfeife „kinnpípa“. Einstaklingur sem á skilið löðrung er með Backpfeifengesicht „kinnhestafés“.

Schweinehund „svínahundur“ er vel þekkt þýskt orð, upphaflega notað um hund sem hafði það hlutverk að elta villisvín. Orðið er í yfirfærðri merkingu notað um ómenni – samsvarandi orð í ensku er son of a bitch „tíkarsonur“ eða jafnvel „skrattakollur“ (þó ekki endilega blaðamaður). Sérstaka notkun þýska orðsins má sjá í sambandinu seinen inneren Schweinehund überwinden „sigrast á sjálfum sér“, þ.e. litla djöflinum sem býr innra með manni. Nema hvað Þjóðverjar sjá þennan djöful fyrir sér sem svínahund og tala um að yfirstíga sinn „innri svínahund“.

Þýskumælandi fólki er ekki síður hugstætt svínið sjálft, das Schwein ; þar af er dregið Schweinerei „svínarí“. Kvenkyns afbrigðið er Sau , gylta eða sýr (beygist eins og kýr : sýr , , , sýr ), og subbuskapurinn í kringum það er Sauerei , annað orð um svínarí. Leiðindaveður eða skítaveður er Sauwetter en sau- getur líka verið áhersluforliður og táknað eitthvað gott: Das ist saugut „Þetta er svínslega gott, æðislega gott“.

Sumir líkamshlutar eru Þjóðverjum einkar hugleiknir. Þýskir lærdómsmenn eru annálaðir fyrir að skrifa þykka doðranta. Til þess þarf vöðvamikinn afturenda, Sitzfleisch „sætiskjöt“ eða sitjanda. Flestir þýskir karlmenn sem eitthvað kveður að eru með Bierbauch , bjórvömb, eða a.m.k. Bauchansatz , fyrstu ummerki um bumbumyndun. Bjór er eðlilega uppspretta ófárra þýskra orðtaka: Das ist nicht mein Bier „það er ekki minn bjór“ ( It's not my cup of tea , eins og Tjallinn segir, „ekki minn tebolli“). Um daginn var mér boðinn Mitbier „meðbjór“, þ.e. bjór sem gestgjafinn gefur gesti sínum í lok samkvæmis svo hann sé ekki þurrbrjósta á heimleiðinni. Að öðrum kosti getur maður fengið Kummerspeck „áhyggjuspik“. Mér er alveg sama er á þýsku Das ist mir Wurst „það er mér pylsa“. Pylsuþýskarinn er samur við sig!

Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is

Höf.: Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is